Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

24 júlí 2006

Eyðimörk vinstriafla - Sharon - klassaræma

AlþýðuflokkurinnAlþýðubandalagiðSamfylkingin

Það dylst engum að vinstriöflin í landinu hafa háð langa eyðimerkurgöngu í landsmálunum síðasta áratuginn. Kommar í pólitík hafa ekki verið í ríkisstjórn í 15 ár og kratarnir verið utan stjórnar í 11 ár. Það er langur tími og margir vinstrimennirnir orðnir verulega valdaþyrstir og tilbúnir að leggja allt í sölurnar fyrir völd. Samt gengur þeim ekkert og eru í raun í sömu sporunum nú og við upphaf þessa kjörtímabils. Fremst í flokki valdasjúkra vinstrimanna er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar. Eins og ég minntist á hérna í gær var hún í viðtali við frænda minn, Helga Seljan, í Pressunni á NFS í gær. Um margt merkilegt viðtal svo sannarlega, einkum vegna þess að ekkert nýtt kom þar fram nema síendurtekinn málefnafátækt og stefnuflökt flokksins. Kostulegt alveg.

Í dag fer ég yfir eyðimerkurgöngu vinstriaflanna í ítarlegum pistli á vef SUS. Um margt merkileg saga. Það dylst engum sem yfir fer að örvænting vinstrimanna er orðin nokkur eftir að ná völdum og það hefur gengið á ýmsu í þeirra röðum. Þess vegna hlýtur það að teljast merkilegt að þau standi ekki betur að vígi en raun ber vitni. Mér fannst viðtalið við formann Samfylkingarinnar staðfesta vel hversu vond staða hennar er orðin í stjórnmálum. Stefnuflöktið fælir enda frá og margir spyrja sig fyrir hvað þessi flokksleiðtogi standi eiginlega - hver sé hennar pólitík. Mörgum er það hulið. Það er ekki undarlegt að Samfylkingarfólk sé eiginlega hætt að loka á Sjálfstæðisflokkinn sem samstarfsaðila að kosningunum loknum og telja það bestu leiðina til að hljóta einhver völd og áhrif í landsmálum.

Nú þegar styttist í næstu alþingiskosningar bendir flest til þess að vinstriflokkarnir þurfi að halda áfram eyðimerkurgöngunni. Það sést í hverri könnuninni á eftir annarri að almenningur treystir þeim ekki fyrir forystu í landsmálunum. Samfylkingin reynir að vinna tiltrú almennings með lítt áberandi hætti. Stefnuleysi flokksins kemur sífellt fram í tali fjölmiðlamanna við formanninn Ingibjörgu Sólrúnu og kristallaðist í viðtalinu við hana á NFS. Það verður athyglisvert að fylgjast með VG á væntanlegum kosningavetri og hvort flokkurinn muni ná að narta í Samfylkinguna og jafnvel standa á pari við hana að kosningum loknum. Ef marka má viðtalið er Samfylkingin og leiðtogi hennar einmitt mest hrædd við það. Allir órar um tvo turna er enda fjarstæða í dag og skal enga undra.


Ariel Sharon

Vargöldin í Beirút er væntanlega frétt ársins og ekkert er meira í fréttum þessa dagana, skiljanlega. Það er með ólíkindum að fylgjast með því sem þar gerist. Skalinn af þeirri frétt er svo mikill að ekkert annað kemst nærri. Það sem þar er um að ræða er auðvitað ekkert annað en styrjöld og sér ekki fyrir endann á henni. Þar sem maður er staddur fjarri þessum hörmungum er erfitt að setja sig í fótspor þeirra sem þeir upplifa. Fannst þó merkilegt að sjá viðtal við þá Íslendinga sem flúðu ófriðinn hingað í rólegheitina hér heima á Fróni. Merkilegar lýsingar og áhugavert að heyra þeirra sjónarhorn á stöðu mála. Reynt er að finna flöt í þetta mál þessa dagana með sáttaumleitunum og eru utanríkisráðherra Bandaríkjanna og fleiri aðilar farnir í það verkefni. Verður að teljast ólíklegt að friðsamleg lausn finnist fljótlega, þó auðvitað voni það allir.

Mitt í þessum átökum tekur heilsu Ariel Sharon að hraka eftir langa sjúkralegu. Í hálft ár hefur þessi áhrifamikli og dómínerandi stjórnmálaleiðtogi Ísraela verið í dái en aðeins rúmir tveir mánuðir eru liðnir frá því að hann missti endanlega valdatitil sinn. Það er ekki hægt að segja annað en að hann hafi verið harður af sér og hefur hann lifað lengur en margir töldu miðað hversu alvarlegt heilablóðfallið var sem hann fékk í ársbyrjun. En nú hefur hallað undan fæti og væntanlega styttist í að hann fari yfir móðuna miklu. Falli hann frá í skugga átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs sem nú standa verður fróðlegt að sjá hvernig staðið verði að útför hans. Lengi vel var honum kennt um harðlínustefnu stjórnvalda og talið breyst nokkuð nú.

