Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

02 júní 2005

Punktar dagsins
Bessastaðir

Í dag, 2. júní, er ár liðið frá því að Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, boðaði til blaðamannafundar að Bessastöðum. Þar las hann yfirlýsingu, umdeilda yfirlýsingu, sem markaði þáttaskil í sögu íslenska forsetaembættisins. Deilt hafði verið í samfélaginu mánuðina á undan af meiri krafti en áður í samtímasögu okkar. Ólafur Ragnar hafði fengið frá þinginu umdeild fjölmiðlalög til staðfestingar eða synjunar. Í 60 ára sögu forsetaembættisins höfðu þau fimm sem setið höfðu á forsetastóli nokkrum sinnum íhugað að synja lögum staðfestingar en það hafði aldrei gerst. Á hinum heita júnídegi tilkynnti forsetinn um þá ákvörðun sína að synja fjölmiðlalögunum staðfestingar. Í fyrsta skipti í lýðveldissögunni beitti forseti Íslands hinni umdeildu 26. grein stjórnarskrárinnar og synjaði með því um samþykki sitt lagafrumvarpi sem meirihluti lýðræðislega kjörins þings hafði samþykkt. Kaflaskipti höfðu átt sér stað í samskiptum Alþingis Íslendinga og forseta lýðveldisins.

Í ítarlegum pistli mínum á vef SUS í dag rek ég í löngu máli forsögu þess að forseti synjaði lögunum staðfestingar og áhrif ákvörðunar forseta á þeim tímamótum að ár er nú liðið frá því að hann kynnti ákvörðun sína. Hvernig sagan mun í framtíðinni dæma þessa ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar og þau þáttaskil sem urðu á forsetaembættinu með ákvörðun hans mun koma í ljós í nánustu framtíð. Við blasir að þessi ákvörðun verði það sem helst standi upp úr á forsetaferli Ólafs Ragnars sem hefur setið á forsetastóli núna í tæpan áratug og situr sitt þriðja kjörtímabil. Hver framtíð forsetaembættisins verður mun tíminn leiða í ljós - eflaust ræðst það mikið af því hver verði eftirmaður Ólafs Ragnars Grímssonar og hvernig embættið þróist við þau forsetaskipti sem væntanlega verða á komandi árum er Ólafur Ragnar víkur af stóli. En embættið hefur breyst á þessu ári frá ákvörðun hans um að synja lögunum. Það er algjörlega einfalt mál.

Hvort það er svo góð eða slæm þróun má vissulega deila um. Eftir stendur öðruvísi forsetaembætti og umdeildara, forseti sem allavega er ekki sameiningartákn hinnar íslensku þjóðar. Hvort eftirmanni núverandi forseta takist að breyta því er svo stóra spurningin sem ekki fæst svarað strax. Við verðum að velta henni fyrir okkur fram að lokum forsetaferils Ólafs Ragnars Grímssonar. En ég hvet lesendur til að líta á þennan pistil og fara yfir málið með mér. Ég taldi mikilvægt að fara yfir það og segja mína skoðun á því og ekki síður rekja sögu málsins frá upphafi og taka fyrir meginpunkta þess alls.

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra

Í gær birtist ný skoðanakönnun Gallup. Þar kemur fram að 38% landsmanna styðji Sjálfstæðisflokkinn, 34% Samfylkinguna, 15% VG, 8,5% Framsóknarflokkinn og 5% Frjálslynda flokkinn. Þetta er merkileg niðurstaða sem þarna kemur fram. Helstu tíðindin eru auðvitað þau að Framsóknarflokkurinn er að fá sína döprustu mælingu í Gallup könnun til þessa. Hann mælist aðeins með hálft níunda prósent og virðist algjörlega heillum horfinn. Lægst áður í mælingu Gallup hafði Framsókn farið í febrúar er flokkurinn var að fá 10% slétt. Nú fer hann undir það mark og sekkur dýpra en nokkru sinni áður. Þessi skoðanakönnun og niðurstöður hennar hlýtur að vera hið þyngsta veganesti inn í sumarið fyrir Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra. Flokkurinn virðist alveg í tætlum og koma illa undan vetrinum, svo vægt sé til orða tekið. Framsóknarflokkurinn hefur annars sjaldan virkað stjórnlausari en einmitt í vetur. Hann virðist óvenjulega illa samhentur og þar ber sífellt meir á innbyrðis valdatafli og látum milli hópa. Oft fer það pent fram en hefur líka orðið mjög áberandi.

