Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

08 maí 2006

Líf og fjör í kosningabaráttunni

XD ÁFRAM!

Kosningabaráttan er algjörlega komin á fullt og í mörg horn að líta þessa dagana. Í dag eru 19 dagar til stefnu - styttist óðum í kjördag. Var kominn snemma í morgun á kosningaskrifstofu okkar sjálfstæðismanna í Kaupangi og tók til við verkefnin þar. Það er mjög skemmtilegur andi hjá okkur þar núna þegar að styttist í kjördag. Við sem vinnum uppfrá að verkefnunum erum samhentur og góður hópur sem erum einbeitt í því að vinna að því að sigur okkar verði sem mestur í kosningunum. Í hádeginu í dag var fjölmennur súpufundur með iðnaðarmönnum í Kaupangi og mikið líf og fjör þar. Flutti Kristján Þór kraftmikla og góða ræðu við það tilefni og fór yfir stöðu mála í byggingageiranum hér í valdatíð okkar á meðan að viðstaddir gæddu sér á ljúffengri súpu og góðu brauði.

Það er ekki amalegt að vinna á kafi í kosningabaráttu - enda alltaf gaman af pólitík. Það er sérstaklega gaman að hafa Sigrúnu Óla sem vinnufélaga í Kaupangi, en hún sér um eldhúskrókinn okkar - býður upp á morgunverð og sér til þess að brauðbásinn sé ávallt fullur af kræsingum og það sé heitt á könnunni. Í dag leit mikill fjöldi fólks í kaffi og var ánægjulegt að fara yfir stöðuna í pólitíkinni. Það var sérstaklega notalegt að taka sér pásu seinnipartinn í góðu spjalli við gestina sem voru hjá okkur og fara yfir stöðu mála. Það er samdóma mat þeirra sem ég hef hitt að við höfum góða stöðu og við sækjum af krafti í lokasprettinn. Það er ágætt að benda óákveðnum kjósendum á það hvort það vilji frekar öfluga stjórn okkar sjálfstæðismanna í bænum eða sundurleita stjórn minnihlutaaflanna.

Það eru 19 dagar eftir og við höldum í þetta saman og af krafti. Hvet alla til að kíkja við og fá sér kaffi hjá okkur í kosningamiðstöðinni og fara yfir pólitíkina. Þeir sem vilja spjall um pólitík og heitan og góðan kaffibolla skulu endilega líta við hjá okkur - þar er opið frá morgni til kvölds og alltaf allt á fullu. Við erum að allan daginn núna og höfum gaman af álaginu og skemmtuninni sem fylgir kosningavinnunni. Sjáumst hress!