Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

22 febrúar 2005

Stefán BenediktssonHeitast í umræðunni
Í vönduðum þætti sínum, Einu sinni var, í gærkvöldi á Stöð 2 fór Eva María Jónsdóttir yfir skammlífa sögu Bandalags jafnaðarmanna, sem var stofnaður haustið 1982 og átti fjóra þingmenn á Alþingi kjörtímabilið 1983-1987. Flokkurinn var stofnaður af Vilmundi Gylfasyni, sem hafði verið flokksbundinn í Alþýðuflokknum til fjölda ára og fæðst inn í flokkinn, enda sonur Gylfa Þ. Gíslasonar fyrrum ráðherra og formanns flokksins. Vilmundur var kjörinn á þing fyrir Alþýðuflokkinn í þingkosningunum 1978 (er A-flokkarnir unnu mjög sögulegan sigur) og sat sem dóms- kirkjumála- og menntamálaráðherra í skammlífri minnihlutastjórn Alþýðuflokksins 1979-1980. Vilmundur hafði gefið kost á sér sem varaformaður flokksins á flokksþingi hans 1980 og 1982, en í bæði skiptin beðið lægri hlut fyrir Magnúsi H. Magnússyni. Ennfremur höfðu verið innbyrðis deilur um störf Vilmundar sem ritstjóra Alþýðublaðsins sumarið 1981. Flokknum var spáð góðu gengi í skoðanakönnunum og stefndi framan af í góðan sigur hans. Það breyttist þegar líða tók á árið 1983 og að kvöldi kjördags kom í ljós að flokkurinn hafði ekki unnið þann sigur sem að var stefnt. Niðurstaðan varð fjórir þingmenn. Vilmundur tók úrslitunum sem miklum ósigri fyrir sig og pólitískar hugsjónir sínar og ekki síður baráttumál. Hann svipti sig lífi í júnímánuði 1983.

Í þættinum í gærkvöldi fór Stefán Benediktsson arkitekt og fyrrum alþingismaður Bandalags jafnaðarmanna, yfir sögu flokksins í ítarlegu viðtali við Evu Maríu. Stefán tók mikinn þátt í uppbyggingu flokksins með Vilmundi og eiginkonu hans, Valgerði Bjarnadóttur, og fleiri stuðningsmönnum. Stefán skipaði þriðja sætið á lista flokksins í Reykjavík. Flokkurinn hlaut eins og fyrr segir fjóra þingmenn kjörna: tvo í Reykjavík og einn á Reykjanesi og Norðurlandi eystra. Við andlát Vilmundar tók Stefán sæti á þingi sem varamaður hans. Var áhugavert að heyra lýsingar hans á stöðu mála og því sem tók við eftir andlát Vilmundar. Flokkurinn, sem byggður hafði verið utan um persónu Vilmundar og stefnumál hans, varð forystulaus og allt logaði í deilum þegar kom að því að hluti flokksins sameinaðist á ný Alþýðuflokknum. Eitt það merkilegasta sem kom fram í þættinum var að sjóðir flokksins væru frystir í Landsbankanum og enginn gæti gert tilkall til þeirra. Það er reyndar merkilegt að sjóðirnir, sem byggjast af skattfé sem flokkurinn fékk vegna stöðu sinnar á þingi, gangi ekki aftur til ríkisins. Það væri eðlilegast að peningarnir færu þangað. Ennfremur fór Stefán yfir persónulegar árásir á hendur honum um fjármálamisferli, sem leiddi til þess að hann hætti þátttöku í stjórnmálum 1987 og fór ekki í framboð á ný. Þetta var áhugaverður þáttur og margt nýtt og merkilegt kom þarna fram. Segja má að saga BJ sé átakasaga umfram allt, saga flokks sem stóð og féll með stofnanda sínum og dó í raun með honum. Ég hef lesið pólitíska ævisögu Vilmundar, Löglegt en siðlaust. Það er merkileg lesning og þeim sem vilja kynna sér pólitískan feril Vilmundar bendi ég á að lesa þá bók.

