Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

21 febrúar 2006

Stöndum vörð um og eflum Háskólann á Akureyri!

Stefán Friðrik

Nú hafa nemendurnir við Háskólann á Akureyri fengið nóg. Skil ég það mætavel. Það hefur lengi stefnt í óefni með skólann og alveg ljóst að menntamálaráðherra hlustar ekki. Hún hlustar ekki á kröfur nemenda og hlustar ekki á kröfur flokkssystkina sinna hérna. Fyrir jól samþykktum við í stjórn Varðar ályktun um stöðu mála og höfum því sagt skoðun okkar afdráttarlaust. Styðjum við nemendur í baráttu sinni fyrir því að skólinn haldi reisn sinni og virðingu. Ég tel að nemendur geti verið stoltir, þeir hafa enda látið rödd sína heyrast með öflugum og góðum hætti. Í morgun héldu nemendur fund til að mótmæla sparnaðaraðgerðum sem að þeirra sögn stjórnendur skólans standa frammi fyrir að fyrirskipan stjórnvalda. Á fundinum talaði fulltrúi nemenda og ennfremur Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, og Kristján L. Möller alþingismaður Samfylkingarinnar. Mikilvægt er að nemendurnir eigi frumkvæði að þessum mótmælum, enda sjá allir að stöðu skólans er stefnt í voða með úrræðaleysi menntamálaráðherrans.

Nemendur gengu úr tíma kl. 10:15 til að fara til mótmælafundarins. Náðu þeir með því eyrum almennings og létu rödd sína heyrast. Er það vel. Í sunnudagspistli mínum fyrir nokkrum mánuðum, þann 14. nóvember sl, fjallaði ég um málefni Háskólans á Akureyri. Þar sagði orðrétt: "Það er alveg ljóst að við hér fyrir norðan megum ekki vera sofandi á verðinum hvað varðar stöðu Háskólans á Akureyri. Við verðum að standa vörð um hann af miklum krafti - tryggja að hann haldi styrk sínum og stöðu með markvissum hætti. Hann hefur byggst upp af miklum krafti og nýtt námsframboð hefur verið einkenni hans. Þar hefur nemendum jafnt og þétt fjölgað. Hann hefur öðlast orðspor fyrir að vera góður valkostur fyrir nemendur er þeir halda á framtíðarbrautina. Þeir eru sofandi sem telja ákvörðun vikunnar vera lítilvæga. Ég geri mér grein fyrir því að það hefur verið þrengt að skólanum með þeim skrefum sem stigin hafa verið á þessu ári og það verður að horfast í augu við það." Svo mörg voru þau orð þá - er ég enn sömu skoðunar.

Þessi pistill var ritaður því ég taldi ákvörðun daganna á undan sem fólu í sér nýtt deildaskipulag og breytingar á stjórnsýslu og þjónustu fela í sér vond tíðindi fyrir skólann. Með þessu voru sparaðar 50 milljónir króna við þær 55 milljónir sem kynnt voru í upphafi þessa árs. Fól þetta í sér að deildum skólans var fækkað úr sex niður í fjórar og starfsmönnum fækkað. Hinsvegar minnkaði ekki námsframboð. Í desember var svo opinberað í skýrslu Ríkisendurskoðunar að kostnaður á hvern háskólanema er lægstur við Háskólann á Akureyri af öllum háskólum hérlendis. Er hann um 30% lægri en við Háskóla Íslands svo dæmi sé tekið. Er algjörlega ljóst með þessu að skólinn er fjársveltur og staða hans er engan veginn ásættanlegt. Tek ég undir orð Þorsteins Gunnarssonar rektors Háskólans á Akureyri, að þetta sé óásættanlegt og þótti mér yfirlýsing um málið sem kom út á fullveldisdaginn vera í senn bæði vel orðaða og tímabært innlegg í málið. Það er enda þarft verk að snúast nú til varnar skólanum í ljósi talnanna.

Eins og allir sjá af stöðu mála getum við ekki sætt okkur við hvernig búið er að skólanum. Fjársvelti hans er staðfest og við hljótum að krefjast þess að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, grípi til sinna ráða og komi skólanum til varnar. Ef marka má viðtöl í fjölmiðlum er svo fjarri lagi. Hún hefur borið á móti því að skólinn sé fjársveltur þó að tölur Ríkisendurskoðunar sanni það með óyggjandi hætti. Er svo komið að maður efast orðið um hvort menntamálaráðherra ber hag skólans í raun og sann fyrir brjósti. Staða Háskólans hér á Akureyri skiptir okkur verulega miklu máli. Framtíð Eyjafjarðarsvæðisins og uppbygging hér veltur að stóru leyti á framtíð Háskólans á Akureyri. Við getum alls ekki horft þegjandi á stoðir skólans veikjast og bogna til. Það tel ég að hafi gerst með þeim ákvörðunum sem fyrr eru nefndar. Við stöndum allavega vörð um skólann. Ég treysti því að menntamálaráðherrann okkar standi svo við þau fögru fyrirheit sín að tryggja farsæla framtíð skólans.

Við krefjumst þess öll hér. Ég tek heilshugar undir mótmæli nemenda við Háskólann á Akureyri. Háskólinn hér hefur að mínu mati sýnt það og sannað að hann á betra skilið, samfélagið hér fyrir norðan á mun betra skilið að mínu mati. Stöndum öll vörð um Háskólann á Akureyri! Það er skylda okkar.

stebbifr@simnet.is