Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

27 apríl 2006

Svört vika fyrir Blair og Verkamannaflokkinn

Tony Blair

Um þessar mundir eru níu ár liðin frá sögulegum kosningasigri Verkamannaflokksins í Bretlandi. Það var hinn 2. maí 1997 sem að Elísabet II Englandsdrottning fól Tony Blair að mynda nýja ríkisstjórn. Daginn áður hafði ríkisstjórn Íhaldsflokksins fallið með skelli eftir 18 ára valdaferil og John Major lét því af embætti forsætisráðherra. Er Blair kom í Downingstræti 10 sem forsætisráðherra að loknum fundi með drottningu var hann hylltur af mannfjölda sem þar var saman kominn. Blair þótti þá táknmynd heiðarleika og nýs upphafs í breskum stjórnmálum að loknum tveggja áratuga valdaferli hægrimanna. Hann naut mikils fylgis lengi vel og þótti hafa níu líf sem slíkur á valdaferlinum. Nú er öldin önnur. Blair er orðinn gríðarlega óvinsæll og markvisst hefur hallað undan fæti hjá honum frá þingkosningunum í Bretlandi fyrir nákvæmlega ári. Hann hefur enda verið í miklum átökum við andstæðinga sína innan flokksin sem hafa sterkari stöðu nú en áður.

Flestum má ljóst vera að breskir kjósendur hafa fengið nóg af Blair og telja hann núorðið gerspilltan sem ómast í skoðanakönnunum. Skv. þeirri nýjustu telja 70% stjórn Blairs jafnspillta og ríkisstjórn John Major á tíunda áratugnum, þar sem hvert hneykslismálið reið yfir. Blair hefur virkað þreytulegur og úr tengslum við kjarnann, bæði í flokknum og hinn almenna kjósanda, seinustu mánuðina. Í byrjun nóvember 2005 beið hann þó sinn táknrænasta ósigur á ferlinum - þá tapaði hann í fyrsta skipti í atkvæðagreiðslu í breska þinginu. Tekist var þar um það hvort að ákvæði þess efnis að halda mætti mönnum í allt að 90 daga í stað 14 í gæsluvarðhaldi án formlegrar ákæru væru þeir grunaðir um hryðjuverkastarfsemi. Tapið varð nokkuð afgerandi og skaðlegt fyrir hann. Spurningin sem nú blasir við flestum stjórnmálaspekúlöntum í Bretlandi er tvíþætt - í fyrra lagi hversu lengi mun hann vera við völd og mun hann geta komið málum sínum í gegn?

Óhætt er að segja að þessi vika hafi verið sú versta til fjölda ára fyrir Verkamannaflokkinn. Hneykslismálin hrannast upp og þrír reyndir ráðherrar í stjórn flokksins eru í vondum málum og riða til falls. Talað var um gærdaginn sem svarta miðvikudaginn fyrir Verkamannaflokkinn í breskum fjölmiðlum og ekki er það undrunarefni. Charles Clarke innanríkisráðherra, hefur sætt miklu ámæli pólitískra andstæðinga eftir að komst upp um að rúmlega þúsund erlendum föngum hefði ekki verið vísað úr landi eftir að þeir höfðu afplánað dóma sína frá árinu 1999. Meðal þeirra eru nokkrir dæmdir morðingjar, nauðgarar og barnaníðingar. Það er ekki undrunarefni að Clarke riði til falls og hafa andstæðingar Verkamannaflokksins látið vaða gegn honum. Í fyrirspurnartíma í þinginu í gær reyndi Blair að verja Clarke en án nokkurs árangurs. Virkaði forsætisráðherrann mjög vandræðalegur í vonlausri vörninni fyrir hann.

