Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

31 júlí 2006

Hugleiðingar um Skjaldarvík

Skjaldarvík

Ég heyrði af því nýlega að nú stæði til bráðlega að loka hjúkrunarheimilinu Skjaldarvík, sem er rekið á vegum Öldrunarheimila Akureyrarbæjar, en það er staðsett á fallegum stað 8 km. hér fyrir norðan bæinn. Þar var rekið hjúkrunarheimili til fjölda ára, lokað árið 1998 og vistmenn þar fluttir í elliheimili í Kjarnalundi, rétt við Kjarnaskóg, en Skjaldarvík opnaði að nýju nokkrum árum síðar sem elliheimili. Stefán Jónsson, athafnamaður, stofnaði elliheimili í Skjaldarvík á eigin vegum og rak það með skörungs- og myndarskap til fjölda ára. Hann ánafnaði Akureyrarbæ húsnæðinu og öllu sem heimilinu tengist eftir sinn dag að því gefnu að það yrði rekið áfram. Akureyrarbær tók við því að reka Skjaldarvík og gerði það með sama glæsibrag lengst af.

Mín fjölskylda hefur verið viðloðandi Skjaldarvík til fjölda ára. Ég var þar reglulegur gestur í yfir tvo áratugi og verð að segja það eins og er að ég met Skjaldarvík mikils. Langafi minn, Kristmundur Jóhannsson, sem bjó á Eskifirði 1923-1959 ákvað að setjast að í Skjaldarvík er heilsunni tók að halla og hann gat ekki lengur dvalið fyrir austan hjá ömmu. Þar bjó hann til dánardægurs árið 1964. Þau ár sem hann lifði eftir að hann kom norður dvöldu amma og mamma í Skjaldarvík og unnu þar yfir sumarið til að geta verið hjá honum. Örlögin höguðu því svo til að Sigurlín Kristmundsdóttir, amma mín, fór að vinna í Skjaldarvík er hún flutti alfarin norður árið 1974.

Ég held að það sé vægt til orða tekið að amma hafi bundist hugfóstri við þetta heimili. Þar vann hún í rúman áratug í fullu starfi og hafði þar fast herbergi til fjölda ára meðan að hún vann þar, enda var óreglulegur vinnutími þar hjá henni. Þess á milli bjó hún hjá foreldrum mínum í Þórunnarstrætinu og Norðurbyggð, allt þar til að hún hætti að vinna vegna aldurs árið 1983. Árið 1991 var svo komið hjá ömmu að hún varð að fara sjálf á elliheimili. Hún valdi sér búsetu í Skjaldarvík þegar að þar var komið sögu - þá kom ekkert annað til greina hjá henni. Hún bjó þar í sjö ár, allt þar til að heimilinu var lokað, en það var ákvörðun sem var mjög óvinsæl meðal vistmanna. Hún lét þó ekki bjóða sér að vera púttað í Kjarnalund heldur fluttist að eigin ákvörðun á Dalbæ á Dalvík og bjó þar til æviloka.

Ég gæti sjálfsagt skrifað mjög langa grein um þær skoðanir sem ég man eftir að vistmenn í Skjaldarvík höfðu á því að flytja búferlum frá þessu heimili sínu og halda í aðra átt en ég kýs að sleppa því. Ég hafði dvalið þarna til fjölda ára og fór nær daglega í Skjaldarvík héðan til að heimsækja ömmu og tel mig því þekkja vel staðinn og það góða andrúmsloft sem þar ríkti, ég þekkti líka vel þá sem þar bjuggu. Ég gladdist með það þegar að Akureyrarbær ákvað að elliheimili skyldi aftur verða í Skjaldarvík á síðasta kjörtímabili og vonaði innst inni að það væri varanleg ákvörðun, enda var tekið til hendinni þar og loksins farið í endurbætur sem bæjaryfirvöld trössuðu mjög lengi gagngert til að hafa tylliástæðu til að loka þar.

Það eru mikil vonbrigði að bæjaryfirvöld hafi enn einu sinni í hyggju að loka í Skjaldarvík. Það fólk sem þar dvelst hefur mótmælt þessari lokun og því að vera flutt í burtu með valdboði og skilað inn formlegu mótmælaskjali til starfandi bæjarstjóra. Ég stend svo sannarlega með þessu fólki í baráttunni og bind vonir við að bæjaryfirvöld hér hafi áfram elliheimili í Skjaldarvík og standi með því vörð um þann rekstur sem honum var gefinn á sínum tíma af athafnamanninum Stefáni Jónssyni. Það er ekki bæjaryfirvöldum til sóma verði þar lokað aftur með sama hætti og árið 1998.