Ehud Olmert virðist vera að taka á sig mynd sömu átaka á stjórnmálavettvangi í M-Austurlöndum og einkenndu áður Ariel Sharon, áður en hann varð friðardúfa á gamals aldri. Áhrifa Sharons gætir vissulega enn í ísraelskum stjórnmálum. Nánustu fylgismenn Sharons í hinum nýstofnaða flokki hans, Kadima, náðu völdum eftir þingkosningar fyrr á árinu og ráða lögum og lofum í landinu í stjórn með Verkamannaflokknum. Stefnan virðist herská og hefur enda heyrst á mörgum að friðardúfustimpillinn á Kadima hafi verið tálsýnin ein. Það er kaldhæðnislegt ef Sharon deyr í skugga þessara átaka og hlýtur að verða merkilegt að sjá hvernig þessi fyrrum áhrifamikli leiðtogi ísraelskra stjórnmála verði kvaddur í kastljósi stríðsvargaldar.


Burt Lancaster og Deborah Kerr í From Here to Eternity

Í gærkvöldi naut ég þess að horfa á hina klassísku og áhrifaríku óskarsverðlaunamynd From Here to Eternity, sem er gerð eftir skáldsögu James Jones, og telst ein af gullaldarklassíkum kvikmyndasögunnar. Hún lýsir með glæsibrag herbúðalífi bandarískra hermanna á Hawaii, skömmu fyrir hina afdrifaríku árás Japana á Pearl Harbour 7. desember 1941, í seinni heimsstyrjöldinni. Segir að mestu sögu boxara er kemur nýr á staðinn örfáum vikum fyrir árásina. Hann neitar að boxa fyrir herdeildina, sökum óhapps sem hann lenti í á fyrri herstöðinni og orsakaði það að hann var fluttur þaðan til Hawaii. Flækjur verða í tengslum aðalsöguhetjanna og þær lenda með áhrifaríkum hætti í miðpunkti sögulegra átaka í Perluhöfn í kjölfar árása Japananna. Frábær mynd sem hrífur alla sanna kvikmyndaunnendur.

Mörg klassaatriði standa upp úr sem mikið hafa verið stæld, t.d. atriðið þegar Burt Lancaster og Deborah Kerr liggja í faðmlögum í fjörunni með blossandi brimið í kringum þau og ótal önnur. Leikhópur myndarinnar var í hágæðaformi í myndinni og er myndin einna helst rómuð vegna góðs leiks. Lancaster og Kerr náðu hæstum hæðum á sínum litríku leikferlum í hlutverkum skötuhjúanna Wardens liðþjálfa og Karen Holmes. Montgomery Clift var í klassaformi í hlutverki hermannsins Prewitt og síðast en ekki síst glönsuðu Frank Sinatra og Donna Reed í óskarsverðlaunatúlkununum sínum í myndinni: hann sem hinn síkáti hermaður Maggio og hún sem Lorene, hin trygga unnusta Prewitts. Ekki má heldur gleyma þeim Ernest Borgnine, Jack Warden og Philip Ober.

Var virkilega áhugavert að rifja upp þessa góðu kvikmynd og horfa á hana enn einu sinni. Myndin var nosturslega stýrð af snillingnum Fred Zinnemann, sem hlaut óskarinn fyrir leikstjórn sína og hélt óaðfinnanlega utan um innra sem ytra útlit myndarinnar. Úr varð ein af bestu myndum síns tíma og hlaut myndin átta óskarsverðlaun og er margrómuð fyrir listilega frásögn og vandaða umgjörð: sérstaklega er kvikmyndatakan algjört augnakonfekt. Í gærkvöldi horfði ég ennfremur á Syriana og naut þeirrar frábæru stjórnmálaádeilu í botn. Í kvöld ætla ég að horfa á klassamyndina High Noon með Gary Cooper og Grace Kelly. Eðalklassi eins og hann gerist bestur.


10-11 í miðbænum

Lagði leið mína eftir kaffispjall með góðum félögum á Bláu könnunni í dag yfir í Hamborg og verslaði í fyrsta skiptið í nýrri verslun 10-11 þar. Líst ljómandi vel á þessa verslun. Góð þjónusta og notalegur andi í þessu sögufræga húsi. Verslaði mér góðgæti úr salatbarnum og ávaxtadrykk með. Tel það góð tíðindi fyrir miðbæinn að fá verslun á þessum stað, eins og fyrr hefur komið fram á vefnum. Tel þetta af hinu góða og óska eigendum og starfsfólki góðs í verkum sínum í þessu sögufræga húsi í miðbænum.


Halldór Blöndal

Að lokum vil ég benda á athyglisverðan pistil Arnljóts Bjarka Bergssonar á Íslendingi, vef flokksins í bænum, í dag. Það er svo sannarlega athyglisvert að lesa hann - bendi fólki á að lesa pistilinn.