Mörgum að óvörum riðar nú hinn gamalreyndi og harðskeytti sjóarajaxl frá Hull, John Prescott, til falls eftir að upp komst um ástarsamband við ritara hans á árunum 2002-2004. Prescott hefur verið þingmaður Verkamannaflokksins frá 1970 og lengi virkur í innsta kjarna flokksins. Hann varð varaleiðtogi Verkamannaflokksins árið 1994, er Blair var kjörinn leiðtogi og hefur frá kosningasigrinum fyrir níu árum verið aðstoðarforsætisráðherra. Prescott hefur löngum verið þekktur sem harðjaxl og óvæginn í pólitískum verkum en lengi hefur verið orðrómur uppi um að hann hafi haldið framhjá konu sinni. Þessi atburðarás kom þó langflestum Bretum að óvörum. Má nú fullvíst telja að pólitískur ferill hans sé brátt á enda. Prescott, sem er fæddur árið 1938, var talinn á útleið úr breskum stjórnmálum á kjörtímabilinu en það bendir nú flest til að ferlinum ljúki með því að hann fari frá fljótlega. Talið er að hann hafi með framhjáhaldinu farið á svig við ýmsar reglur um opinbera starfsmenn.

Síðast en ekki síst riðar Patricia Hewitt heilbrigðisráðherra Bretlands, til falls. Eftir að hún lýsti því yfir að árið 2005 hefði verið hið besta í sögu bresku heilbrigðisþjónustunnar varð allt galið í samfélaginu. Ekki er það undra sé litið til þeirra staðreynda að gífurlegur fjárskortur er í heilbrigðisþjónustunni og starfsmenn í geiranum kvarta með áberandi hætti um alltof mikið álag, aðstöðuleysi og erfiðleika í greininni. Hæst náðu mótmælin gegn Hewitt er hún mætti á ráðstefnu breska hjúkrunarfræðingasambandsins í Bournemouth, en þar var hún púuð niður og kallað var að henni ókvæðisorð. Það er því óhætt að segja að engin sæla og ánægja ríki innan bresku ríkisstjórnarinnar með stöðu þessara þriggja lykilráðherra stjórnarinnar með þessum hætti. Allt eru þetta ráðherrar sem eru með nánustu samstarfsmönnum forsætisráðherrans - fólk sem hefur stutt hann af krafti.

Forsætisráðherrann hefur reynt með veikum mætti að verja ráðherrana en með litlum árangri, svo vægt sé til orða tekið. Blair þótti eiga sinn versta dag á ferlinum er hann reyndi að verja Clarke í umræðunni í þinginu í gær. Hann var ósannfærandi og hikandi. Það minnti þar ekkert á Blair sem valdið hefur - manninn sem ræður för. Það er alveg greinilegt að Verkamannaflokkurinnr riðar til falls og að forsætisráðherrann sé að missa tökin á valdakjarna sínum innan flokksins. Staða flokksins veikist sífellt í skoðanakönnunum, Blair verður sífellt óvinsælli sem leiðtogi og stjórnin mælist með sögulegt lágmarksfylgi á valdatímanum. Úrslitaþáttur hvað varðar ráðherrana þrjá og stöðu forsætisráðherrans verða sveitarstjórnakosningarnar í landinu eftir rúma viku. Er langlíklegast að vandræðagangur þremenninganna leiði til afhroðs Verkamannaflokksins í kosningunum.

Fari svo mun enginn verja ráðherrana og þeir fjúka hið snarasta. Fari allt á hinn versta veg mun það líka hafa áhrif á stjórnmálaferil Tony Blair, sem hefur leitt Verkamannaflokkinn í tólf ár og verið hefur húsbóndi í Downingstræti 10 í tæpan áratug. Verði afhroð flokksins mikið munu raddir þess efnis að Blair taki pokann sinn fyrir sumarlok aukast til muna. Það bendir flest til þess að þáttaskil séu framundan í breskum stjórnmálum og í forystu Verkamannaflokksins. Ráðherrarnir þrír heyja mjög erfiða baráttu en ekki síðri verður varnarbarátta forsætisráðherrans sem sífellt riðar til falls.