Ráðhús ReykjavíkurFyrir helgi undirrituðu tveir ráðherrar ásamt bæjarstjóranum á Akureyri og borgarstjóranum í Reykjavík viljayfirlýsingu þess efnis að íslenska ríkið muni formlega leysa til sín eignarhluta sveitarfélaganna í Landsvirkjunar og fyrirtækið hlutafélagavætt í kjölfarið á komandi árum. Svo virðist vera sem að iðnaðarráðherra og borgarstjórinn í Reykjavík hafi skrifað undir þessa yfirlýsingu án þess að kanna til fulls bakland sitt í öllu málinu. Er ekki hægt að sjá betur en að algjört ósætti sé uppi bæði innan Framsóknarflokksins og R-listans með málið og stöðu þess. Ef marka má yfirlýsingar nokkurra þingmanna Framsóknar er engin samstaða um yfirlýsingar ráðherrans í málinu. Svo er ekki betur hægt að sjá en að hver höndin sé upp á móti annarri innan R-listans. Vinstri grænir ætla sér að gera allt til að stöðva málið, ef marka má yfirlýsingar formanns flokksins. Það blasir við að meirihlutinn í borgarstjórn er tvístraður í afstöðu sinni. Er ljóst að meirihluti er í borgarstjórn við þessar tillögur, þverpólitískur meirihluti.

Hinsvegar er ljóst að innan R-listans er engin samstaða. Ef marka má yfirlýsingar forystumanna vinstri grænna, bæði á þingi og í borgarmálum, er ljóst að meirihlutinn mun ekki standa af sér þær breytingar sem borgarstjórinn skrifaði undir að stefna að. Það er því afar merkilegt að á sama tíma tjáir Jón Erlendsson starfandi bæjarfulltrúi VG hér á Akureyri, stuðning sinn við þessar breytingar. En á vettvangi VG í borginni er staðan allt önnur. Við blasir að óbreyttu að afar ólíklegt að gerist eitthvað þar fyrr en eftir borgarstjórnarkosningarnar á næsta ári. R-listinn er margbrotinn og þetta mál ekki hið fyrsta eða eina á kjörtímabilinu sem staðfestir hversu R-listinn er tvístraður. Það er með ólíkindum að borgarstjóri hafi ekki kynnt sér betur bakland sitt áður en samkomulagið var undirritað og gert betur grein fyrir honum. Sama má eflaust segja um iðnaðarráðherrann. Í umræðum í þinginu í dag kom vel í ljós að átakalínur liggja víða í stjórnmálum vegna þessa máls, framfaramáls sem mun styrkja Landsvirkjun og efla. Pólitískur ágreiningur er afgerandi í meirihluta borgarstjórnar og verður fróðlegt hvernig unnið verður úr honum. Er alveg ljóst núna afhverju ekki var hægt að skrifa undir þessa yfirlýsingu í lok nóvember eins og að var stefnt fyrir starfslok þáverandi borgarstjóra. Bakland hans, sem var brostið áður, var ekki til staðar í þessu máli.

Punktar dagsins
Ómar Stefánsson, Sigurður Geirdal, Sigurbjörg Vilmundardóttir og Hansína Ásta Björgvinsdóttir

