Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

17 júní 2005

Gleðilega þjóðhátíð

Íslenski fáninn

Hver á sér fegra föðurland,
með fjöll og dal og bláan sand,
með norðurljósa bjarmaband
og björk og lind í hlíð?
Með friðsæl býli, ljós og ljóð,
svo langt frá heimsins vígaslóð.
Geym, drottinn, okkar dýra land
er duna jarðarstríð.

Hver á sér meðal þjóða þjóð,
er þekkir hvorki sverð né blóð
en lifir sæl við ást og óð
og auð, sem friðsæld gaf?
Við heita brunna, hreinan blæ
og hátign jökla, bláan sæ,
hún uni grandvör, farsæl, fróð
og frjáls - við ysta haf.

Ó, Ísland, fagra ættarbyggð,
um eilífð sé þín gæfa tryggð,
öll grimmd frá þinni ströndu styggð
og stöðugt allt þitt ráð.
Hver dagur liti dáð á ný,
hver draumur rætist verkum í
svo verði Íslands ástkær byggð
ei öðrum þjóðum háð
Svo aldrei framar Íslands byggð
sé öðrum þjóðum háð.

Unnur Benediktsdóttir Bjarklind (Hulda) skáldkona (1881-1946)


Davíðshús

Í dag verður Davíðshús opnað að nýju eftir gagngerar endurbætur. Það var á lýðveldisárinu 1944 sem Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi, fluttist í þetta hús sem hann hafði reist sér að Bjarkarstíg 6 á Akureyri. Þar bjó hann allt til æviloka. Eftir daga hans var húsið ánafnað Akureyrarbæ og þar er safn til minningar um hann. Húsið er varðveitt eins og það var er hann yfirgaf það síðasta sinni og er engu líkara en þegar gesturinn sem kemur til að líta þar inn og skoða heimili skáldsins en að viðkomandi sé gestur Davíðs en hann hafi í raun brugðið sér frá örskotsstund. Andi skáldsins er ljóslifandi í húsinu þó fjórir áratugir séu liðnir síðan hann yfirgaf það hinsta sinni. Þeir sem eiga leið um Akureyri eru eindregið hvattir til að líta í Bjarkarstíg 6 og kynna sér þetta merka hús, heimili sannkallaðs heimsmanns sem þrátt fyrir að vera sveitastrákur að uppruna varð sannkallaður veraldarmaður að lokum. Bý ég skammt frá Bjarkarstíg og fer ég oft á sumrin í safnið og á veturna er einnig oft gengið þar framhjá. Húsið er lítið en fullt af merkilegum sjarma sem er erfitt að lýsa í orðum. Sjón er svo sannarlega sögu ríkari.

Ætla ég að taka þátt í hátíðarhöldunum hér á Akureyri í dag og lít í Davíðshús og skoða það eftir þessar miklu breytingar. Til fjölda ára hef ég verið mikill unnandi kveðskapar Davíðs frá Fagraskógi. Davíð var skáld tilfinninga, hann orti frá hjartanu og talaði beint til hjarta þess sem las. Þess vegna mun minning hans verða okkur kær og kveðskapur hans festast í sessi um ókomin ár. Hann var sannur í yrkisefnum og sannur í tjáningu um sannar tilfinningar. Eitt fallegasta ljóð Davíðs frá Fagraskógi er Kveðja:

Eitt orð, eitt ljóð, eitt kvein frá kvaldri sál
er kveðja mín. Ég veit þú fyrirgefur.
En seinna gef ég minningunum mál,
á meðan allt á himni og jörðu sefur.
Þá flýg ég yfir djúpin draumablá,
í dimmum skógum sál mín spor þín rekur,
Þú gafst mér alla gleði sem ég á.
Þú gafst mér sorg, sem enginn frá mér tekur.

Svo kveð ég þig. En er þú minnist mín,
þá mundu, að ég þakka liðna daga.
Við framtíð mína fléttast örlög þín.
Að fótum þínum krýpur öll mín saga.
Og leggðu svo á höfin blá og breið.
Þó blási kalt og dagar verði að árum,
þá veit ég að þú villist rétta leið
og verður mín - í bæn, í söng og tárum.

Saga dagsins
1811 Jón Sigurðsson forseti, fæddist við Hrafnseyri við Arnarfjörð - Jón forseti varð sjálfstæðishetja Íslendinga og leiddi þjóðina fyrstu skrefin í átt að fullu sjálfstæði sínu. Hann lést 7. desember 1879.
1911 Háskóli Íslands stofnaður á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar forseta og helgaður minningu hans.
1941 Alþingi Íslendinga kaus Svein Björnsson fv. sendiherra, sem fyrsta og eina ríkisstjóra Íslands.
1944 Lýðveldi stofnað á Lögbergi á Þingvöllum - Sveinn Björnsson var kjörinn fyrsti forseti Íslands. Stjórnarskrá lýðveldisins var ennfremur samþykkt. Ísland hafði með því tekið forystu í eigin málum.
1994 50 ára afmælis hins íslenska lýðveldis var minnst með glæsilegri lýðveldishátíð á Þingvöllum.

Snjallyrðið
Ó, guð vors lands! Ó, lands vors guð!
Vér lofum þitt heilaga, heilaga nafn!
Úr sólkerfum himnanna hnýta þér krans
þínir herskarar, tímanna safn.
Fyrir þér er einn dagur sem þúsund ár
og þúsund ár dagur, ei meir
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.
Íslands þúsund ár,
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.
Matthías Jochumsson skáld og prestur (1835-1920) (Lofsöngur)