Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

03 febrúar 2006

Stefán Friðrik Stefánsson

Eftirfarandi grein birtist á Íslendingi í dag:


Öflug menningarstarfsemi

Einn af kostum Akureyrar er blómlegt og öflugt menningarlíf. Það er alveg óhætt að fullyrða að menningarlífið hér norðan heiða sé engu líkt, í raun, sé miðað við íbúafjölda og framboð menningarviðburða. Akureyri hefur brag stórborgar hvað menningarlíf varðar. Hér er hægt að velja úr glæsilegum listviðburðum og njóta þeirrar sömu listaflóru og í raun og er í boði á höfuðborgarsvæðinu. Þegar ég ræði við sumt vinafólk mitt á suðurhluta landsins, sem sumt álítur mig vera staddan á hjara veraldar, bendi ég þeim á vef bæjarins og svo vefi listasafnsins og menningarvefi og þá verður þeim ljóst að hér er allt í boði sem lista- og menningarvinir þurfa á að halda.

Leikhúsið okkar er fyrsta flokks, listasafnið er stórfenglegt og fullt er af skemmtilegum viðburðum í Listagilinu okkar og sköpuð þar litrík og góð list. Við eigum öflugan Myndlistaskóla, Tónlistaskóla og svona má lengi telja. Menning og listir er fyrsta flokks hér. Marga þekki ég sem farið hafa norður í vetur og litið á leikritið Fullkomið brúðkaup í Leikhúsinu. Hefur sú sýning gengið vonum framar, verið sýnd margoft fyrir fullu húsi og hlotið góða gagnrýni hjá leiklistarspekingum dagblaðanna. Nú er svo komið að þessi ærslafulla og stórfenglega sýning stefnir í að vera metsýning í sögu Leikfélagsins. Aðeins uppsetningin á My Fair Lady fyrir tveim áratugum er enn vinsælli. Nú hafa rúmlega 10.000 manns litið á sýninguna.

Í fyrra var önnur öflug sýning þar í boði – Óliver, sem hlaut góða dóma og var sýnd fyrir fullu húsi margoft. Með markvissu og góðu vali á uppsetningum á síðasta leikári tókst að bæta rekstrarstöðu LA verulega. Var þá um að ræða besta leikár félagsins í heil 17 ár. Í fyrsta skipti í nokkurn tíma var afgangur af rekstrinum. Hátt í 18.000 manns sáu sýningar LA á síðasta leikári og var enginn vafi á því að söngleikurinn Óliver var aðalaðdráttaraflið síðasta vetur - komust færri að en vildu að lokum á þá frábæru sýningu. Með ráðningu Magnúsar Geirs Þórðarsonar í stöðu leikhússtjóra var stefnt að öflugu starfi og því að tryggja undirstöður leikhússins og sækja fram. Það hefur svo sannarlega tekist. Er það mikið gleðiefni að mati okkar sem unnum leikhúsinu og leiklistinni.

Nú seinustu mánuði hafa svo að auki verið mjög spennandi sýningar á Listasafninu – metnaðarfull dagskrá eins og ávallt. Þessa dagana er þar sýningin Hraunblóm þar sem eru til sýnis verk eftir fjölda listamanna. Er það mikið gleðiefni að sjá hversu öflugt Listasafnið okkar er. Það er mikilvægt að allir gestir okkar líti á safnið og kynni sér það sem þar er, rétt eins og við reynum að fá sem flesta í leikhúsið. Annað mikið tromp er tónlistarlífið. Fyrir skömmu voru í Glerárkirkju tónleikar þar sem spilaðir voru Konsert í C dúr eftir Wolfgang Amadeus Mozart (250 ár eru nú um þessar mundir liðin frá fæðingu hans) og Sinfónía nr. 1 eftir Johannes Brahms. Í fyrra var mikill hápunktur menningarlífsins tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands ásamt söngvurunum Sigrúnu Hjálmtýsdóttur og Jóhanni Friðgeir Valdimarssyni.

Við hér fyrir norðan getum verið stolt af góðu orðspori Akureyrarbæjar sem menningarbæjar – miðstöðvar lista og menningar. Það er mikilvægt að við stöndum vörð um þetta orðspor og vinnum alltaf að því að treysta undirstöður þeirra lista sem við viljum að blómstri með þeim öfluga hætti og verið hefur á seinustu árum.

stebbifr@simnet.is