Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

28 febrúar 2005

ÓskarinnHeitast í umræðunni
Kvikmyndin Million Dollar Baby var valin besta kvikmynd ársins 2004 á Óskarsverðlaunahátíðinni sem haldin var í Los Angeles í nótt í 77. skiptið. Myndin hlaut fern verðlaun, en helsti keppinautur hennar, kvikmyndin The Aviator í leikstjórn meistara Martin Scorsese, hlaut 5 verðlaun. Hefur það ekki gerst nokkuð lengi að sú kvikmynd sem hlýtur óskar sem besta kvikmynd ársins hljóti ekki flest verðlaun á óskarskvöldinu. Clint Eastwood hlaut óskarinn fyrir leikstjórn sína í Million Dollar Baby, en hann var ennfremur tilnefndur fyrir leik sinn í myndinni, en hann fór á kostum í hlutverki boxþjálfara og hefur sjaldan verið betri á leikaraferlinum. Vakti mikla athygli að Scorsese var sniðgenginn af akademíunni enn einu sinni, en hann hlaut fimmtu tilnefningu sína fyrir leikstjórn nú, og tapaði enn einu sinni. Það er fyrir löngu orðinn ljótur blettur á bandarísku kvikmyndaakademíunni hvernig hún hefur sniðgengið Scorsese og meistaraverk hans. Hélt ég fyrirfram að hann hlyti loks viðurkenningu fyrir sína svipmiklu mynd og mikið og glæsilegt framlag til kvikmyndaheimsins seinustu áratugina. Svo fór ekki. Má leiða að því líkum að hann fái aldrei þessi verðlaun. Hann náði ekki að hljóta þau t.d. fyrir meistaraverk á borð við Raging Bull og Goodfellas. Það er óneitanlega ansi dapurt hlutskipti fyrir mann sem hefur heillað kvikmyndaunnendur til fjölda ára og oft átt skilið þann heiður að hljóta þessi verðlaun. Hans ferli er auðvitað ekki lokið, en að mínu mati er til skammar fyrir akademíuna að hafa ekki notað þetta tækifæri til að heiðra hann fyrir þessa glæsilegu mynd.

Jamie Foxx hlaut mjög verðskuldað óskarinn sem leikari í aðalhlutverki fyrir glæsilega túlkun sína á konungi soul-tónlistarinnar, Ray Charles, í mynd um ævi hans. Foxx var stórfenglegur í hlutverkinu, eins og ég hef áður vikið að hér. Hann varð Ray í túlkun sinni, náði svipbrigðum hans og töktum með glæsibrag og vann mikinn leiksigur. Með sigri sínum varð Foxx þriðji blökkumaðurinn í sögu akademíunnar til að hljóta óskar fyrir karlleik í aðalhlutverki. Fyrstur til að hljóta þann heiður var Sidney Poitier árið 1963. Denzel Washington hlaut verðlaunin árið 2001. Hilary Swank hlaut óskarinn sem leikkona í aðalhlutverki fyrir stórfenglega túlkun sína á Maggie Fitzgerald í Million Dollar Baby. Var þetta í annað skiptið sem Swank hlaut óskar fyrir leik í aðalhlutverki. 5 ár eru liðin frá því að hún var heiðruð fyrir glæsilegan leik í Boys Don´t Cry. Þá, rétt eins og núna, sigraði hún leikkonuna Annette Bening. Hilary vann hug og hjörtu kvikmyndaunnenda fyrir ógleymanlega túlkun á sannkallaðri kjarnakonu í þessari mynd. Glæsileg leikkona sem hefur sannað sig svo um munar og verðskuldaði sigur í þessum flokki. Meistari Morgan Freeman hlaut loksins óskarinn, nú fyrir litríkan leik í Million Dollar Baby. Hafði hann verið tilnefndur þrisvar fyrir ógleymanlegar leikframmistöður. Það var svo sannarlega kominn tími til að þessi mikli meistari fengi verðlaunin. Cate Blanchett hlaut óskarinn sem leikkona i aukahlutverki. Fór hún á kostum í hlutverki óskarsverðlaunaleikkonunnar Katharine Hepburn, eftirminnilegustu og svipmestu leikkonu kvikmyndasögunnar, í The Aviator. Glæsileg túlkun hjá þessari frábæru leikkonu. Þetta var skemmtileg Óskarsverðlaunahátíð, og var margt af skemmtilegu efni í útsendingunni. Þessi hátíð er alltaf jafn skemmileg, þetta er uppskeruhátíð kvikmyndaheimsins og hún er ómissandi. Fastur punktur í tilverunni ár hvert!

