Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

02 maí 2006

Tony Blair reynir að snúa vörn í sókn

Tony Blair

Níu ár eru í dag liðin frá því að Tony Blair tók við embætti forsætisráðherra Bretlands eftir sögulegan kosningasigur Verkamannaflokksins sem batt enda á 18 ára valdaferil Íhaldsflokksins. Óhætt er að fullyrða að valdaferill Blairs hafi verið stormasamur og hann hafi sannað mjög vel á þessum tíma að hann hefur haft níu líf kattarins í pólitík. Lítið er um hátíðarhöld á níu ára valdaafmælinu. Forsætisráðherrann hóf snemma í morgun kosningaferðalag um byggðir landsins vegna sveitarstjórnarkosninganna á fimmtudag. Þar stefnir allt í afhroð flokksins og reynir Blair nú allt sem hann getur til að halda fylgi flokksins stöðugu í miðjum önnum hneykslismála og vaxandi óvinsælda sem skekja stöðu flokksins sem leiðandi afls í breskum stjórnmálum. Fari sem horfir í skoðanakönnunum núna mun Verkamannaflokkurinn verða fyrir sínum mesta skelli í sveitarstjórnarkosningum í fjóra áratugi á fimmtudag.

Tony Blair má vart við skelli í kosningunum á fimmtudag. Staða hans sem þjóðarleiðtoga og ríkisstjórnar hans versnar sífellt. Óvinsældir Blairs og stjórnarinnar eru orðnar það miklar að botninum er náð. 2/3 landsmanna vilja að Blair segi af sér sem fyrst og 3/4 landsmanna telja stjórn Verkamannaflokksins spillta. Skilaboð forsætisráðherrans á kosningaferðalagi á níu ára valdaafmæli sínu er að landsmenn horfi til verka flokksins seinustu níu árin en einblíni ekki á hneykslismál seinustu daga. Engum blandast hugur um að bæði John Prescott aðstoðarforsætisráðherra, og Charles Clarke, innanríkisráðherra, eiga undir högg að sækja í kjölfar hneykslismála, sem ég fjallaði um í ítarlegum pistli á föstudag. Búist er við uppstokkun í ríkisstjórn Verkamannaflokksins á föstudag að kosningunum loknum. Úrslit þeirra munu eflaust ráða því hversu mörgum verður hent þar út. Verði skellurinn stór megi búast við að bæði Prescott og Clarke hrökklist frá.

Tony Blair virkaði mjög þreytulegur þegar að hann ávarpaði stuðningsmenn Verkamannaflokksins í Blackpool í morgun. Það blasti við á svipbrigðum hans að hann telur sig eiga mikið verk fyrir höndum. Ef marka má skoðanakannanir er fylgi flokksins víða í sveitarstjórnum að hruni komið og blasir við afhroð. Blair reynir að snúa vörn í sókn. Hvort að honum tekst það er stóra spurningin þessa stundina. Hinsvegar hefur hann ekki langan tíma. Innan við 48 klukkustundir eru til kosninganna og tíminn orðinn naumur svo vægt sé til orða tekið.