Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

19 apríl 2006

Uppstokkun í Hvíta húsinu

Hvíta húsið

Það er óhætt að segja að mikil uppstokkun sé þessar vikurnar í starfsmannaliði Hvíta hússins og innsta kjarna George W. Bush forseta Bandaríkjanna, í forsetabústaðnum. Nýlega tók Joshua B. Bolten við embætti starfsmannastjóra í Hvíta húsinu af Andrew Card, sem setið hafði á þeim stóli í rúmlega fimm ár. Brotthvarf hans var rakið til sífellt vaxandi óvinsælda forsetans. Það var til marks um stöðu mála að Card, sem verið hafði einn nánasti samstarfsmaður forsetans, myndi hætta störfum og breyting verða á forystu starfsmannahaldsins. Í dag hélt uppstokkunin áfram. Þá tilkynnti Scott McClellan talsmaður forsetans, um afsögn sína. McClellan hefur verið talsmaður Bush forseta allt frá sumrinu 2003, er Ari Fleischer lét af störfum. Hann hafði verið umdeildur alla tíð sem blaðafulltrúi og talsmaður forsetans en tímasetningin þykir merkileg.

Það eru aðeins örfáir dagar síðan að Bolten tók við af Card og greinilegt á þessu að hann vill stokka upp starfsmannakjarnann og hefur til þess stuðning forsetans, sem berst í bökkum vegna aukinna óvinsælda. Fleiri tíðindi urðu í dag er þá tilkynnti Karl Rove, einn af aðalhugmyndafræðingum og PR-mönnum forsetans um afsögn sína sem yfirmaður stefnumótunar í Hvíta húsinu. Við þeim starfa tekur Joel Kaplan. Rove hefur verið einn af helstu mönnunum á bakvið pólitíska velgengni forsetans og má telja herkænsku hans og strategíu einn meginþátt þess að Bush vann forsetakosningarnar í nóvember 2000 og hélt velli í kosningunum í nóvember 2004. Nú þegar að líða tekur á seinna kjörtímabil forsetans hefur fallið verulega á Rove og greinilega þykir kominn tími til að hann verði minna áberandi í forystukjarna forsetans.

Greinilegt er að forsetinn og nýr starfsmannastjóri hans ætla nú að snúa vörn í sókn. Framundan eru mikilvægar þingkosningar í nóvember fyrir Repúblikanaflokkinn. Tapist önnur þingdeildin, eða það sem verra er báðar þeirra, skaðast forsetinn verulega og verður sem lamaður leiðtogi lokahluta valdaferilsins, líkt og svo margir fyrri forsetar repúblikana. Gott dæmi eru enda Bush eldri og Reagan, sem áttu við erfiða stöðu að glíma undir lokin með þingið á móti sér. Þingmenn repúblikana eru óhræddir nú orðið við að gagnrýna Bush og stjórn hans, enda fer Bush ekki í aðrar kosningar. En Repúblikanar óttast greinilega kosningarnar í nóvember og telja ástæðu til að stokka upp og fer sú uppstokkun nú fram í lykilkjarnanum í Hvíta húsinu.

Það verður fróðlegt að sjá næstu vikurnar hvort það hafi eitthvað að segja fyrir stöðu forsetans og flokk hans er styttist í þingkosningarnar. Eitt er þó ljóst: Rove er ekki farinn úr lykilliði forsetans en heldur nú í bakvarðarsveitina í aðdraganda þingkosninganna. Hvort það dugar Bush og repúblikönum að Rove fari í þær stellingar skal ósagt látið.