Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

29 janúar 2006

Minningarkrossinn í Kirkugarði Akureyrar

Mér er orða vant á þessum sunnudegi - ætla þó að reyna að segja eitthvað. Ömmubróðir minn, Kristján Stefánsson, lést í gær eftir erfið veikindi. Eftir standa í huga mér ógleymanlegar minningar, minning um mann sem alltaf var tilbúinn til að fórna sér fyrir mig, tilbúinn til að styrkja mig og styðja alla mína ævi. Kiddi frændi var í mínum huga einstakur maður - alla tíð fórnaði hann sér fyrir fjölskylduna sína og var að svo mörgu leyti eins og Hugrún systir hans sameiningartáknið þegar að eitthvað bjátaði á. Það var alveg einstakt að eiga Kidda og konu hans, Kristínu Jensdóttur, að. Það var einstakt að geta leitað til þeirra í Hríseyjargötu, þar sem þau byggðu sér glæsilegt heimili. Það var heimili hjartahlýju og kærleika - það er erfitt með nægilega góðum orðum að lýsa þeim.

Stína og Kiddi voru mér ómetanlegur styrkur á erfiðum tímum á ævi minni og hafa verið stór hluti tilveru minnar. Nú hafa þau bæði kvatt - með stuttu millibili, en Stína lést vorið 2004. Þá kvaddi ég hana með þessum orðum. Tæpt ár er síðan að Huja frænka kvaddi. Það hefur verið dapurlegt að horfa upp á hversu hratt Kidda hefur farið aftur seinustu mánuði en að mörgu leyti er hvíldin hið besta þegar að svo er komið málum. En minningin lifir.

Við biðjum góðan Guð að launa
gæðin öll og þína tryggð
ástkær minning þín mun ávallt lifa
aldrei gleymsku hjúpi skyggð.

Falinn sértu frelsaranum
frjáls í náðarörmum hans
hljótir þú um eilífð alla
ástargjafir kærleikans.
Stefán Fr. Stef. (2005)

stebbifr@simnet.is