Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

17 janúar 2005

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherraHeitast í umræðunni
Eins og öllum er kunnugt hefur mjög verið deilt á seinustu mánuðum um málefni innrásarinnar í Írak fyrir tveim árum, í mars 2003, og stuðningsyfirlýsingu Íslands við það. Andstæðingum innrásarinnar og stríðsins í Írak hefur gramist mjög að Ísland hafi lýst yfir stuðningi við innrásina og gagnrýnt mjög hvernig um málið var fjallað á Alþingi á sínum tíma. Stuðningsmenn innrásarinnar telja aftur á móti að ekkert hafi verið athugavert við meðferð málsins, rétt hafi verið að ráðast inn í landið og ekki sé hægt að hætta við þann stuðning, enda innrásin löngu liðin og ekki hægt að snúa við gangi sögunnar. Greinilegt er að ólga er innan Framsóknarflokksins um þessi mál, tengjast þau eflaust væntanlegu flokksþingi þess og hræringum varðandi varaformannskjör þar. Fróðlegt var að heyra yfirlýsingar Guðna Ágústssonar landbúnaðarráðherra og varaformanns flokksins, í fjölmiðlum í gær, í Sunnudagsþættinum og viðtali í Fréttablaðinu. Þar sagði hann að ákvörðun um stuðning Íslands við innrásina orki tvímælis. Var ekki hægt að sjá betur en að þessi ummæli Guðna væru óbeint skot á formann flokksins og forsætisráðherrann.

Í dag gaf svo Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, út yfirlýsingu um þessi mál vegna umræðu seinustu daga, einkum ummæla Guðna. Í yfirlýsingunni segir meðal annars að Íraksmálið hafi verið rætt nokkrum sinnum í í utanríkismálanefnd og á Alþingi veturinn 2002 - 2003. Þar segir: "12. mars 2003 felldi meirihluti nefndarinnar að afgreiða úr nefnd tillögu Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs til þingsályktunar um að "ríkisstjórnin beiti sér gegn áformum um innrás í Írak og að Ísland standi utan við hvers kyns hernaðaraðgerðir gegn Írak." Málið var rætt síðar um daginn í þingsal undir dagskrárliðnum Um störf þingsins og sagði þáverandi utanríkisráðherra þá m.a: "Nú liggur fyrir að meiri hluti þingsins útilokar það ekki að valdi verði beitt í þessum málum. ... en það liggur alveg ljóst fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar að það er ekki hægt að ná friði og friðsamlegri lausn varðandi Írak nema að baki liggi alvarleg hótun." Að morgni 18. mars 2003 var ríkisstjórnarfundur og var Íraksmálið fyrsta málið á dagskrá. Sá fundur var undir stjórn utanríkisráðherra vegna forfalla forsætisráðherra. Í kjölfar þess fundar ákváðu þáverandi utanríkisráðherra og forsætisráðherra að styðja aðgerðir undir forystu Bandaríkjamanna og Breta um að afvopna Saddam Hussein og var sendiherra Bandaríkjanna tilkynnt um það." Málið lítur mjög einfalt út. Það hafði verið rætt innan utanríkismálanefndar og afstaða tekin í samræmi við meirihlutavilja þingmanna þess efnis að lýsa yfir stuðningi við innrásina. Það þýðir ekki að breyta gangi sögunnar nú. Afstaða okkar á þeim tíma var með þeim hætti sem þá var. Ég fór ítarlega yfir þetta mál í sunnudagspistli í gær.

KrossÁratugur var í gær liðinn frá snjóflóðinu mannskæða í Súðavík. Mikill harmur var kveðinn yfir öllum landsmönnum að morgni mánudagsins 16. janúar 1995, er þessar náttúruhamfarir riðu yfir. 14 manns létu lífið þar, þar af 8 börn og margir misstu allt sitt og sína nánustu ættingja. Það högg sem Vestfirðingar urðu fyrir á þeim degi og síðar sama ár er snjóflóð féll á Flateyri snertu við allri þjóðinni. Íslendingar stóðu þá eins og jafnan á slíkum stundum saman í órjúfandi heild og mættu því sem að höndum bar með samhug í verki. Þessi kaldi mánudagur í janúarmánuði fyrir áratug gleymist mér aldrei. Mikið áfall var að heyra fyrstu fréttir af þessu snjóflóði þennan morgun og heyra nánari fréttir af gangi mála eftir því sem leið á daginn. Ekki gleymist heldur framganga Vigdísar Finnbogadóttur þáverandi forseta Íslands, og Davíðs Oddssonar þáverandi forsætisráðherra, sem fóru vestur og sýndu aðstandendum samúð sína við minningarathöfn sem haldin var til heiðurs hinum látnu. Samhugur Íslendinga í hörmungum ársins 1995 gleymast ekki okkur sem upplifðum þessa köldu daga og geymast í hjartanu um eilífð.