Átökin í Framsóknarflokknum í Kópavogi halda áfram. Fjallaði ég um þessi átök hér í gær. Þau liggja annars mjög vel fyrir og hafa birst í fjölmiðlum seinustu daga. Í dag tjáði Hansína Ásta Björgvinsdóttir bæjarstjóri í Kópavogi og leiðtogi flokksins í bæjarmálunum, sig um stöðu mála með mjög afgerandi hætti. Sagði hún að stofnun annars kvenfélags að hálfu flokksins væri bakslag í jafnréttisbaráttu í flokknum. Þessi ákvörðun kvennanna væri mjög líkleg til að kynda undir ófrið í bæjarstjórnarflokknum. Sagði hún ótækt að bæjarfulltrúar flokksins væru í því að stofna félög út um allar jarðir, án þess að láta flokksfélaga sína vita. Er þetta eflaust mjög afgerandi skot að hálfu bæjarstjórans í garð Sigurbjargar Vilmundardóttur bæjarfulltrúa, sem kjörin var formaður hins nýja kvenfélags um helgina. Er eins og fyrr hefur komið fram hér greinileg átök milli Sigurbjargar og Hansínu um stöðu mála og valdahlutföllin þar. Í dag kom svo í ljós að tilstand kvennanna, til að hljóta fulltrúa á flokksþing Framsóknar um helgina, var til lítils. Hið nýstofnaða félag fær ekki fulltrúa á flokksþingið, enda frestur til að fá fulltrúa þar inn liðinn fyrir tæpum mánuði. Málið er því sofnað í bili, hinsvegar er ljóst að það hefur afhjúpað átakalínur í flokknum, innanflokksátök í Kópavogi og á kjördæmavísu. Ekki er síður hægt að sjá erjur milli forystumanna á flokksvísu almennt um forystusess innan flokksins.

Bobby Fischer

Brátt mun reyna á það hvort skákmeistarinn Bobby Fischer muni koma til landsins í ljósi dvalarleyfis sem honum var veitt undir lok síðasta árs. Útlendingastofnun gaf í dag formlega út svonefnt útlendingavegabréf til handa Fischer. Mun Þórður Ægir Óskarsson sendiherra Íslands i Japan, koma því til yfirvalda í Japan og með því ætti að koma í ljós hvert framhald málsins verður. Eins og fram kom fyrir helgi samþykkti allsherjarnefnd að afgreiða ekki að svo stöddu beiðni Fischers um ríkisborgararétt. Reynir nú á hvort dvalarleyfisveitingin og bráðabirgðavegabréfið nægi skákmeistaranum til að koma til landsins. Fischer hefur nú dvalist í rúma 7 mánuði í innflytjendabúðum í Japan. Staða hans er mjög óljós eins og öllum er ljóst og fjarri því ljóst hvaða stefnu málið mun taka. Hafni japönsk yfirvöld þessu í stöðunni blasir við að mál Fischers er strandað. Tel ég rétt að hann komi til landsins og verði hér nokkurn tíma eigi að íhuga þann kost að veita honum ríkisborgararétt. Það er langt í frá sjálfgefið að hann eigi að hljóta það. Fái hann ekki að koma til landsins og vera hér einhvern tíma til að aðlagast landinu og stöðu mála hér, er alveg ljóst að ekki kemur til greina að veita honum ríkisborgararétt hér. Þetta er ljóst allavega að mínu mati.

Dennis Hastert

Í ferð minni til Bandaríkjanna í október keypti ég bókina Speaker: Lessons from Forty Years in Coaching and Politics. Þar er fjallað um feril Dennis Hastert forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings og þingmanns Repúblikanaflokksins í deildinni frá Illinois. Þar fer Hastert yfir verk sín og þátttöku í stjórnmálum til fjölda ára. Hann var lengst af kennari, íþróttaþjálfari, fyrirtækjaeigandi og þátttakandi í viðskiptalífinu. Hann var kjörinn í fulltrúadeildina 1987. Hastert var lengi vel mjög lítt áberandi í stjórnmálastörfum sínum. Newt Gingrich forseti fulltrúadeildarinnar og einn helsti leiðtogi flokksins í kosningabaráttunni 1994, þar sem sigur vannst í fulltrúadeildinni og tákngervingur þess að repúblikanar komust aftur til valda og áhrifa þar, neyddist til að segja af sér forsetaembættinu vegna hneykslismála haustið 1998. Eftirmaður hans var skipaður Bob Livingston þingmaður flokksins frá Louisiana. Varð hann einnig að víkja vegna hneykslismála áður en hann náði að taka við embættinu formlega. Hastert var þá skipaður í embættið, öllum að óvörum. Hastert hefur lengi verið kallaður þögli risinn innan flokksins, vegna stöðu sinnar og lágstemmdrar framkomu. Var mjög ánægjulegt að kynna sér feril hans og stjórnmálaþátttöku með lestri bókarinnar.

