Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

23 febrúar 2006

Kraftur í ungu fólki á Akureyri

Stefán Friðrik

Það er mikill kraftur í ungu fólki hér á Akureyri nú á þessum febrúardögum. Þrátt fyrir döpur úrslit af hálfu ungliða í prófkjörum er kraftur í því unga fólki sem er í stjórnmálastarfi hér af ástríðu. Við munum ekki hætta að vera virk í umræðunni og við munum leitast við að láta rödd okkar heyrast - sú rödd á að vera öflug og full af leiftrandi neista. Landsmenn allir skynja þennan kraft þessa dagana. Nú um þessar mundir er mjög mikil umræða í fjölmiðlum um framtak ungs fólks, t.d. í menntamálum. Er það vel. Rödd ungs fólks er öflug sé hún sett fram af svona miklum krafti. Ungt fólk er mikilvægt í stjórnmálastarfi, sem og í samfélaginu. Rödd ungs fólks á alltaf að skipta máli. Þegar kemur að kosningum er rödd ungs fólks mikilvæg. Í sveitarstjórnarkosningunum í vor munu t.d. fjöldi ungs fólks ganga að kjörborðinu í fyrsta skipti - þetta er ungt fólk með skoðanir, fólk sem vill láta að sér kveða. Það vill vera áberandi og vill sækja fram - vera virk í að tjá skoðanir sínar og vera metið einhvers.

Að undanförnu hefur vakið athygli kraftur í ungu fólki í Menntaskólanum á Akureyri og í Háskólanum á Akureyri. Nemendur þar hafa mótmælt af hjarta og sál - sagt skoðanir sínar með einbeittum en umfram allt áberandi hætti. Þau mótmæli hafa vakið athygli langt út fyrir bæinn okkar. Þar sést vel hversu áberandi ungt fólk getur verið vilji það segja skoðun sína - vilji vera sýnilegt í að hafa skoðun. Á mánudag gengu nemar í HA út úr tíma og héldu fjölmennan mótmælafund á Borgum, rannsóknarhúsi skólans. Skilaboðin af þeim fundi voru einbeitt og skýr: nemar mótmæla fjársvelti skólans og stöðu mála. Þau skilaboð komust til skila með glæsilegum hætti og fólk var ákveðið og öflugt við að tjá sig með þeim hætti sem fundurinn skilaði frá sér. Uppskáru nemar við skólann mikla athygli og verðskuldaða að mínu mati. Í kjölfar fundarins kom stjórn Varðar saman og samþykkti eftirfarandi ályktun:

Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, skorar á Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra og þingmenn Sjálfstæðisflokksins, að leita leiða til að tryggja starfsemi Háskólans á Akureyri til framtíðar og að hann fái að vaxa með sama krafti og áður. Mikilvægt er að hann haldi sterkri stöðu sinni. Skólinn hefur auðveldað til muna aðgengi fjölda fólks að námsframboði og tryggt fólki hér ný og spennandi tækifæri. Háskólinn á Akureyri hefur sýnt að hann á allt gott skilið.

Staða mála nú er óásættanleg: að mati okkar þarf að auka möguleika skólans til að afla sértekna, framlag til rannsókna þarf að hækka og húsaleigukostnað vegna Borga þarf að bæta. Við skorum á ráðherra að taka til sinna ráða því HA skiptir norðlenskt samfélag miklu máli. Krafa allra sem unna Háskólanum á Akureyri er að undirstoðir skólans verði styrktar. Mikilvægt er að fólk líti á nemendur skólans sem fjárfestingu en ekki kostnað.


Þessi ályktun vakti athygli í gær og fékk ég fjölda kommenta á hana. Ályktunin er afgerandi og tökum við í stjórninni undir mótmæli nemendanna og skilaboð þeirra. Það er sjálfsagt mál fyrir okkur að tala máli Háskólans á Akureyri. Það höfum við alltaf gert. Síðast sendum við frá okkur ályktun stöðu HA þann 28. desember sl. og er þessi ályktun mjög í anda hennar - skilaboðin þau sömu að mestu leyti. Ég hef margar greinarnar skrifað til varnar HA og ekkert nema sjálfsagt að taka undir mótmæli nemendanna með þessum hætti. Skrifaði ég síðast grein í byrjun vikunnar og birtist sú grein þá á fréttavefnum akureyri.net. Það er sjálfsagt fyrir okkur að senda ráðherranum og þingmönnum flokksins þessa kveðju með óskum um að þeir beiti sér. Rödd okkar er kannski ekki ráðandi en hún skiptir máli. Ungliðar allra flokka skipta alltaf máli, enda hafa þeir kosningarétt - hafi menn gleymt því er sjálfsagt að minna á það.

Í gær kom svo að því að ungt fólk við MA kæmi fram af sama krafti og nemar við HA. Nemendur skólans gengu líka út úr tíma í gærmorgun. Þrömmuðu nemendurnir í fylkingu niður á Ráðhústorg. Þar héldu þeir svo opinn mótmælafund til að vekja athygli á því sem þau telja að sé fyrirhugaður niðurskurður menntunar til stúdentsprófs vegna styttingar náms til stúdentsprófs. Mótmælunum stýrðu þær Edda Hermannsdóttir og Kristín Helga Schiöth. Töluðu Edda og Ottó Elíasson af miklum krafti á fyrrnefndum fundi gegn tillögum menntamálaráðherrans. Vinnustöðvun nemenda við nám stóð í heilan kennsludag og mæta þau aftur til náms klukkan 10 nú í morgun. Skilaboð þeirra eru táknræn: segjast þau með þessu sleppa 20% kennsluvikunnar - verða fyrir fjórðungsniðurskurði á námi, í anda tillagna ráðherrans. Var kraftur í nemunum og eftir athöfnina á Ráðhústorgi grilluðu þau pylsur og áttu góða stund saman. Það verður allavega seint sagt um nemana í MA að þau séu lítt áberandi.

Það er kraftur já í ungu fólki. Það verður seint sagt um ungt fólk hér að það sé líflaust eða láti sig málin ekki varða. Satt best að segja er gaman að fylgjast með þessu unga fólki og kraftinum sem einkennir framkomu þeirra hér seinustu dagana. Þetta er ungt fólk með skoðanir - ungt fólk sem minnir með mótmælum á að þau skipta máli. Flestallt er þetta fólk með kosningarétt og skiptir máli í samfélaginu. Rödd þeirra getur ekki verið sniðgengin - hvorki í málefnum samtímans né hvað varðar hlut þeirra í fremstu víglínu flokka og stjórnmálasamtaka. Hafi menn talið hlut þess og skoðanir léttvæga komast menn að því í kosningabaráttu að rödd þeirra og skoðun skiptir máli. Reyndar getur hún skipt svo miklu máli að hún getur ráðið úrslitum í tvísýnni kosningabaráttu þar sem hvert atkvæði ræður úrslitum um það hverjir veljast til forystu í landsmálum eða sveitarstjórnmálum. Það skiptir mjög miklu máli að reynt sé að höfða til þessa unga fólks í slíkri kosningabaráttu.

Framlag ungs fólks skiptir alltaf máli - hvort sem er í stjórnmálum eða í þjóðmálaumræðunni. Að lokum vil ég senda þessu öfluga unga fólki sem hér lætur rödd sína heyrast af krafti baráttukveðjur. Gangi þeim vel í að tjá skoðanir sínar á þessum vettvangi sem og öðrum. Rödd unga fólksins er mikilvæg - það sjáum við vel á kraftinum sem einkennir mótmælin hér fyrir norðan.

stebbifr@simnet.is