Um helgina var haldin landssöfnun til styrktar þeim sem misstu allt sitt í náttúruhamförunum í Asíu um jólin. Söfnunin var haldin undir yfirskriftinni: Neyðarhjálp úr norðri. Er óhætt að fullyrða að Íslendingar hafi tekið vel við sér og sýnt samhug í verki eins og svo oft áður er náttúruhamfarir verða. Íslendingar þekkja mátt náttúrunnar eins og hefur sannast af því sem gerðist á Vestfjörðum fyrir áratug. Þá komu margir okkur til hjálpar og lögðu peninga til styrktar þeim sem áttu þá um sárt að binda. Við endurgjöldum þann vinarhug með sama hætti og tökum þátt í að styrkja þá sem misst hafa sitt. Söfnuðust rúmlega 110 milljónir króna til styrktar þessu verkefni, sem er stórglæsilegur árangur. Fór ég í verslunarmiðstöðina Glerártorg á laugardag og fylgdist þar með dagskrá sem haldin var til að styrkja fólkið í Asíu. Þar var verið að safna og gaf ég í söfnunina og ræddi við þau sem þar héldu utan um dagskrá og voru að sinna þessu verkefni hér. Hitti ég marga aðra sem þarna voru komnir og var stemmningin þarna notaleg og gekk vel þarna eins og annarsstaðar á landinu við þessa söfnun. Áður en Neyðarhjálp úr norðri hófst formlega höfðu Íslendingar þegar lagt 250 milljónir alls til söfnunarinnar. Einnig höfðu tæplega 20 milljónir safnast til viðbótar frá einstaklingum og fyrirtækjum. Um er því að ræða mjög öflugt átak okkar allra Íslendinga og mikilsvert framlag sem vonandi nýtist vel til styrktar þeim sem misst hafa sitt og þar sem byggja verður upp eftir hamfarirnar.

Annette Bening vann verðlaunin fyrir leik sinn í Being JuliaGolden Globe 2005
Golden Globe, kvikmynda- og sjónvarpsverðlaunin voru afhent í Los Angeles sl. nótt í 62. skiptið. Sigurvegari kvöldsins var kvikmyndin The Aviator, er fjallar um ævi Howard Hughes. Var tilnefnd til sex verðlauna en hlaut þrenn. Var valin besta dramatíska kvikmynd ársins og hlaut Leonardo DiCaprio verðlaun fyrir leik í aðalhlutverki og Howard Shore fyrir tónlistina. Kvikmyndin Sideways var valin besta gaman/söngvamynd ársins og hlaut einnig verðlaun fyrir besta handrit ársins. DiCaprio var eins og fyrr segir valinn besti leikarinn í dramatískri mynd fyrir leik sinn í The Aviator. Hilary Swank hlaut verðlaunin sem leikkona í dramatískri kvikmynd fyrir leik sinn í Million Dollar Baby. Jamie Foxx var valinn besti leikarinn í gaman/söngvamynd fyrir magnaðan leik sinn í Ray, en hann fer þar á kostum í hlutverki söngvarans Ray Charles og að margra mati hreinlega verður söngvarinn einstaki að öllu leyti, sannkallaður leiksigur. Annette Bening hlaut verðlaunin sem besta leikkonan í gaman/söngvamynd fyrir leik sinn í Being Julia. Fer Annette á kostum í myndinni og er þegar talið líklegast að hún muni hljóta óskarinn fyrir leik sinn.

