Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

06 febrúar 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um valdaátökin í Framsóknarflokknum og Samfylkingunni sem hafa yfirskyggt allt annað í vikunni í stjórnmálaumræðunni. Spunamennska hefur sett mjög svip sinn á stöðu mála innan beggja flokka í valdaátökunum og er merkilegt hvernig unnið er á bakvið tjöldin með þeim hætti. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, hefur safnað að sér fjölda spunasérfræðinga úr fjölmiðlastétt til að tala fyrir sig sem víðast, atvinnumenn í fjölmiðlum og fagmenn í því að svara pólitískum árásum. Eitthvað virðist þeim bregðast bogalistin að gera forsætisráðherrann öflugan talsmann og kraftmikinn forystumann ef marka má skoðanakönnun Fréttablaðsins sem sýnir hann með lítið persónufylgi og að tiltrú landsmanna á honum er ekki mikil. Í Samfylkingunni er Ingibjörg Sólrún í sinni spunamennsku með sínum ráðgjöfum. Ekkert nýtt við það, brátt fara eflaust að birtast kannanir sem eru hannaðar til að feta leið Ingibjargar áfram úr því kviksyndi sem hún kom sér í eftir að hún hraktist úr borgarstjórastóli. En nú beinist spunamennskan ekki að andstæðingum í öðrum flokkum. Í fyrsta skipti á sínum ferli er Ingibjörg Sólrún í baráttu við samherja um völd og vegtyllur. Vinnubrögðin eru þó þau sömu og birtast með markvissum hætti í spunamennsku stuðningsmanna hennar í vikunni.

- í öðru lagi beini ég sjónum mínum að Norðurvegi. Eins og ég fjallaði um í gær er þar um mikilvægt mál að ræða, ekki bara fyrir okkur Akureyringa og Eyfirðinga, heldur alla sem eru á landsbyggðinni, einkum þá okkur í Norðausturkjördæmi. Fer ég yfir stöðu málsins og mikilvægi þess fyrir okkur hér og vík ekki síður að merkilegum ummælum samgönguráðherra um Norðurveg. Eins og flestum er kunnugt eru vinnubrögð ráðherrans alltaf kostuleg og vekja athygli. Nægir að nefna hvernig hann kom fram vegna málefna Héðinsfjarðarganga er þeim var frestað fyrir tveim árum. Mikilvægt er að samgönguráðherra hugsi málin aðeins víðar en fyrir Norðvesturkjördæmi, þar sem hugur hans virðist helst staddur. Það skiptir margt fleira máli en Staðarskáli og þjóðvegasjoppurnar á suðurleiðinni, eins og ég vík að.

- í þriðja lagi fjalla ég um flugvallarmálin. Þau tíðindi áttu sér stað í vikunni að Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri, tjáði sig um völlinn og sagði að flugstarfsemi gæti verið heppileg áfram í Vatnsmýrinni en þó í minnkaðri mynd. Kom þar greinilega fram sáttatónn í stað þess einstrengingslega málflutnings sem hún hélt fram eftir að hún tók við embætti. Eflaust hafa margir fleiri en bara ég kippst við að heyra þennan forna andstæðing vallarins tjá sig með þessum hætti. Sú var tíðin, ekki eru nema nokkrir mánuðir síðan, að Steinunn sagði að það væri ekki spurning um hvort heldur hvenær flugvöllurinn í Vatnsmýrinni færi. Er ekki annað hægt en að fagna því að borgarstjóri hafi áttað sig á mikilvægi vallarins.

Punktar dagsins
Peningabúnt

Eins og venjulega var gaman að horfa á sunnudagsspjallþættina og fylgjast með þjóðmálaumræðunni. Var gaman að horfa sérstaklega á Silfur Egils og horfa þar á Björn Inga Hrafnsson aðstoðarmann og spunameistara forsætisráðherra, og Sigmund Erni Rúnarsson fréttaritstjóra Fréttablaðsins, rífast um kannanir blaðsins og aðferðarfræðina á bakvið þær. Var ekki hægt annað að sjá en að Björn Ingi hefði gaman af að stríða Sigmundi örlítið vegna blaðsins, sem þolir greinilega ekki mjög vel gagnrýni vegna kannana sinna. Senuþjófurinn hjá Agli í dag var þó óneitanlega Jónína Benediktsdóttir athafnakona, sem tjáði sig af krafti eins og venjulega um málefni íslensks viðskiptalífs. Eins og hún bendir á og studdi með gögnum sem hún sýndi í þættinum liggja þræðirnir víða og margt tengt þessu sem þarf að ræða betur. Jónína tjáði sig af sannfæringarkrafti um málin og hefur greinilega kynnt sér stöðu mála mjög vel. Eins og flestir vita þekkir hún mjög vel til innri málefna Baugs og tengdra þátta. Var hún enda ófeimin að tjá sig um lykilmenn og skaut án þess að hika á stjórnmálamenn. Sérstaklega fannst mér frábær orð hennar um vinstrimenn og viðskiptalífið. Eitthvað fannst henni vanta brúna þar á milli í hugsun, sem ekki óeðlilegt er. En Jónína var öflug og vakti eflaust athygli margra með ummælum sínum og leiftrandi framkomu í þættinum.

