Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

16 febrúar 2005

Davíð Oddsson utanríkisráðherraHeitast í umræðunni
Davíð Oddsson utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, er mættur til starfa að nýju eftir rúmlega mánaðarleyfi erlendis. Ekki er laust við að Davíðs hafi verið saknað, bæði af stjórnarsinnum og ekki síður stjórnarandstæðingum, í stjórnmálaumræðunni seinustu vikur. Sterk pólitísk staða hans kom nýlega vel fram í skoðanakönnun þar sem spurt var hvaða stjórnmálamanni þjóðin treysti best. Þar var Davíð á toppnum, þrátt fyrir að hafa verið fjarverandi úr umræðunni vikurnar áður en könnunin var gerð. Er gott að Davíð sé kominn aftur og taki af skarið í mikilvægum málum sem beðið hafa á hans borði seinustu vikur. Ekki síður er gott að heyra skoðanir hans á þessum málum. Meðal þessara mála er umsókn Íslands í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Mikil og öflug umræða varð um málið í fjarveru Davíðs. Eins og flestum er kunnugt hefur Ísland ákveðið að sækjast eftir sæti í Öryggisráðinu árið 2009 og hefur hafið kosningabaráttu til að hljóta þar sæti. Alls eiga 15 ríki sæti í Öryggisráðinu, þar af eru fimm með fast sæti. Kosið verður um hin 10 sætin á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Ísland mun keppa um laust sæti í ráðinu við Tyrkland og Austurríki. Hefur allt frá upphafi verið deilt mjög harkalega um þessa umsókn og sitt sýnist hverjum.

Hef ég alla tíð verið mjög andsnúinn þessari umsókn, eins og ég hef margoft ítrekað í skrifum mínum. Skrifaði ég ítarlegan pistil um málið síðast, þann 7. febrúar sl. og fór þá yfir umræðuna vikurnar á undan. Í pistlinum bar ég fram þá ósk að Davíð myndi beita sér í þá átt að hætta við þessa umsókn með formlegum hætti. Í gærkvöldi var Davíð í viðtali í fréttatíma Stöðvar 2. Þar var m.a. komið inn á öryggisráðsumsóknina. Þar talaði Davíð mjög með þeim hætti að allt væri í óvissu í málinu. Sagði hann að það yrðu möguleikar Íslands á að hljóta sæti í ráðinu metnir litlir yrði að meta stöðuna eftir því og jafnvel þá hætta kosningabaráttunni, sem þarf að heyja til að hljóta sætið. Fannst mér gott að heyra þessi ummæli Davíðs og viðbrögð hans í þessa átt. Tel ég mjög litlar líkur á að við myndum hljóta þetta sæti og hef heldur ekki séð þörfina á að fara út í þessa kosningabaráttu um sæti í ráðinu. Meirihluti þeirra mála sem tekinn er fyrir af Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna eru málefni sem Íslendingar hafa hingað til lítið sem ekkert beitt sér í, því tel ég rétt að menn horfi í aðrar áttir. Ég vona að utanríkisráðherra og ríkisstjórnin taki þá ákvörðun brátt að hætta við þessa ákvörðun. Það er hið eina rétta sem á að gera. Er ég enn vissari en áður um að hætt verði við málið. Eins og fram kom í pistli mínum í byrjun mánaðarins er það mitt mat að utanríkisþjónustan sé orðin of dýr og rétt því að staldra við og íhuga betur bæði allt þetta mál og ekki síður utanríkisþjónustuna í heild sinni. En, það er ánægjuefni að Davíð sé kominn aftur. Svaraði hann mörgum spurningum á þingfundi í dag og fór yfir stöðuna í fjölda mála. Skartaði hann þar nýrri hárgreiðslu og leit vel út eftir fríið.