Fight Club

Horfði í gærkvöldi á úrvalsmyndina Fight Club, mynd sem lengi hefur verið í miklum metum hjá mér og ég hef horft á mjög oft. Höfundur og leikstjóri þessarar mögnuðu og margslungnu kvikmyndar er David Fincher sem sló svo eftirminnilega í gegn með hinni frábæru Seven árið 1995 og síðan með myndinni The Game. Fight Club hefur verið lýst sem svartri kómedíu, en hún er einnig afar spennandi og inniheldur fléttu sem kemur verulega á óvart að lokum. Edward Norton leikur hinn stefnu- og rótlausa Jack sem þjáist af svefnleysi og leiðindum og beitir nokkuð óvenjulegum aðferðum til að vinna á þeim vandamálum. Dag einn, þegar Jack er á leiðinni heim til sín úr viðskiptaferð, hittir hann Tyler Durden í fyrsta sinn og það er óhætt að segja að þar með taki líf hans algjörum stakkaskiptum.

Tyler hefur sínar eigin skoðanir á lífinu og tilverunni og eru margar þeirra heldur frumlegar svo ekki sé meira sagt. Hann telur til dæmis að besta leiðin til að öðlast sterka karlímynd sé að berja aðra menn og vera sjálfur barinn í klessu. Þetta leiðir til þess að þeir Jack og Tyler ákveða að stofna leynilegan bardagaklúbb þar sem mönnum er velkomið að koma og lumbra duglega hver á öðrum. Ekki líður á löngu uns klúbburinn er orðinn umtalaður um alla borgina og brátt taka slíkir klúbbar að spretta upp um allt land. Það á hins vegar eftir að koma í ljós að hér býr annað og meira að baki en sýnist í fyrstu! Hér vinnur David Fincher aftur með leikaranum Brad Pitt sem fór á kostum í Seven. Bæði Norton og Pitt eru flottir í stórbrotinni mynd. Útkoman er vægast sagt frábær mynd fyrir alla kvikmyndaunnendur.

Saga dagsins
1903 Fríkirkjan í Reykjavík formlega vígð - í söfnuðinum voru á þeim tíma um fimm þúsund manns
1952 Bygginganefnd íslensks þjóðminjasafns afhenti Birni Ólafssyni menntamálaráðherra, formlega hús Þjóðminjasafns Íslands, sem byggt hafði verið við Suðurgötu, við fjölmenna vígsluathöfn hússins
1979 Menningarverðlaun Dagblaðsins afhent í fyrsta skipti - hafa verið veitt árlega alla tíð síðan, en í nafni DV (Dagblaðsins Vísis) allt frá árinu 1981, eða eftir formlega sameiningu þessara tveggja blaða
1980 Hæstiréttur kvað upp dóma í Guðmundar- og Geirfinnsmálum - sex sakborningar voru dæmdir í fangelsi, allt frá 1 ári upp í 17 ár. Flest þeirra sem dæmd voru hafa alltaf haldið fram sakleysi sínu
1991 Sigríður Snævarr lögfræðingur, afhenti trúnaðarbréf sitt sem sendiherra í Svíþjóð og varð með því fyrst íslenskra kvenna til að gegna slíku embætti í íslensku utanríkisþjónustunni í sögu landsins

Snjallyrðið
Bærinn stendur við botn á löngum firði
Bláir álar í sólskininu loga
Þó kann öðrum að þykja meira virði,
að þorskur og koli fylla alla voga.
Hvernig sem blæs, er fjörðurinn alltaf fagur.
Fáir heilluðu lengur gamla vini.
Hann skín, þegar ljómar á lofti heiður dagur
Hann leiftrar í stjarnanna dýrð og mánaskini.
Við borgarans augum blasa fjallatindar
brekkur og hlíðar vaxnar grænu lyngi.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Bærinn við fjörðinn)