Ég fer nánar yfir úrslitin á Óskarsverðlaunahátíðinni, hér neðar í færslunni og í ítarlegum pistli á kvikmyndavefnum kvikmyndir.com í dag.

Bryndís HlöðversdóttirTilkynnt var formlega í dag að Bryndís Hlöðversdóttir alþingismaður, hefði verið ráðin sem deildarforseti lagadeildar Viðskiptaháskólans í Bifröst. Tekur Bryndís við því starfi 1. ágúst nk. Samhliða þessu mun hún segja af sér þingmennsku og hættir þátttöku í stjórnmálum formlega þann dag. Mun Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varaformaður Samfylkingarinnar og fyrsti varaþingmaður flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður, taka sæti hennar á þingi, því frá og með 1. ágúst. Með þessu lýkur vangaveltum um pólitíska framtíð Ingibjargar, en hún hefur verið án vettvangs í stjórnmálum í rúm tvö ár. Allt frá því Ingibjörg varð að velja á milli borgarstjórastóls og þingframboðs í desember 2002, hafa verið á lofti raddir þess efnis að hún yrði þingmaður flokksins og jafnvel formaður hans. Hún er nú í framboði til formennsku í flokknum gegn formanni hans og svila sínum, Össuri Skarphéðinssyni. Ingibjörg Sólrún sem verið hafði sameiningartákn vinstrimanna í borgarmálunum í tæpan áratug, tók slæma dýfu eftir síðustu kosningar. Náði ekki kjöri á þing og var án beins vettvangs til starfa almennt. Nú hefur það breyst.

Staða Ingibjargar eftir kosningarnar 2003 var ekki öfundsverð, afsalaði sér borgarstjóraembætti og hlutverki sameiningartákns þriggja flokka innan R-listans en sat eftir sem óbreyttur borgarfulltrúi og varaþingmaður. Varaformennska flokksins hjálpaði henni frá algjörri pólitísku eyðimerkurgöngu en greinilegt er að Ingibjörg taldi það hlutverk ekki ásættanlegt í stöðunni og sækir nú fram til formennsku. Kemur það svolítið óvænt að það sé Bryndís sem víkur úr stjórnmálum og auðveldar með því framagöngu Ingibjargar og ekki síst bindur enda á neyðarlega framgöngu hennar seinustu árin í pólitík. Ingibjörg hefur svamlað um lengi í pólitísku tómarúmi og vantað algjörlega stöðu og hlutverk. Með brotthvarfi Bryndísar hefur það breyst. Bryndís er að mínu mati klár og öflug kona, ein af fáum þingmönnum Samfylkingarinnar sem var heil og öflug í störfum sínum og maður gat treyst að væri heil í því sem hún var að segja. Hún hafði mikla sérfræðiþekkingu á málum sem marga þingmenn hans skorti og var mjög öflug í störfum sínum. Það eru alltof margir þarna sem dansa til og frá með undarlegum hætti, en hvað með það. Það er óneitanlega undarlegt að hún segi af sér þingmennsku á miðju kjörtímabili. En hún fær gott starf, sem færir henni væntanlega ný og spennandi tækifæri. Ég vona að henni farnist vel á nýjum vettvangi. Það verður fróðlegt að sjá hvernig Ingibjörgu gangi núna þegar pólitísku tómarúmi hennar er lokið, og hún hefur fastan pólitískan vettvang til starfa á.

