Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

29 janúar 2006

Stefán Friðrik

Merkileg tímamót urðu í gær hér á svæðinu er Siglfirðingar og Ólafsfirðingar samþykktu að sameina sveitarfélögin frá og með sveitarstjórnarkosningunum þann 27. maí nk. Í sameiningarkosningunum hér í haust, þann 8. október 2005, var kosið um sameiningu allra sveitarfélaga í Eyjafirði, utan Grímseyjar. Þá felldu öll sveitarfélögin sameiningu - nema Ólafsfjörður og Siglufjörður. Því var auðvitað rökrétt að feta áfram sameiningarleiðina með því að þessi tvö sveitarfélög sem ljáðu máls á sameiningu myndu kjósa um það hvort að þau vildu sameinast. Það hefur nú verið samþykkt með yfirgnæfandi hætti. Á Siglufirði sögðu 86% kjósenda já við sameiningu og 77% Ólafsfirðinga. Það er því alveg ljóst að afgerandi vilji fólks stefnir í þessa átt. Kjörsókn á Siglufirði var rúmlega 60% og var svo um 70% á Ólafsfirði. Með þessu verður til nýtt sveitarfélag þann 1. júní nk - íbúar þess eru rúmlega 2300 manns.

Okkur varð það ljóst í haust að tillaga um sameiningu með þeim hætti sem þá var stillt upp naut ekki fylgis. Fólk vildi ekki taka skrefið þá - af svo mörgum ástæðum. En ég fagna því að smærri skref í þessa átt eru nú stigin. Þau skref sem Ólafsfirðingar og Siglfirðingar hafa nú stigið marka þau tímamót að ferlið er ekki staðnað. Segja má að svipað skref hafi falist í sameiningu Akureyrar og Hríseyjar sumarið 2004. Ég hef alla tíð verið hrifinn af sameiningu sveitarfélaga og því ferli sem markast af meiri samvinnu milli svæða sem hafa sameiginleg verkefni á sveitarstjórnarstiginu og lík grunnsjónarmið að leiðarljósi. Ég vil samfagna fólkinu út með firði með þessa ákvörðun og það hversu afgerandi skilaboð fylgja úrslitunum. Framundan er nú uppbygging á svæðinu samhliða því að Héðinsfjarðargöng verða loks að veruleika. Það verður svo fróðlegt að fylgjast með sameiningarferlinu í firðinum næstu árin - einkum og sér í lagi eftir að göngin verða komin til sögunnar.


Það fór eins og margir spáðu seinustu daga: Baldvin H. Sigurðsson matreiðslumeistari, bar sigurorð af Valgerði Hjördísi Bjarnadóttur bæjarfulltrúa, í prófkjöri VG hér á Akureyri í gær. Fyrir nokkrum vikum var talið nánast formsatriði að Valgerður Hjördís myndi vinna afgerandi sigur. Eftir að hún vann sigur í málaferlum gegn félagsmálaráðherra þótti hún ósigrandi og ætti auðvelt verkefni fyrir höndum í þessu prófkjöri. Hún hefur á nokkrum vikum misst þetta frá sér - með hreint ótrúlegum hætti, einkum í augum okkar sem fylgjumst með pólitíkinni hér. Er Baldvin kom fram þótti mönnum þetta vera grín hjá honum og ekkert væri að marka hann - altént sem leiðtogakandidat. Nú hefur honum tekist að vinna góðan sigur á Valgerði í flokksprófkjörinu. Þetta eru því vissulega nokkur tíðindi. Baldvin hefur verið áberandi hér í bæ - þekktur sem kokkurinn í matvöruversluninni í Hrísalundi og er nú með flugkaffið út á flugvelli. Hann nýtur vinsælda og virðingar margra.

