Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

31 janúar 2006

Stefán Friðrik Stefánsson

Eftirfarandi grein birtist á Íslendingi í dag:


Mikilvægi valfrelsis í skólamálum

Ég hef alltaf verið mikill talsmaður frelsisins. Það er mikilvægt að tryggja fólki frelsi til að velja. Allan þann tíma sem ég hef verið virkur í ungliðastarfi Sjálfstæðisflokksins hef ég stutt stefnumótun innan Sambands ungra sjálfstæðismanna um að tryggja að það frelsi sem mikilvægt er eigi málsvara í stefnu SUS. Í gegnum tíðina hefur SUS verið í forystusveit á því sviði. Ég hef sem stjórnarmaður í SUS í þrjú ár verið að vinna að því að tala máli frelsisins. Það hefur verið mjög gleðilegt að taka þátt í því í fremstu víglínu að móta stefnu SUS og leiða málaflokka við þá stefnumótun. Einn af þeim málaflokkum sem ég hef metið mest að vinna við á því sviði eru skólamálin. Það er alveg óhætt að segja að rödd okkar SUS-ara í skólamálum hafi verið öflug. Þar höfum við talað máli frelsisins – umfram allt.

Ég hef alla tíð verið mjög hlynntur valfrelsi á skólastiginu. Að mínu skiptir gríðarlega miklu máli að fólk eigi val – val er án nokkurs vafa framtíðin í skólamálum í pólitík samtímans. Ég skrifaði fjölda greina á heimasíðu mína, www.stebbifr.com, árið 2004 þegar að málefni leikskólans Hólmasólar voru til umræðu, er Samfylkingin gagnrýndi ákvarðanir meirihlutans og fór yfir mínar skoðanir vel. Þar talaði ég máli þess að innleiða nýja stefnu í skólamálum: tryggja frelsi fólks til að velja í skólamálum. Það er mjög mikilvægt að tryggja að fersk hugmyndafræði og tillögur séu ávallt til vinnslu og við sjálfstæðismenn verðum að tryggja að við séum rödd þess ferskleika - sækjum ávallt fram af krafti.

Að mínu mati er góð fyrirmynd fyrir okkur hér staða mála í Garðabænum, en það var mjög áhugavert og spennandi að fylgjast með því hvernig að Ásdís Halla Bragadóttir markaði sér skref á pólitískum ferli sínum með valfrelsi og öflugum valkostum í skólamálum á bæjarstjóraferli sínum. Ásdís Halla mat orðið frelsi mikils – enda einn af fyrrum forystumönnum okkar í SUS. Við öll sem unnum með Ásdísi Höllu í forystusveit SUS og höfum verið þar síðan vitum öll að stefna okkar átti öflugan málsvara í henni á meðan að hún leiddi meirihluta okkar sjálfstæðismanna í Garðabæ – hún þorði í þessum málaflokki: umfram allt þorði að starfa eftir skoðunum og áherslum okkar í SUS. Það hef ég alla tíð metið mjög mikils.

Það hefur verið ánægjulegt að kynna sér stefnu Garðabæjar í skóla- og menntamálum og þátt Ásdísar Höllu í þeirri stefnu sem þar hefur verið mörkuð með mjög farsælum hætti. Þriðja hvert barn á leikskólaaldri í Garðabæ er í einkareknum leikskóla og nú er nýr skóli opnar á þessu ári í Sjálandshverfi mun þetta hlutfall hækka í annað hvert barn. Með verkum sínum í Garðabænum hefur Ásdís Halla horft til framtíðar í þessum málaflokki og ennfremur farið nýjar og markvissar leiðir – horft til framtíðar, farið eftir áherslum sem eru réttar: fylgt eftir áherslum þess frelsis sem mestu skiptir. Í Garðabæ tókst að umbylta skólakerfi bæjarins með glæsilegum hætti og stokka það upp og gera það að fyrirmyndarkerfi í íslenskum menntamálum: kerfi sem aðrir hafa hug á að taka upp og þróa í þá átt að fylgja frumkvæði sjálfstæðismanna þar.

Ég vil feta í sömu átt – ég vil sjá Akureyri sem öflugan valkost í skólamálum hvað snertir rekstrarform leik- og grunnskóla þar sem mismunandi hugmyndafræði er til staðar og val foreldra og nemenda þess því meira. Ég vil sjá aukna samkeppni um þá þjónustu sem er verið að bjóða á leik- og grunnskólastigi með mismunandi rekstrarformum og valfrelsi. Íbúar hér á Akureyri eiga í framtíðinni að geta valið að mínu mati um þjónustu hjá mismunandi aðilum. Það veitir nauðsynlegt aðhald og samkeppnin tryggir svo ennfremur aukin gæði.

Við eigum að stefna í sömu átt og mótuð var í Garðabæ undir pólitískri forystu Ásdísar Höllu - hafa sama metnað og sama kraft að leiðarljósi hér. Valfrelsi í skólamálum er framtíðin!

stebbifr@simnet.is