Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

14 febrúar 2006

Traustsrulla Sigrúnar Bjarkar

Stefán Friðrik

Svo virðist vera sem að skrif mín hafi náð eyrum fólks. Það er gott að rödd okkar ungliðanna hér í Sjálfstæðisflokknum er ekki alveg spörkuð niður, heldur berst út. Allir sem líta á úrslit prófkjörs Sjálfstæðisflokksins hér á laugardag sjá að hlutur ungliða er ekki góður. Okkur var ekki treyst - okkur var sparkað niður listann. Engu okkar var treyst fyrir því að fara ofarlega á lista eða taka við einhverjum verulegum áhrifum á framboðslista okkar af flokksmönnum. Það er ekki nema von að okkur sé spurn hvað við þurfum að gera til að vera treyst fyrir einhverju öðru en að mæta á fundi, skipuleggja fundi og hella upp á kaffið fyrir fundina. Það virðist vera sem að við þurfum að vera orðin 36 ára gömul að eiga einhvern séns á því að "meika það" í Sjálfstæðisflokknum á Akureyri, eins og við segjum. Mér finnst þetta ekki góð skilaboð. Nokkur okkar höfum verið í stjórnmálastarfi mjög lengi og lagt allt okkar að mörkum - gert allt okkar til að hlúa að starfinu og hljóta brautargengi og stuðning til að takast á hendur stór og mikil verkefni. Það virðist þó ekki duga.

En þetta er mikið áfall fyrir ungliða hér. Svo ég tali fyrir mig var mér áfall að finna það að forysta flokksins og almennir flokksmenn myndu ekki velja neitt okkar til æðstu metorða - í vonarsæti á framboðslistanum eða skipa varamannabekkinn í bæjarstjórn. Mér ber skylda sem formanni ungliðafélagsins að standa vörð um unga fólkið í flokknum. Það að okkur öllum sé hafnað með jafnafgerandi hætti eru mjög kraftmikil skilaboð - en þau eru bitur. Fyrst og fremst vaknar spurningin: hvernig skal ávinna sér traust í Sjálfstæðisflokknum á Akureyri? Ég sá í gærkvöldi viðtal við Sigrúnu Björk Jakobsdóttur í Íslandi í dag. Sigrún Björk hlaut annað sætið í þessu prófkjöri og hefur verið í bæjarstjórn af okkar hálfu í fjögur ár. Það kom mér verulega spánskt fyrir sjónir að heyra Sigrúnu Björk segja í viðtali við Björn Þorláksson að þegar að fólk hefði áunnið sér traust væri því allir vegir færir. Jahá þetta eru mjög merkileg skilaboð svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Í framboði á laugardag voru tveir formenn Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri. Það eru ég og forveri minn, Guðmundur Egill Erlendsson. Hvorugur okkar hlaut brautargengi og hinum var sparkað niður rétt eins og okkur - ekki tryggður stuðningur frá æðstu stöðum í flokknum hér. Svo ég tali fyrir sjálfan mig hef ég verið flokksbundinn í Sjálfstæðisflokknum frá árinu 1993, verið stjórnarmaður í ungliðafélaginu hér í fjögur ár, formaður þess í tvö ár og stjórnarmaður í Sambandi ungra sjálfstæðismanna í þrjú ár. Ég hef unnið ötullega með flokknum hér seinustu árin og mætt svo til á alla fundi og sinnt flestöllum þeim verkefnum sem starfinu fylgja - enda haldið utan um flokksfélag og verið í mörgum verkefnum. Ég naut ekki trausts flokksmanna þrátt fyrir það. Hvað þarf eiginlega að gera til að öðlast traust í flokksstarfinu? Það er ekki nema von að ég spyrji eftir þessi ummæli Sigrúnar Bjarkar Jakobsdóttur.

Kannski verðum við að vera orðin 36 ára og laus við ungliðastimpilinn af okkur - vera orðin "svona fullorðins" svo gripið sé í alkunnan frasa í frægri morgunkornaauglýsingu. Spurningarnar eru margar í huga mér eftir allt mitt flokksstarf en sú spurning sem helst lifir er: hvenær öðlast ungliðar traust almennra flokksmanna? Svar óskast! En ég vona að kjörnefnd flokksins hér beri gæfa til að meta verk okkar ungliðanna einhvers. Satt best að segja bind ég vonir við að rödd okkar verði ekki alveg keyrð niður í duftið fyrir þessar kosningar eða þingkosningarnar á næsta ári. Allavega er ljóst að prófkjörsúrslitin hér lofa ekki góðu!

stebbifr@simnet.is