Svo virðist sem að Halldór Ásgrímsson hafi aldrei verið veikari í sessi í forystu flokksins, en einmitt eftir að hann tók við embætti forsætisráðherra í haust. Flest virðist ganga honum í óhag, hver könnunin eftir annarri hefur birst í vetur og fram á vorið sem sýnir dalandi persónufylgi hans og hann hefur virkað mjög veiklulegur pólitískt að undanförnu. Þessi dapra mæling hlýtur að vera honum og hans nánustu samstarfsmönnum, spunameisturunum margfrægu, umhugsunarefni. Þeir fara varla glaðbeittir í sumarfríið með svona sögulegt lágmark á bakinu. Hvernig spinna spunameistararnir Halldór upp eftir þessar tölur? Í vetur var lofað reglulegum blaðamannafundum til að róa menn niður vegna Íraksmálsins og forsætisráðherrann kom í kostulegt drottningarviðtal við Brynhildi Ólafsdóttur í Ráðherrabústaðnum yfir vatnsglösum og teljósum. Ætli spunarokkarnir fari ekki núna að starta upp blaðamannafundunum fyrir átta prósent forsætisráðherrann?

Jan Peter Balkenende

Það fór eins og alla grunaði. Hollendingar fetuðu í fótspor Frakka og felldu með afgerandi hætti stjórnarskrá Evrópusambandsins í þjóðaratkvæðagreiðslu í gær. 63% kjósenda höfnuðu stjórnarskránni en 37% sögðu já. Kjörsókn var dræm, aðeins rúm 62% komu á kjörstað og tóku afstöðu til stjórnarskrárinnar. Jan Peter Balkenende forsætisráðherra Hollands, var mjög vonsvikinn er hann ávarpaði þjóðina í gærkvöldi er úrslit kosningarinnar voru orðin ljóst. Hann hafði reynt af miklum krafti að fá landsmenn til að styðja stjórnarskrána í kosningunum og lagt mikið í baráttuna. Þrátt fyrir tap já-sinna í Hollandi er ekki búist við pólitískri uppstokkun þar eins og gerðist í Frakklandi með forsætisráðherraskiptum í ríkisstjórn landsins og innbyrðis ráðherrahrókeringum. Balkenende sem hefur verið forsætisráðherra Hollands frá árinu 2002 er talinn munu sitja áfram við völd og láti ekki þetta tap á sig fá. Áfallið kosninganna lendi því lóðbeint á ESB sjálfu.

Kjörtímabil hans er hálfnað og ekki líklegt talið að hann muni efna til kosninga eða grípi til einhverra aðgerða vegna þessa. Balkenende sagði er úrslitin lágu fyrir að skilaboð kjósenda í Hollandi hafi verið með þeim hætti að auðvelda verði almenningi þátttöku við mótun Evrópu og ríkisstjórnin muni beita sér í þá átt. Þessi úrslit í Frakklandi og Hollandi vekur upp spurningar um framtíð stjórnarskrárinnar. Á hún sér líf eftir tap í þessum kosningum í tveim stofnríkjum sambandsins? Getur stjórnarskráin fúnkerað áfram eftir að hún var felld í Frakklandi? Þetta eru auðvitað lykilspurningar. Það er alveg ljóst að um er að ræða mikið og þungt högg í Evrópusambandið. Þar munu menn eiga í erfiðleikum með að vinna málið áfram. Afneitun þeirra sem þar ráða ríkjum er þó algjör og ráðleysið er mikið á þeim bænum ennfremur. Nú tekur vinna úr flækjum við þar. En við blasir að stjórnarskrá ESB er algjörlega í andaslitrunum. Hún er dauð, það verður væntanlega staðfest fljótlega.

All the President's Men

Eins og ég sagði frá í gær er nú loks búið að ljóstra upp hver Deep Throat, hinn frægi heimildarmaður The Washington Post í Watergate-málinu, var. Mark Felt aðstoðarforstjóri FBI, var hinn frægi heimildarmaður fréttarinnar, sá sem spilaði lykilhlutverkið. Markar þessi uppljóstrun mikil þáttaskil - nú loks er málinu öllu lokið. Í gærkvöldi horfði ég á hina frábæru kvikmynd All the President's Men, sem rekur alla sögu málsins. Þar er rakin sagan af því hvernig tveimur rannsóknarblaðamönnum á The Washington Post, Carl Bernstein og Bob Woodward, tókst að vekja þjóðarathygli á þætti nánustu aðstoðarmanna Nixons forseta í innbrotinu í Watergate-bygginguna, sem á endanum lauk með því að Richard Nixon sagði af sér embætti forseta Bandaríkjanna, fyrstur manna. Velheppnuð frásögn, skemmtilega uppbyggð og vel leikin mynd með Robert Redford og Dustin Hoffman í aðalhlutverkum. Er ein af uppáhaldsmyndum mínum - ein af þeim allra bestu sem blandar saman pólitík og sagnfræði. Allir þeir sem hafa gaman af skemmtilegum spennumyndum með sagnfræðilegu ívafi ættu að drífa í því að sjá þessa, hafi þeir ekki séð hana áður. Pottþétt skemmtun fyrir stjórnmálafíklana. :)