Niðurstöðurnar voru þær að Baldvin sigraði, Valgerður varð önnur, Dilla Skjóldal varð þriðja, Kristín Sigfúsdóttir (systir Steingríms J.) lenti í fjórða, Jón Erlendsson varð fimmti og Lilja Guðmundsdóttir sú sjötta. Eins og fram kom í gær verður svo að vera skv. reglum flokksins að jöfn kynjaskipting sé í efstu sætum: þrjár konur og þrír karlar. Eins og allir sjá af þessu eru þarna fjórar konur og tveir karlar. Það blasir því við að Jón Erlendsson færist upp í fjórða sætið og Kristín niður í það fimmta. Karlmaður verður svo í sjötta sætinu, væntanlega er það Wolfgang Frosti Sahr kennari. Lilja færist niður í það sjöunda vegna kynjakvótans. En eitt vakti mikla athygli mína í gærkvöldi er tilkynnt var um úrslit prófkjörsins. Þar komu ekki fram atkvæðatölur frambjóðenda - munur t.d. á leiðtogaefnunum - og svo stóð að eftir væri enn að ræða niður frambjóðendum í kynjaröð - ekki væri enn vitað hvort allir vilji það sæti sem þeim er boðið.

Það er undarlegt orðalag að tala um "boðið" í ljósi þess að hér er um prófkjör að ræða og fastakosningu í sex efstu sætin. Það er því alveg ljóst að vilji kjósenda liggur fyrir. Valgerður beið lægri hlut og nýr leiðtogi hefur verið kjörinn í VG sem fer fyrir flokknum í kosningunum í vor. Svo er það auðvitað stóra spurningin sem vaknar í ljósi þessa orðalags í yfirlýsingu kjörnefndar VG - ætlar Valgerður að taka annað sætið? Ég stórefast um að hún muni gera það - sá orðrómur hefur farið um bæinn að hún hefði lagt allt undir. VHB væri að sækjast eftir leiðtogasætinu - engu öðru. Væntanlega ræðst þetta fljótlega. Fari svo að Valgerður taki ekki sætið munu allar konurnar sem voru í prófkjörinu hljóta fasta kosningu. Ennfremur er ljóst að næsti karlmaður tekur sjötta sætið, enda geta ekki skv. prófkjörsreglum verið fleiri en þrjár konur í sex efstu sætum. Það verður fróðlegt að sjá stemmninguna í VG hér í bæ næstu dagana.

Orðalag yfirlýsingar kjörnefndar sannfærir mig um það að óróleiki er yfir innan VG. Allt helsta forystufólk flokksins studdi Valgerði til forystu og gerði það með afgerandi hætti. Nú er nýr leiðtogi kominn og óvissa uppi um hvernig Valgerður bregst við tapinu. En fyrir nokkru hefði þetta þótt óhugsandi sem nú hefur gerst. Það er alveg ljóst að það er reiðarslag fyrir Steingrím J. Sigfússon og hans fólk að Valgerður hafi tapað leiðtogakjörinu og það eftir hinn fræga dóm í desember. Það verður merkilegt að sjá hvað Valgerður Hjördís Bjarnadóttir gerir eftir þessi úrslit sem boða stórtíðindi í forystusveit VG í aðalvígi Steingríms J. í hans kjördæmi.


Björn Ingi Hrafnsson bar sigurorð í prófkjöri Framsóknarflokksins í Reykjavík í gær. Hann mun því leiða framboðslista flokksins í kosningunum í vor - það verður í fyrsta sinn í sextán ár sem Framsókn býður fram á eigin vegum í sveitarstjórnarpólitíkinni í borginni. Næst á eftir Birni Inga kom Anna Kristinsdóttir borgarfulltrúi - sem setið hefur í borgarstjórn frá árinu 2002 og þriðji er Óskar Bergsson sem var varaborgarfulltrúi R-listans 1994-2002. Öll sóttust þau þrjú eftir leiðtogastöðunni. Björn Ingi vann nokkuð afgerandi sigur - enda studdur til leiks af forystu flokksins. Það voru gríðarlegar sveiflur í gegnum talninguna. Í fyrstu tölum á sjöunda tímanum í gærkvöldi var Björn Ingi einn leiðtogakandidata í efstu sex sætunum. Eftir því sem leið á kvöldið breyttist staðan og Anna og Óskar sóttu mjög í sig veðrið. Það verður fróðlegt að sjá hvort að Björn Ingi komist inn í borgarstjórn í vor - varla mun Anna halda sínu sæti.

stebbifr@simnet.is