Punktar dagsins
Clint Eastwood með óskarsstytturnar sínar

Gamla brýnið Clint Eastwood var sigurvegari óskarsverðlaunahátíðarinnar í Los Angeles í nótt. Hann kom, sá og sigraði með stórfenglega kvikmynd sína, Million Dollar Baby. Með þessu komst hann einnig í sögubækur Óskarsins, en hann er elsti maðurinn sem vinnur leikstjóraóskarinn, 74 ára gamall. Eastwood var tilnefndur að þessu sinni í þriðja skiptið til leikstjóraverðlaunanna. Hann hlaut verðlaunin áður árið 1992 fyrir vestrann Unforgiven. Var ennfremur tilnefndur í fyrra fyrir stórbrotið meistaraverk sitt, Mystic River. Alla tíð sem ég hef fylgst með kvikmyndum og horft á kvikmyndir, bæði nýjar sem hinar eldri, meistaraverk kvikmyndasögunnar, hefur Clint verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Hann er stórglæsilegur leikari, mjög kraftmikill og öflugur, og ekki síðri sem leikstjóri. Hann hefur oft farið á kostum í stórbrotnum meistaraverkum og gert sjálfur ógleymanlegar myndir. Persónulega tel ég leik hans í Million Dollar Baby hans bestu leikframmistöðu. Einnig er hann ógleymanlegur fyrir leik sinn í spagettívestrunum, túlkun sína í Dirty Harry-myndunum og síðast en ekki síst í In the Line of Fire. Síðastnefnda myndin hefur alltaf heillað mig mjög. Skrifaði ég um myndina um daginn, eftir að ég sá hana síðast. Það er vel við hæfi í kjölfar þessa sigurs kappans að horfa á fyrri meistaraverk hans og flotta leiksigra. Hver veit nema ég skrifi um þær myndir á næstunni. Stórkostlegur og svipmikill karakter sem á þennan heiður svo sannarlega skilið.

Óskarsverðlaunaleikararnir Morgan Freeman, Cate Blanchett, Hilary Swank og Jamie Foxx

Fjórir frábærir leikarar hlutu óskarinn fyrir leik að þessu sinni. Veðjaði ég rétt í spá minni á það hverjir hlytu verðlaunin. Þótti mér þetta liggja mjög vel fyrir hverjir ynnu að þessu sinni. Áður hef ég minnst á stórfenglegan leiksigur Jamie Foxx í hlutverki meistara Ray Charles. Ómótstæðileg túlkun hjá kappanum. Hilary Swank var glæsileg í Million Dollar Baby og hitti í mark með túlkun sinni. Hélt ég lengi vel að það myndi vinna gegn henni að hafa unnið fyrir nokkrum árum sömu verðlaun. Sem betur fer varð svo ekki og hún hlaut verðlaunin mjög svo verðskuldað. Sérstaklega var ég ánægður með að meistari Morgan Freeman hlaut loksins verðlaunin. Hann hefur alla tíð verið einn af mínum uppáhaldsleikurum. Þótti mér vera kominn tími til að hans merka framlag til kvikmyndanna væri heiðrað með þessum hætti. Hann fór á kostum í litríkri túlkun á Eddie í Million Dollar Baby. Þetta var fjórða tilnefning Freeman. Hann var tilnefndur árið 1987 fyrir leik sinn í Street Smart, 1989 fyrir Driving Miss Daisy og árið 1994 fyrir The Shawshank Redemption. Nú var hans stund loksins komin. Einn besti leikari sinnar kynslóðar og einn fárra í bransanum sem gerir allt 100%. Svo hlaut Cate Blanchett loksins verðlaunin, en mér fannst alla tíð slæmt að hún vann ekki fyrir Elizabeth á sínum tíma. Glæsileg leikkona sem var stórfengleg í hlutverki Kate Hepburn í The Aviator

