Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

18 febrúar 2006

Afmæli Arnbjargar - sveitarstjórnarráðstefna í Valhöll

Arnbjörg Sveinsdóttir

Arnbjörg Sveinsdóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, er fimmtug í dag. Hef ég frá kjördæmabreytingunni unnið talsvert innan flokksins, hér í Norðaustrinu, með Arnbjörgu Sveinsdóttur og kynnst þar kraftmikilli kjarnakonu sem er trú sannfæringu sinni og vinnur þau verk vel sem henni er treyst fyrir. Hún sat á þingi fyrir Austurlandskjördæmi 1995-2003 og hefur verið þingmaður Norðausturkjördæmis frá 2004. Hún hefur verið formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins frá 2005 en hafði áður leitt starf í nefndum og setið í fjölda nefnda Alþingis og unnið sín störf af krafti. Ég óska Öbbu innilega til hamingju með merkisafmæli sitt. Hún heldur upp á það með glæsilegum hætti heima á Seyðisfirði. Hafði ég ætlað að fara austur að afmælinu en af því gat því miður ekki orðið. Sendi ég henni góðar kveðjur á afmælisdeginum og vona að afmælisveislan verði henni og gestum hennar ógleymanleg.


Velheppnuð sveitarstjórnarráðstefna
Í gærmorgun fór ég með fyrstu vél suður til Reykjavíkur og hélt á sveitarstjórnarráðstefnu flokksins. Skarphéðinn mágur minn var með sömu vél og ræddum við um pólitík á leiðinni suður, en svo merkilega vildi til að við sátum saman í vélinni. Með vélinni fór svo ennfremur fjöldi forystufólks flokksins hér í bænum. Ráðstefnan hófst í Valhöll rúmlega níu um morguninn. Ráðherrar og aðrir sérfræðingar fóru yfir mikilvæg mál, rætt var um kosningar og kosningabaráttu og málefni landssvæða. Var mjög ánægjulegt að hitta fjölda góðs fólks þarna. Mat ég mikils að finna hlýjar og góðar kveðjur fundargesta sem ég heilsaði. Allir voru þeir notalegir og þótti mér vænt um hversu vel þau töluðu um mín störf fyrir flokkinn og ég yrði að halda þeim áfram af sama krafti þrátt fyrir prófkjör flokksins um síðustu helgi. Átti ég góð samtöl við fjölda fólks á fundinum og áhugavert að fara yfir stöðu mála.

Sérstaklega er notalegt að heyra hljóðið í sjálfstæðismönnum í borginni sem eru að halda í kosningabaráttu sína - eru með lista tilbúinn og öflugt veganesti. Almennt var kraftur einkunnarorð fundarins. Sjálfstæðismenn eru í meirihluta í miklum meirihluta sveitarfélaga landsins og mikill hugur í okkar fólki með að halda þeim góða sess sem við höfum í sveitarstjórnum landsins. Mæting var alveg frábær - fór fram úr björtustu vonum og tóku hátt á annað hundrað manns þátt í fundinum. Málefnavinnan gekk mjög vel. Í kjördæminu var hún leidd af Sigríði Ingvarsdóttur varaþingmanni. Áttum við gott spjall um málefni væntanlegrar kosningabaráttu. Lagði ég fram málefni sem við í SUS leggjum áherslu á. Sérstaklega er þar rétt að tala um aðkomu ungs fólks að kosningavinnunni og innlegg okkar í baráttuna. Sigga leiddi starfið af miklum krafti og umræðan varð fjörleg og góð - vekur góðar væntingar um væntanlegt kosningastarf.

Átti ég þar samtal við Hjalta Jón Sveinsson og Maríu Egilsdóttur, sem verða væntanlega í forystusveit flokksins í komandi sveitarstjórnarkosningum. Bæði hafa ekki starfað í pólitísku starfi innan flokksins og því áhugavert að kynnast þeim og áherslum þeirra. Hvorugt þeirra þekkti ég áður. Tel ég að hópurinn hér á Akureyri sé sterkur. Mun ég vinna með flokknum af krafti í þeirri baráttu - það hafði ég sagt fyrir prófkjör og við það mun ég standa. Ég hef gríðarlega mikinn áhuga á stjórnmálum og legg flokknum mínum lið. Mér þykir vænt um flokkinn minn og hlakka til að vinna veg hans sem mestan í vor. En fundurinn var kraftmikill og góður - virkilega gaman af honum og að hitta hið góða fólk sem vinnur fyrir flokkinn í sveitarstjórnarpólitík. Að loknum fundi bauð sveitarstjórnarráð til kokteils í Valhöll. Að því loknu fór ég á góðan ritstjórnarfund hjá sus.is, þar sem við áttum gott spjall. Er mjög gaman að vinna með þessu góða fólki sem við höfum.

Helgin í borginni var notaleg og góð. Kom ég aftur heim síðdegis og undir kvöld fór ég til Skarphéðins og Línu systur í 45 ára afmæli Skarpa. Áttum við notalega og góða stund. Undir tíuleytið heyrði ég fréttir af prófkjöri framsóknarmanna hér í bæ. Eins og mig grunaði vann Jói Bjarna þar öflugan og góðan sigur. Tekur hann við forystu flokksins í bænum af Jakobi Björnssyni. Gerður Jónsdóttir varð önnur og Erla Þrándardóttir varð þriðja. Í næstu sætum urðu heiðursmennirnir Erlingur Kristjánsson og Ingimar Eydal. Þótti mér leitt að Elvar Árni Lund, sá mikli gæðamaður, skyldi ekki komast á blað. Elvar Árni er traustur og góður ungur maður sem hefur unnið vel fyrir Öxarfjarðarhrepp og mun vonandi vinna með framsóknarmönnum hér í bæ. Hann kom af krafti í prófkjörsbaráttu flokksins hér og skrifaði góðar og kraftmiklar greinar. Er undrunarefni að Framsókn hafi ekki kosið hann til verka að mínu mati.

En kannski eiga ungir karlmenn erfitt með að komast til forystu hér í bæ almennt? Mér sýnist það satt best að segja!

stebbifr@simnet.is