Kristinn H. GunnarssonSættir hafa nú náðst innan þingflokks Framsóknarflokksins milli forystu flokksins og Kristins H. Gunnarssonar, þingmanns flokksins í Norðvesturkjördæmi. Á fundi þingflokksins þann 28. september 2004 var ákveðið að Kristinn myndi ekki sitja í þingnefndum fyrir hönd flokksins. Hafði mikill ágreiningur verið milli Kristins og forystu flokksins og trúnaðarbrestur orðinn innan hópsins í garð Kristins. Áður en þingflokkurinn tók þessa ákvörðun hafði hann setið í fjórum nefndum fyrir flokkinn: verið formaður í iðnaðarnefnd og varaformaður í þrem nefndum: efnahags- og viðskiptanefnd, sjávarútvegsnefnd og samgöngunefnd. Sættirnar nú gera ráð fyrir því að Kristinn fari aftur í tvær nefndir. Hann verður aftur varaformaður sjávarútvegsnefndar og tekur einnig sæti sem varaformaður í umhverfisnefnd. Að auki mun hann fara í EFTA-þingmannanefndina. Engar aðrar breytingar verða á þessum tímapunkti. Nefndaskipan flokksins verður aftur tekin til endurskoðunar í haust er næsti þingvetur hefst.

Trúnaðarbresturinn milli Kristins og forystunnar hafði óneitanlega skaðað flokkinn, enda mjög fátítt að sitjandi þingmaður sé tekinn úr þingnefndum. Er það mjög stór hluti þingmennskunnar að sitja í nefndum og án þess verður þingmaðurinn auðvitað mjög utangarðs í starfinu í þinginu. Er ekki vafi á að Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra og formaður flokksins, hefur viljað með sættum við Kristinn styrkja stöðu sína fyrir komandi flokksþing í lok mánaðarins og lægja öldurnar. Hafði komið upp mikil óánægja innan flokksfélaga í Norðvesturkjördæmi með þessa ákvörðun forystu þingflokksins í fyrra og ljóst að ólga var uppi. Sást þetta vel í síðustu viku er Halldór hélt fund á Ísafirði. Mikil óánægja kom þar fram með stöðu Kristins H. Eflaust telur Halldór rétt að semja við Kristinn og reyna að sætta ólík sjónarmið og styrkja flokkinn. Kristinn gekk í flokkinn fyrir sjö árum, en hann hafði áður verið alþingismaður Alþýðubandalagsins. Hann var þingflokksformaður Framsóknarflokksins, kjörtímabilið 1999-2003. Kristinn varð, allt frá því hann missti þingflokksformennsku hjá Framsókn sumarið 2003, einskonar sólóleikari innan flokksins. Það kom fáum á óvart að hann missti sess sinn eftir kosningar, en fáir bjuggust við að hann missti allar nefndasetur sínar. En það verður óneitanlega fróðlegt að fylgjast með stöðunni innan flokksins, í kjölfar þessara sáttaumleitana milli Kristins og forystunnar.

Punktar dagsins
Alþingi Íslendinga

Í dag birtist fyrsti pistill minn á vefritinu íhald.is. Þar ritar góður hópur fólks og er öflug ritstjórn þar, sem í eru vinir mínir: Þorsteinn Magnússon, Gísli Freyr Valdórsson og Sindri Guðjónsson (sem situr ásamt mér í stjórn Varðar). Mun ég koma til með að skrifa þar nokkrar línur þegar vel við á. Í fyrsta pistlinum rita ég um umfang ríkisins í eignarhlutum í hlutafélögum og einkahlutafélögum. Ég taldi nauðsynlegt að rita um þessi mál í kjölfar fyrirspurnar Sigurðar Kára Kristjánssonar alþingismanns, til Geirs H. Haarde fjármálaráðherra, nýlega um þessi mál. Óhætt er að fullyrða að svarið hafi komið á óvart og sé í senn bæði sláandi og ótrúlegt. Ríkið á eignarhlut í rétt um 200 hlutafélögum og einkahlutafélögum. Ríkissjóður átti í alls 24 fyrirtækjum 1. desember 2004. Ríkisstofnanir í A-hluta eiga frá 0,9 prósent til 100% í 29 fyrirtækjum. Fyrirtæki Byggðastofnunar eru alls 78 talsins og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins á alls 64. 11 fyrirtæki voru í eigu annarra ríkisfyrirtækja. Fer ég yfir þessi mál í pistlinum og tjái mínar skoðanir á því sem þurfi að gera. Hvet ég fjármálaráðherra og forystumenn flokksins til að taka á þessum málum með afgerandi hætti.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra

