Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

23 apríl 2006

Umræða um flugvöll á höfuðborgarsvæðinu

Ég hef lengi haft mikinn áhuga á málefnum flugvallar á höfuðborgarsvæðinu og alla tíð verið talsmaður þess að hann verði áfram þar. Fyrir ári stefndi allt í að Reykjavíkurflugvöllur yrði einmitt aðalmál þessarar kosningabaráttu en það hefur orðið rólegra yfir því tali seinustu mánuðina. Athygli vakti þó í prófkjörsslag sjálfstæðismanna að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson skipti skyndilega um skoðun á vellinum og vildi hann burt helst sem fyrst og yfirbauð þar keppinaut sinn Gísla Martein Baldursson. Ekki fannst mér margt gott við þær pælingar og fannst mörgum þær vera stuðandi miðað við fyrri rólegheit og yfirvegun Vilhjálms. Í aðdraganda landsfundar hafði Vilhjálmur aftur skipt um skoðun og orðinn meira inni á þeirri línu að halda í völlinn en leita nýrra leiða. Ef marka má tal flokksfélaga minna í borginni hafa þeir enga afgerandi skoðun um hvað eigi um völlinn að verða. Finnst mér það með ólíkindum og ætla að vona að þeir þori að láta vaða í þá átt að tala fyrir velli beint á höfuðborgarsvæðinu.

Eins og fyrr segir hefur Framsóknarflokkurinn í Reykjavík nú skotist fram með afgerandi stefnu í þessum málum sem vekur athygli og ekki síður auglýsingarnar sem kortleggja stefnuna með verulega afgerandi hætti. Verð ég að viðurkenna að ég verð sífellt meira skotinn í hugmynd framsóknarmanna eftir því sem ég sé hana betur útfærða á teikniborði þeirra. Það góða við þessar auglýsingar er einkum það að þar kemur fram skýr og afgerandi stefna á því hvert skuli stefna en ekki tal næstu árin. Það er því miður svo að margir hafa flaskað á sér í borgarmálunum hvað varðar þessi mál varðar með því að hafa ekki neina afgerandi og skýra stefnu. Að mínu mati eru valkostirnir ekki nema þrír: flugvöllur þar sem hann er nú, flugvöllur á Lönguskerjum og að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur. Sjái borgaryfirvöld sér ekki fært að hafa hann áfram í Vatnsmýrinni tel ég vænlegast að horfa á Löngusker sem staðsetningu. Ég er algjörlega mótfallinn því að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur.

Eitthvað segir mér svo hugur að Framsóknarflokkurinn í Reykjavík eigi eftir að græða á því að hafa skýra stefnu í þessum málum. Þessi auglýsing innrammar þá stefnu mjög vel. Þessi auglýsing er enda mjög afgerandi um hvað þeir vilja og hún sýnir framtíðarsýn þeirra ljóslifandi. Skoðun mín fellur því saman við þá sem framsóknarmenn tala fyrir. Það verð ég fúslega að viðurkenna. Það hefur enda þegar vakið athygli hversu ferskar auglýsingar framsóknarmanna eru. Þar er sótt í smiðju Trausta Valssonar, sem kom fyrstur með hana á áttunda áratugnum, og Hrafns Gunnlaugssonar sem færði hana í glæsilegan myndrænan búning í mynd sinni, Reykjavík í öðru ljósi, á árinu 2001. Er það jákvætt að tekin sé upp umræða um þann kost í málinu finnst mér og þessi auglýsing framsóknarmanna bætir miklu púðri í þennan kost. Þessi umræða er því aftur hafin sýnist mér og þessi auglýsing verða mikið rædd á næstunni spái ég, enda ferskt innlegg í umræðuna.

Það er mjög stutt síðan að öll umræða hljóðaði á þann veg að flugvöllurinn skyldi fara úr Vatnsmýrinni en svo væri það annarra að finna út úr hvað taka ætti við. Það sáu allir að við svo búið gat umræðan ekki einvörðungu verið stödd. Það þurfti að útfæra aðra möguleika og annan status í málið. Þessi hlið málsins, einhliða blaður sunnanmanna gat ekki gengið. Umræðan var ekki málefnaleg áður, það var ráðist að okkur úti á landi fyrir að verja þennan mikilvæga samgöngupunkt okkar og fundið að því að við værum að tjá okkur um mál sem að mati sunnanmanna væri aðeins þeirra mál. Mér persónulega fannst sérstaklega leitt að heyra tal sumra sem töluðu um aðkomu okkar að flugvellinum, sem er samgöngulegur miðpunktur allra landsmanna, og því að okkur var liggur við brigslað um að vera að skipta okkur af annarra manna málum. Flutningur innanlandsflugsins til Keflavíkur er og verður óásættanlegur kostur í mínum huga og okkar allra úti á landi. Finna þarf ásættanlega staðsetningu á höfuðborgarsvæðinu fyrir flugvöll. Þessi fyrrnefnda tillaga opnar á góða lausn.

Það er vissulega mál Reykvíkinga hvort þeir vilja hafa flugvöll innan borgarmarkanna eða ekki og önnur sveitarfélög hafa ekkert um það að segja. En á meðan Reykjavík er höfuðborg landsins og sinnir ýmsum þeim þáttum sem þeim sess fylgir geta þeir ekki lokað umræðuna á afmörkuðum bletti sinna skoðana. Það er bara þannig. Ég lít svo á að höfuðborgin sé mín rétt eins og borgarbúa að þessu leyti. Um er að ræða málefni sem skiptir því ekki bara borgarbúa máli að því leyti. Ekki veitir af umræðu um þessi mál. Hef ég talið mikilvægt varðandi Reykjavíkurflugvöll að í samfélaginu öllu verði frjó og góð umræða, þar sem teknir yrðu fyrir kostir og gallar flugvallar í Vatnsmýrinni og farið yfir málið frá víðu sjónarhorni. Samgöngulegar tengingar skipta máli hvað mig snertir, einkum í ljósi þess að ég bý á landsbyggðinni. Ég vil því fagna að þetta mál komist aftur á dagskrá.

Hugmyndin um flugvöll á Lönguskerjum er mjög góður kostur. Kanna verður þó alla þætti málsins og hvort hún sé raunhæf að því leyti að hún geti gengið upp - átt sér líf utan teikniborðsins og myndar Hrafns og auglýsingar framsóknarmannanna. Grunnpunktur af minni hálfu er að flugvöllur sé á höfuðborgarsvæðinu. Það er innri ákvörðun yfirvalda í sveitarfélaginu hvar hann sé ætli Reykjavík og svæðið þar í kring að standa undir nafni sem höfuðborg og vera áfram sá miðpunktur sem hann hefur verið til fjölda ára. En megi umræðan um þetta mál blómstra og jákvætt er að hver tjái sig og sínar skoðanir með ákveðnum hætti. Það er eðlilegt að menn tali hreint út og segi sínar skoðanir óhikað.