Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

15 febrúar 2006

Ungt fólk er mikilvægt í stjórnmálastarfi

Stefán Friðrik

Seinustu daga hef ég fengið mikil viðbrögð við höfnun forystu Sjálfstæðisflokksins á Akureyri á ungliðum. Hún er aðaltíðindi þessa prófkjörs að mati langflestra sem hafa haft samband við mig. Enda er það auðvitað með hreinum ólíkindum að yngsti aðilinn í topp 13 sætum á listanum sé 36 ára að aldri. Satt best að segja er það svo verulegur áfellisdómur að það fólk sem hefur verið að vinna fyrir Vörð og borið því hitann og þungann af ungliðastarfinu fái ekki stuðning til verka. Ég hef verið í sambandi við marga af samherjum mínum í ungliðahreyfingunni. Hef ég allsstaðar fengið hvatningu til að halda áfram mínum verkum þó þau séu ekki metin í þessu prófkjöri á heimaslóðum. Hefur mér þótt alveg virkilega vænt um þessa bylgju stuðnings og hlýhugs í minn garð. Ég verð eiginlega að lýsa yfir því hér að mér þótti mikið til um koma að heyra hversu vel verk mín fyrir Samband ungra sjálfstæðismanna og Sjálfstæðisflokkinn eru metin af fólki sem hefur unnið með mér í SUS til fjölda ára. Ég er hrærður yfir að finna hversu margir hafa haft samband.

Mun ég að sjálfsögðu halda áfram að vinna á fullu fyrir SUS og Sjálfstæðisflokkinn. Mun ég að sjálfsögðu verða áfram formaður Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri. Mín verk fyrir ungliðahreyfinguna eru mér mikilvæg og ég ætla ekki að víkja af braut þeirra verka þó tímabundið blási á móti hjá mér. Ég hef verið flokksbundinn í Sjálfstæðisflokknum síðan að ég var 16 ára gamall og unnið þar í mörg herrans ár í innra starfinu. Hér hef ég verið í forystu ungliðafélagsins á Akureyri seinustu ár og tekið mikinn þátt í starfinu þar. Var mjög erfitt að finna fyrir höfnun fólks hér í þessu prófkjöri - fyrst og fremst er undarlegt að fólk sem hefur verið á fullu í innra starfinu sé ekki metið að verðleikum þegar kemur að prófkjöri innan flokksins. Er ég svosem ekki sá eini sem hef unnið af krafti fyrir flokkinn sem var sparkaður niður í þessu kjöri. En Sjálfstæðisflokkurinn er mitt heimili í stjórnmálastarfi - því mun ekkert breyta. Það er alveg á hreinu.

Það er ekki laust við að ég hafi áhyggjur af því að framlag ungs fólks í stjórnmálum sé ekki metið að verðleikum. Ég hef allt frá því að ég fór að taka þátt í starfinu í ungliðahreyfingunni og fór að starfa í SUS verið að tala fyrir mikilvægi þess að ungt fólk skellti sér í stjórnmál og léti vaða - sæktist eftir áhrifum. Það er því undarlegt að vakna upp við það að ungu fólki sé ekki treyst. Því miður er afhroð ungliða hér á Akureyri ekki eini vísirinn að svona stöðu. Þó verður að segjast eins og er að þessi sterka höfnun á öflugum ungliðum eins og sást hér um síðustu helgi er fáséð. Höfnunin á fólkinu var svo skelfilega aggressív og óvægin. Þó að ég hafi lengi starfað í Sjálfstæðisflokknum man ég varla eftir öðru eins. Það er enginn vafi á því í mínum huga að ungt fólk skiptir máli í öllu starfinu sem fylgir stjórnmálum. Skilaboðin héðan voru því miður þau að ungt fólk ætti að passa sig á að vera þægt og halda sig vel í bakgrunninum.

Það er ekki fjarri því að einn góðvinur minn hafi rétt fyrir sér á blogginu sínu er hann segir að litið sé á ungliðana hér sem persona non grata. Það eru svo sannarlega súr skilaboð og óvægin. Það er vægt til orða tekið að hik sé komið á mig í ungliðastarfinu: því starfi sem felst í því að peppa ungt fólk til að koma og taka þátt - láta reyna á það að koma sér áfram í pólitík. Ef þetta eiga að vera skilaboðin til ungliða almennt er engin furða að flokkurinn eldist og fólk bíði eftir því að verða nógu "þroskað" til að láta slag standa. Enda hversvegna ætti fólk að fara í slaginn til að láta hafna sér? Ekki nema von að spurt sé þessarar stóru spurningar. Ég hef allt fram að laugardeginum 11. febrúar neitað að trúa því að ungliðum í pólitík séu ekki allir vegir færir. En svona er þetta víst. En er þetta eðlilegt í ungliðastarfi Sjálfstæðisflokksins? Það finnst mér ekki og það á ekki að vera eðlilegt. Við í SUS munum aldrei geta gleypt það súra epli með brosi á vör.

En menn vakna til umhugsunar við höfnun - sérstaklega ef það er ungt og hefur áður verið talin trú um að það skipti máli í liðsheildinni sinni. Eða er ekki eðlilegt að fólki séu veitt tækifæri - séu veitt sóknarfæri til að sækja fram? Þegar að ungt fólk er barið niður eins og hver annar aumur girðingarstaur úti í sveit er ekki fjarri því að tvær spurningar vakni: hvar eru tækifærin - hvað varð um allan fagurgalann um mikilvægi ungs fólks í stjórnmálum? Ég er í sannleika sagt farinn að efast um að framlag okkar sé metið að þeim verðleikum sem eðlilegt er og ég ber kvíðboga yfir framtíðinni í stjórnmálastarfi ef þetta er það sem koma skal. Við lesendur verð ég að segja: ég neita að trúa því - segi ég og skrifa!!

stebbifr@simnet.is