Gamla brýnið Clint Eastwood var valinn leikstjóri ársins fyrir kvikmynd sína, Million Dollar Baby. Að margra mati er þetta besta kvikmynd Eastwood, en hann fer einnig á kostum í hlutverki í myndinni en hann leikur þar boxþjálfarann Frankie Dunn. Clive Owen var valinn leikari í aukahlutverki fyrir leik sinn í Closer, og Natalie Portman var valin leikkona í aukahlutverki, einnig fyrir leik sinn í Closer. The Life and Death of Peter Sellers var valin besta sjónvarpsmynd ársins og aðalleikari myndarinnar, Geoffrey Rush var valinn besti leikarinn í sjónvarpsmynd. Glenn Close var valin besta leikkonan í sjónvarpsmynd fyrir leik sinn í The Lion in Winter. Desperate Housewives var valin besta gamanþáttaröðin í sjónvarpi og aðalleikkona þáttanna, Teri Hatcher var valin besta leikkonan í gamanþætti. Jason Bateman var valinn besti leikarinn í gamanþætti. Nip/Tuck var valinn besti dramatíski þátturinn í sjónvarpi. Ian McShane var valinn besti leikarinn í dramaþætti fyrir leik sinn í Deadwood og Mariska Hargitay besta leikkonan fyrir Law and Order: Special Victims Unit. Spænska kvikmyndin Mar adentro var valin besta erlenda mynd ársins. Leikarinn Robin Williams hlaut Cesil B. DeMille heiðursverðlaunin fyrir æviframlag sitt til kvikmynda. Kvikmyndahluti Golden Globe gefur oft vísbendingar um Óskarsverðlaunin sem afhent eru í lok febrúar, en tilnefningar til verðlaunanna verða formlega kynntar í næstu viku.

Áhugavert efni
Hvernig á að ráðstafa söluvirði Símans?
Furstinn í fílabeinsturninum - pistill Elínar Gränz
Minnkum skriffinnskuna - pistill á Vef-Þjóðviljanum
Þögul kistulagning - pistill Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur
Ábyrgðarleysi R-listans - pistill Magnúsar Þórs Gylfasonar

Saga dagsins
1850 Pereatið - skólasveinar í Lærða skólanum gera hróp að Sveinbirni Egilssyni rektor skólans. Þeir hrópuðu 'Pereat' (niður með hann). Nemendurnir voru að mótmæla skylduaðild að bindindisfélagi
1914 Eimskipafélag Íslands hf. stofnað í Iðnaðarmannahúsinu í Reykjavík - varð eitt af öflugustu fyrirtækjum landsins og oft nefnt óskabarn þjóðarinnar. Fyrsti stjórnarformaður var Sveinn Björnsson
1991 Persaflóastríðið hefst - George H. W. Bush forseti Bandaríkjanna, fyrirskipar hermönnum að ráðast á Írak. Hann ávarpaði bandarísku þjóðina, tveim tímum eftir upphaf átakanna. Takmarkið var að frelsa Kuwait undan Írökum, en þeir höfðu hertekið landið í ágústmánuði 1990. Stríðinu lauk með fullum sigri Bandamanna 27. febrúar. Einræðisstjórn Saddam Hussein í Írak féll svo loks í apríl 2003
1991 Sautjánda Heklugosið á sögulegum tíma hófst - gosið þótti mjög öflugt og stóð það í 53 daga
1991 Ólafur V Noregskonungur, lést, 87 ára að aldri. Ólafur var konungur frá 1957 allt til dauðadags

Snjallyrðið
Gagntekinn, hrifinn, utan við mig enn
af æsku þinnar fyrstu munarkossum
ég finn í hjarta ást og ótta senn
slá undarlega saman heitum blossum.

Þú ert svo björt, svo ung og blíð og góð,
önd þín er gljúp, sem mjúk er höndin ljúfa.
En ég á dökkt og órótt ólgublóð,
og ungur sló ég sigg á mína hnúa.

Það stingur mig í hjartað eins og ör:
Felst, ef til vill, í bylgjum sálar minnar
eitthvað, sem kynni að setja fingraför
á fagurhreinan spegil sálar þinnar?
Hannes Hafstein skáld og ráðherra (1861-1922) (Ást og ótti)