Umferðarstofa

Mér, eins og sjálfsagt mörgum fleirum, hefur blöskrað nýleg auglýsingaherferð Umferðarstofu. Þar birtast mjög beittar auglýsingar sem eiga að fá fólk til að hugsa um umferðarmál og mikilvægi þess að koma í veg fyrir umferðarslys. Sérstaklega fer fyrir brjóstið á mér mjög grafísk auglýsing þar sem barn dettur fram af svölum. Nefna mætti fleiri auglýsingar, en þessi er sú sem hefur vakið hörðust viðbrögð. Finnst mér menn ganga alltof langt við að vekja umræðu um umferðarmál. Sjálfsagt er að fá fram umræðu og vekja fólk til lífs um þessi mál og tryggja umferðaröryggi. En þarna er alltof langt gengið. Verst finnst mér að sjá börn notuð í þessu skyni með þessum grófa hætti þar sem farið er langt yfir strikið. Er það ekki Umferðarstofu til framdráttar að auglýsa með þessum hætti og vonandi hugsa menn sinn gang í þessum málum, ekki veitir af. Umferðarstofa á að beita sér fyrir auglýsingum í takt við það sem hefur birst seinustu árin, mun frekar en feta sig á þessa braut. Mega auglýsingar um stórmál sem þarf að vekja fólk til umhugsunar um ekki ganga of langt og þurfa aðilar að passa sig, enda auðvelt að feta sig út af brautinni og misstíga sig hrapalega. Það gerist í þessu tilviki. Var mér mjög brugðið að gengið væri fram með svo harðskeyttum hætti í þessu máli. En vonandi fara menn í það ferli að vinna málið betur og umfram allt taka auglýsingarnar úr umferð.

(Viðbót - 7. febrúar 2005)
Tveim tímum eftir að þessi umfjöllun var skrifuð var formlega tilkynnt í fréttum að hætt yrði við þessa auglýsingaherferð. Ástæða er til að fagna því mjög, enda skotið langt yfir markið í henni.

Mystic River

Horfði í gærkvöld á kvikmyndina Mystic River, meistaraverk leikstjórans og leikarans Clint Eastwood. Er byggð á stórbrotinni sögu Dennis Lehane er fjallar í raun um mannlegt eðli og hversu lífið getur verið hverfult. Segir frá þrem æskuvinum í Boston í Massachusetts: Sean, Jimmy og Dave. Í sögubyrjun fylgjumst við með atburði í bernsku þeirra sem breytir lífi þeirra að eilífu. Þrem áratugum síðar liggja leiðir þeirra saman að nýju. Æskuvinirnir hafa vitað vel af hvor öðrum í gegnum tíðina en hafa lítið sem ekkert samband haft sín á milli. Það breytist sumardag einn er Katie Markum, dóttir Jimmys, finnst myrt í almenningsgarði. Leiðir æskufélaganna liggja saman á nýjan leik og fortíðin sækir þá alla heim. Endurfundirnir leiða til óvænts uppgjörs. Kraftmikil og vel gerð gæðamynd. Clint Eastwood fléttar saman magnað kvikmyndaverk, eina af bestu myndum ársins 2003. Myndin er sérstök að því leyti að grunnpunktur myndarinnar er sorgin og átök aðstandendanna við tilfinningar sínar á ólíkum sviðum. Það hefur jafnan verið mikil tilhneiging í Hollywood-myndum stóru kvikmyndaveranna að láta sem fórnarlömb og aðstandendur þeirra séu aukahlutur í frásögn í spennumyndum, þar sem rannsakað er morð og alvarlegur glæpur er meginhluti þess sem um er fjallað.