Bettý

Seinustu daga hef ég verið að rifja upp kynni mín af spennusögu Arnaldar Indriðasonar, Bettý. Þar er sögð einkar spennandi saga af ungum lögfræðingi sem situr í fangelsi af völdum háskakvendisins Bettýar, og hvernig lögfræðingurinn reynir að snúa sig útúr þeim svikavef sem Bettý hefur spunnið. Bettý er ung og glæsileg kona, gift forríkum útgerðarmanni á Akureyri, sem ræður lögfræðinginn til að sjá um erlenda samninga fyrir sig. Og áður en varir er lögfræðingurinn kominn á kaf í flókna atburðarás. Í þessari mögnuðu spennusögu er hægt að finna einn athyglisverðasta viðsnúning sem ég hef upplifað í spennusögu, en sagan tekur mjög merkilegan hring þegar rúmlega helmingur hefur verið lesinn. Góð flétta í óvenjulegri spennusögu frá meistara Arnaldi. Hvet ég alla til að lesa bókina, sem það hafa ekki gert nú þegar. Svo má enginn gleyma að lesa t.d. Röddina, Mýrina og Grafarþögn, sem er án vafa demanturinn í öllum skrifum Arnaldar. Þessar bækur ætla ég allar að rifja upp næstu vikurnar.

Saga dagsins
1934 Dalvíkurskjálftinn, einn stærsti jarðskjálfti við þéttbýli hérlendis, reið yfir Eyjafjörð og olli miklum skemmdum á húsum á Dalvík. Ekkert manntjón varð í skjálftanum sem mældist 6,2 á Richter.
1941 Hafnaboltaleikmaðurinn Lou Gehrig, deyr úr hrörnunarsjúkdómi, 38 ára að aldri. Einn þekktasti hafnaboltamaður sögunnar og hann varð að hætta íþróttaiðkun langt um aldur fram vegna veikinda sinna. Saga Lou Gehrig var sögð í kvikmyndinni The Pride of the Yankees. Gary Cooper lék Gehrig.
1953 Elísabet II Englandsdrottning var krýnd við athöfn í Westminster Abbey dómkirkjunni í London.
1997 Timothy McVeigh dæmdur til dauða fyrir sprengjuárásina á stjórnsýslubygginguna í Oklahoma. Vitorðsmaður hans Terry Nichols, hlaut lífstíðarfangelsisdóm. McVeigh var tekinn af lífi 11. júní 2001.
2004 Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, tilkynnir á blaðamannafundi á Bessastöðum að hann hafi ákveðið að staðfesta ekki fjölmiðlalögin, sem Alþingi samþykkti þann 24. maí 2004, og myndi því vísa þeim þannig í dóm þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta var í fyrsta skipti í sögu hins íslenska forsetaembættis sem forseti synjaði lögum frá lýðræðislega kjörnu þingi um samþykki sitt. Um sumarið ákvað ríkisstjórnin að afturkalla fjölmiðlalögin og því varð engin þjóðaratkvæðagreiðsla.

Snjallyrðið
Við brjóst mitt hún hljóð og helsjúk lá,
sem hafði sungið um ástir og þrá.
Nú féllu henni tár um bleika brá;
nú blæddi henni, ástinni minni.
- Þá grét ég í síðasta sinni.

Þá söng ég guði mitt síðasta lag;
þá særði hann og bað hvert mitt hjartaslag
að lofa henni ennþá að lifa einn dag
og leika sér, ástinni minni.
- Þá bað ég í síðasta sinni.

Svo hætti það sjúka hjartað að slá,
sem hafði sungið um ástir og þrá.
Svo lagði ég hana líkfjalir á
og laut nið'r að ástinni minni.
- Þá kyssti ég í síðasta sinni.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Í síðasta sinni)