Svo vel hittist á að ennfremur birtist í dag ítarlegur pistill minn um málefni Ríkisútvarpsins, á vef SUS. Þar fer ég yfir stöðu mála og þær breytingar sem nefndar hafa verið á stofnuninni í viðtölum seinustu daga af hálfu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra. Eins og fram kemur í pistlinum skiptir máli að tekið verði á stöðu RÚV sem fyrst og málið leitt með afgerandi hætti til lykta, en ekki legið í vafa með stöðuna eins og nú virðist vera raunin. Eins og allir vita sem lesið hafa pistla mína um RÚV er þetta mál sem ég tel skipta mjög miklu máli, og skoðanir mínar mjög skýrar á stöðu RÚV. Einfalt er hvað þarf að gera: breyta þarf með afgerandi hætti rekstrarfyrirkomulagi stofnunarinnar. Þar liggur lausnin að því að stokka upp RÚV og koma þessari stofnun einhvern þann framtíðarveg sem mikilvægur er. Hlutafélagavæðing RÚV gæti verið eitt skref á langri leið, enda tel ég að enginn vafi leiki á að á endanum mun ríkið hætta að vera í samkeppni við einkastöðvar á fjölmiðlamarkaði. Sá dagur mun renna upp, vonandi fyrr en seinna, að skattgreiðendur í þessu landi haldi ekki úti náttrisa í samkeppni við einkaframtakið í fjölmiðlum.

James Stewart og Grace Kelly í Rear Window

Horfði í gærkvöldi á Rear Window, hið frábæra meistaraverk Sir Alfred Hitchcock, frá árinu 1954. Hitch var meistari spennumyndanna, sannkallaður snillingur í að ná fram því besta frá leikurum sínum og skapa ógleymanlegar stórmyndir. Þessi mynd er skólabókardæmi um það. Í Rear Window segir frá ljósmyndara sem fótbrotnaði í vinnuslysi, neyðist því til að vera heima og hefur lítið fyrir stafni og hundleiðist það, vægast sagt. Hans tómstundaiðja heima við verður að nota sjónkíkinn sinn til að fylgjast með mannlífinu hjá nágrönnunum. Uppgötvar hann sér brátt til mikillar skelfingar að einn þeirra hefur myrt eiginkonu sína og hefur hulið spor sín svo vel að líkið mun aldrei finnast nema hann leysi málið sjálfur. En þá vandast málin, hvernig getur hann sannfært aðra um að nágranninn hafi framið verknaðinn og að hann hafi nokkru sinni átt sér stað. Þær einu sem virðast trúa honum eru kærastan hans Lisa og sjúkranuddarinn Stella, en það er ekki nóg. Hann verður að fá liðsinni lögreglunnar áður en nágranninn kemst að því að hann hafi verið staðinn að verki, þá gæti allt verið orðið of seint.

Hér gengur bókstaflega allt upp til að skapa ómótstæðilegt og klassískt meistaraverk sem er eitt af bestu verkum meistara Hitchcock. Óskarsverðlaunaleikarinn James Stewart vinnur einn af stærstu leiksigrum ferils síns í hlutverki ljósmyndarans L.B. Jeffries og ber hann myndina hreinlega uppi, hann er á skjánum allan tímann. Er hreint út sagt frábært að fylgjast með þessum leikara sem er hiklaust einn af allra bestu leikurum tuttugustu aldarinnar í þessu stórfenglega hlutverki. Óskarsverðlaunaleikkonan Grace Kelly er sannkallað augnayndi í hlutverki Lisu Freemont, hinnar trygglyndu og vellauðugu unnustu Jeffries. Grace var sjaldan betri og flottari en hér á ferlinum. Ein besta gamanleikkona síðustu aldar, hin frábæra Thelma Ritter, fer á kostum í hlutverki sjúkranuddarans Stellu. Hnyttnir og góðir brandarar verða að gullmolum í meðförum hennar. Síðast en ekki síst er Raymond Burr flottur hér, en aldrei þessu vant leikur hann hér vonda kallinn, en hann var helst þekktur fyrir túlkun sína á lögfræðingnum Perry Mason. Þessa mynd verða allir sannir kvikmyndaunnendur að sjá. Það verður upphafið að góðum kynnum að sjá þessa.

Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri

Áður en ég leit á meistaraverk Hitchcock horfði ég á bæjarstjórnarfund og umræður þar um málin. Fundurinn var í styttra lagi, aðeins um 50 mínútur. Þar var þó gagnleg umræða. Samþykkt var að aflétta kaupskyldu og forkaupsrétti bæjarins af öllum félagslegum eignaríbúðum í bænum frá 15. september. Mikið var rætt um málefni Sjallareitsins, sem ég hef áður vikið hér að í þessari viku og þeim tillögum sem fyrir liggja um nýtingu reitsins og framtíðarplan hans. Var gott að heyra skoðanaskipti kjörinna fulltrúa um þessi mál. Var tillaga umhverfisráðs um reitinn samþykkt með öllum 11 atkvæðum í bæjarstjórn. Á fundinum samþykkti bæjarstjórn ennfremur eftirfarandi ályktun um málið, sem rétt er að taka undir.

"Bæjarstjórn Akureyrar vill af gefnu tilefni ítreka að hún stendur heilshugar að baki hugmyndasamkeppni Akureyrar í öndvegi og ekki stendur til að spilla fyrir forsendum keppninnar. Bæjarstjórn mun skoða vel þær tillögur keppenda sem bestar þykja og reyna að sjá til þess að uppbygging miðbæjarins verði í samræmi við þá heildarsýn sem ætla má að myndist í kjölfar keppninnar. Mikilvægt er að hafa í huga við umræðu um skipulagsmál á svokölluðum Sjallareit að áherslur hafa verið í mörg ár hjá bæjaryfirvöldum um að þétta þar byggð og þær hugmyndir sem nú eru uppi hafa verið í umræðu á vettvangi bæjarmála í rúmt ár. Fyrir liggur að vinna við deiliskipulag á þessum reit er enn á frumstigi og engra frekari ákvarðana að vænta í því fyrr en löngu eftir að úrslit hugmyndasamkeppninnar liggja fyrir."

Saga dagsins
1920 Fyrsta dómþing Hæstaréttar Íslands háð - þar með fengu Íslendingar í eigin hendur æðsta dómsvald í sínum málum. 9 dómarar sitja í Hæstarétti. Forseti réttarins er Markús Sigurbjörnsson
1959 Byltingarleiðtogi Kúbu, Fidel Castro, tekur formlega við völdum í landinu - hann hefur síðan verið forseti Kúbu og leiðtogi kommúnista þar. Castro er einn af þaulsetnustu þjóðarleiðtogunum
1959 Dauðarefsing var formlega afnumin í Bretlandi - síðasta aftakan í Bretlandi fór fram árið 1956
1981 Mikið fárviðri gekk yfir sunnan og vestanvert landið - vindur fór í rúmlega 62 metra á sekúndu
1995 Hornsteinn var lagður að nýju húsi Hæstaréttar, á 75 ára afmæli réttarins - nýtt dómhús, sem var reist við Lindargötu, var svo formlega tekið í notkun af forseta Íslands í septembermánuði 1996

Snjallyrðið
Vegir liggja til allra átta,
enginn ræður för;
hugur leitar hljóðra nátta,
er hlógu orð á vör,
og laufsins græna á garðsins trjám
og gleði þyts í blænum.
Þá voru hjörtun heit og ör
og hamingja í okkar bænum.

Vegir liggja til allra átta,
á þeim verða skil,
margra er þrautin þungra nátta
að þjást og finna til
og bíða þess að birti á ný
og bleikur morgunn rísi.
Nú strýkur blærinn staf og þil
stynjandi í garðsins hrísi.
Indriði G. Þorsteinsson rithöfundur (1926-2000) (Vegir liggja til allra átta)