Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

13 maí 2006

Útitafl sjálfstæðismanna á Ráðhústorgi

Mælirinn sýndi tvær gráður á Ráðhústorginu - norðanvindurinn næddi um áhorfendur þegar að sjálfstæðismenn héldu útitafl sitt í gær. Þar var létt og notaleg stemmning - allir hressir og létu kuldann ekkert á sig fá. Taflmennirnir voru sprelllifandi og sjá mátti frambjóðendur og stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins ýmist í hvítum eða svörtum treyjum á taflborðinu. Þeir létu sig ekki muna um að skipta um hlutverk í augnablik og gerast taflmenn í rúman hálftíma.

Í skákinni kepptu þeir Friðrik Ólafsson stórmeistari og fyrrum skrifstofustjóri Alþingis, sem tefldi fyrir D-listann og Gylfi Þórhallsson, skákmeistari Akureyrar sem tefldi fyrir Skákfélag Akureyrar. Unnsteinn Jónsson frambjóðandi, hafði veg og vanda af skipulagningu og Halldór Blöndal leiðtogi flokksins í kjördæminu, var skákmönnum til halds og trausts á meðan að Kristján Þór stýrði leikmönnum af snilld á sjálfu taflborðinu - sérgerðu á Torginu.

Til hliðar stóðu stuðningsmenn framboðsins í kuldanum og fylgdust með. Skemmtu allir sér konunglega og höfðu gaman af. Að loknu taflinu skelltu kaldir skákáhugamenn og stuðningsmenn D-listans sér á kosningaskrifstofuna þar sem Oktavía, Sigrún Óla og Gulla Sig biðu með heitar vöfflur og ekta kakó. Frábær stemmning í gær og fjölmenni á skrifstofunni og var gaman að spjalla yfir kakóbolla og vöfflu. :)