Halldór Ásgrímsson, Siv Friðleifsdóttir og Guðni Ágústsson

Flokksþingi framsóknarmanna lauk í gær. Áttu margir von á því að flokkurinn fetaði í Evrópuátt á flokksþinginu og voru uppi raddir um að flokkurinn myndi leggja áherslu á aðildarviðræður við ESB á næstu árum. Lengi vel stefndi í að samþykkt yrði orðalag í þá átt. Undir lokin hafði því verið breytt í að hugsanlega skyldi að því stefnt. Það sætti ólík sjónarmið og tillaga utanríkismálahópsins var svo samþykkt einróma. Þessi niðurstaða er mikil vonbrigði fyrir aðildarsinna innan flokksins og virðast þeir vera múlbundnir. Svo er merkilegast að sigurvegari helgarinnar er varaformaður flokksins. Nú virðist utanríkismálastefna flokksins og ESB-stefnan þar innanborðs vera mótuð af honum og fyrri forystumönnum flokksins. Staða mála er í raun óbreytt, þvert á tilraunir ESB-stuðningsmannanna í flokknum. Málið er ekki á dagskrá á kjörtímabilinu, eins og flokkurinn hafði samið um við stjórnarmyndun í maí 2003. Engu að síður blasir við vilji formannsins að gera ESB að kosningamáli í næstu kosningum og koma umræðunni af stað. Enginn vafi er á því að formaður flokksins hefur veikst mjög að undanförnu. Þetta flokksþing sannar það svo um munar. En eftir stendur hvort Halldór og hans stuðningsfólk leggur í þann dans að gera ESB að kosningamáli fyrir næstu kosningar og fá slíku stefnu í gegnum flokksstofnanirnar þá.

Gunnar Örlygsson

Gunnar Örlygsson alþingismaður, hefur nú gefið kost á sér til varaformennsku í Frjálslynda flokknum. Fer hann því fram til embættisins gegn Magnúsi Þór Hafsteinssyni fyrrum fréttamanni, sem gegnt hefur varaformennsku í flokknum í tvö ár. Það verður fróðlegt að fylgjast með slag þeirra um þetta embætti. Gunnar hefur verið mjög rísandi þingmaður að undanförnu. Komið með athyglisverð mál og lagt á mörg þeirra áherslu með athyglisverðum hætti. Magnús hefur verið nokkuð ólíkindatól í pólitík og kemur því varla á óvart að sótt sé að stöðu hans eftir það sem gengið hefur á. Gunnar sækir fram og lætur reyna á stöðu sína. Verður fróðlegt að sjá hvernig honum muni ganga í þessum slag.

Saga dagsins
1066 Westminster Abbey-dómkirkjan í London vígð formlega - eitt glæsilegasta mannvirki í London
1920 Þilskipið Valtýr fórst fyrir sunnan land og með því fórust þrjátíu menn. Valtýr var mikið aflaskip
1983 Alþingi samþykkir lög þess efnis að Ó, Guð vors lands, sé þjóðsöngur og sameign þjóðarinnar
1986 Olof Palme forsætisráðherra Svíþjóðar, myrtur á götuhorni í Stokkhólmi. Palme og eiginkona hans, Lisbeth, voru bæði skotin. Lést hann á leiðinni á sjúkrahús en Lisbeth slapp lifandi frá árásinni. Morðið var aldrei upplýst. Palme hafði þá verið einn af öflugustu stjórnmálamönnum Svía í fjöldamörg ár. Hann sat sem leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins frá 1969 til dauðadags. Palme var forsætisráðherra 1969-1976 og aftur frá 1982 til dauðadags. Olof Palme var kraftmikill leiðtogi á alþjóðlegum vettvangi
2004 Kvikmyndin The Lord of the Rings: The Return of the King, sem var byggð á Hringadróttinssögu eftir J.R.R. Tolkien, hlaut alls 11 óskarsverðlaun - jafnaði hún með því eldri met Ben-Hur og Titanic

Snjallyrðið
Sólin brennir nóttina, og nóttin slökkvir dag;
þú ert athvarf mitt fyrir og eftir sólarlag.
Þú ert yndi mitt áður og eftir að dagur rís,
svölun í sumarsins eldi og sólbráð á vetrarins ís.

Svali á sumardögum og sólskin um vetrarnótt,
þögn í seiðandi solli og syngur, ef allt er hljótt.
Söngur í þöglum skógum og þögn í borganna dyn,
þú gafst mér jörðina og grasið og guð á himnum að vin.

Þú gafst mér skýin og fjöllin og guð til að styrkja mig.
Ég fann ei, hvað lífið var fagurt, fyrr en ég elskaði þig.
Ég fæddist til ljóssins og lífsins, er lærði ég að unna þér,
og ást mín fær ekki fölnað fyrr en með sjálfum mér.
Sigurður Nordal skáld og prófessor (1886-1974) (Ást)