Er oft þannig að spennan snýst að mestu um samleik morðingjans og lögreglunnar. Hér er fetað í gagnstæða átt við strauminn sem fyrr er nefndur. Eastwood fer aðrar leiðir, sýnir áhorfandanum tilfinningaflækjur og innri átök persóna við aðstæðurnar. Við sjáum fjölskyldu stelpunnar sem myrt var og við kynnumst sorg þeirra og innri vangaveltum við að ná sér eftir slíkt áfall sem ástvinamissir er þegar sviplegt fráfall ber að höndum. Morðrannsóknin er ekki meginhlutinn af myndinni, heldur aðeins hliðarhluti frásagnarinnar um það sem gerist í kjölfar morðsins. Við kynnumst persónum vel og byggjum viss tengsl við þau. Í lokin er svo spennan keyrð áfram er við fáum að vita hvers eðlis er. Sean Penn hlaut Óskarinn fyrir magnaða túlkun sína á Jimmy Markum. Hann tjáir sorg föðurins og sannar tilfinningar af stakri snilld. Besta hlutverk hans á glæsilegum ferli, mögnuð túlkun á manni í örvilnan í kjölfar ástvinamissis. Tim Robbins hlaut einnig Óskarinn fyrir túlkun sína á Dave Boyle og tjáir hann sálarflækjur persónunnar með glæsilegum hætti. Marcia Gay Harden fer á kostum í hlutverki Celeste, eiginkonu Dave. Kevin Bacon og Laura Linney skila einnig góðum leikframmistöðum. Semsagt; kraftmikil, hjartnæm, vönduð og vel leikin úrvalsmynd fyrir sanna kvikmyndaunnendur.

James Bond

Til fjölda ára hef ég verið mikill aðdáandi kvikmyndanna um James Bond, njósnara hennar hátignar. Á ég allar 20 myndirnar sem gerðar hafa verið um hann og á mikið aukaefni um njósnarann og fjölda geisladiska með tónlist og hljóðefni úr myndunum. Ég er semsagt mikill áhugamaður um kvikmyndaseríuna og söguna á bakvið persónuna. Hver getur annars staðist það að horfa á þessar myndir, þær innihalda enda allt það besta sem prýða má góðar kvikmyndir. Þær eru hlaðnar spennandi og ótrúlega vel gerðum áhættuatriðum í bland við frábæran húmor, heillandi konur og glæpona sem svífast einskis til að ná fram markmiðum sínum. Það hefur því verið mjög ánægjulegt að fylgjast með þáttum Akureyringsins Helga Más Barðasonar á Rás 1, síðustu laugardaga, sem heita því ekta Bond-íska nafni, Í þjónustu hennar hátignar. Í þáttunum er fjallað um njósnarann og hvernig ímynd hans hefur þróast frá sjötta áratugnum og til nútímans og hvernig leikararnir sem hafa túlkað njósnarann hafa unnið úr efnivið karaktersins í gegnum tíðina. Frábærir þættir sem er mjög gaman að hlusta á. Mæli hiklaust með þeim, enn eru tveir þættir eftir.

Saga dagsins
1952 George VI Englandskonungur, deyr, í Sandringham House í Norfolk, 56 ára að aldri - hann var konungur Englands frá 1936. Dóttir hans, Elísabet prinsessa, tók við krúnunni og hefur ríkt alla tíð síðan þá. Eiginkona hans, Elizabeth Bowes-Lyon, lifði mann sinn í hálfa öld. Hún lést 30. mars 2002
1983 Stríðsglæpamaðurinn Klaus Barbie kemur til Frakklands til að fara fyrir rétt og svara til saka fyrir glæpi sína - var dæmdur í ævilangt fangelsi 1987 og lést í fangelsi í Lyon, 25. september 1991
1993 Leikstjórinn Joseph L. Mankiewicz lést, 84 ára að aldri - hlaut óskarsverðlaun fyrir leikstjórn sína í stórmyndunum A Letter to Three Wives og All About Eve. Einn fremsti handritshöfundurinn
1998 Vala Flosadóttir setti heimsmet í stangarstökkvi kvenna innanhúss á móti í Bielefeld í Þýskalandi og stökk 4,42 metra - Vala hlaut bronsverðlaun í stangarstökkvi á Ólympíuleikunum í Ástralíu 2000
1999 Steingrímur J. Sigfússon var kjörinn fyrsti formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, á stofnfundi flokksins á Akureyri. Flokkurinn hlaut 6 þingmenn í kosningum 1999 en 5 þingmenn 2003

Snjallyrðið
Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt,
sem dropi breytir veig heillar skálar.
Þel getur snúist við atorð eitt.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Svo oft leyndist strengur í brjósti, sem brast
við biturt andsvar, gefið án saka.
Hve iðrar margt líf eitt augnakast,
sem aldrei verður tekið til baka
Einar Benediktsson skáld (1864-1940) (Einræður Starkaðar)