Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

26 júlí 2006

Prófkjör fari fram í Norðausturkjördæmi

Sjálfstæðisflokkurinn

Það eru innan við 10 mánuðir til alþingiskosninga. Þó að hásumar sé og menn víða í sumarfríum er farið að ræða með áberandi hætti um það hvernig standa skuli að vali frambjóðanda flokkanna fyrir næstu þingkosningar. Ákveðið hefur verið að boða til kjördæmisþings hjá okkur sjálfstæðismönnum í Norðausturkjördæmi um miðjan októbermánuð í Mývatnssveit - þar verður tekin afstaða til þess hvort stillt verði upp á lista eða ákveðið að boða til prófkjörs meðal flokksbundinna sjálfstæðismanna. Við flestum blasir að í stærsta flokki landsins verði þess krafist í öllum kjördæmum að efnt verði til prófkjörs. Í gær birtist vönduð grein félaga míns, Arnars Þórs Stefánssonar, á Deiglunni þar sem hann hvetur til þess að prófkjör verði hjá flokknum í öllum kjördæmum. Tek ég undir hans skoðanir þar.

Ég er þeirrar skoðunar að boða eigi til prófkjörs til að velja frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi fyrir væntanlegar þingkosningar. Það er svo sannarlega kominn tími til að efna þar til prófkjörs. Fyrir síðustu alþingiskosningar var ákveðið að stilla upp á lista eftir mikla umræðu um framboðsmálin á kjördæmisþingi á Egilsstöðum í október 2002. Var það mjög fróðleg umræða sem sýndi mér mjög vel fylkingar þeirra sem vildu það ekki og hinsvegar þeirra sem börðust fyrir prófkjöri. Við í stjórn Varðar á þeim tíma vildum prófkjör og ályktuðum um það meira að segja. Það varð þó ekki raunin. Tel ég að það hafi verið mikil mistök og hafi skaðað flokkinn í kosningabaráttunni. Margir deildu um þá niðurstöðu sem varð við val framboðslistans sem var samþykktur síðar og deildar meiningar voru um hversu sterkur hann var.

Ekki hefur verið prófkjör meðal sjálfstæðismanna í landsmálum í norðurhluta kjördæmisins frá árinu 1987. Í því prófkjöri var Halldór Blöndal fyrst kjörinn leiðtogi (hann varð leiðtogi listans sjálfkrafa við afsögn Lárusar Jónssonar árið 1984) og Tómas Ingi OIrich varð þá t.d. í þriðja sæti. Síðar færðist hann upp í annað sætið og var sú uppstilling viðhöfð um efstu tvö sætin í kosningunum 1991, 1995 og 1999, oftast með mjög góðum árangri. Þess ber enda að geta að Sjálfstæðisflokkurinn í NE vann sinn stærsta og glæsilegasta kosningasigur undir forystu Halldórs árið 1999 og þá varð Halldór fyrsti þingmaður kjördæmisins og Tómas var kjördæmakjörinn. Það var eftirminnilegur sigur, svo ekki sé fastar að orði kveðið - sigur sem sannar fyrir okkur öllum að við getum haft Framsókn undir hér.

Í aðdraganda seinustu kosninga var þó staðan breytt - nýtt og víðfeðmara kjördæmi komið til sögunnar og sameining flokksstofnana í NE og Austurlandskjördæmi tók við. Hún gekk að mörgu leyti vel en að öðru leyti ekki, eins og gengur og gerist. Það tekur allt tíma. Niðurstaðan var semsagt að stilla upp síðast. Halldór gaf kost á sér að nýju og var óumdeildur leiðtogi listans. Um annað sætið tókust Tómas Ingi (þá menntamálaráðherra) og Arnbjörg. Uppstillingarnefnd, kjörin á kjördæmisþinginu á Egilsstöðum, ákvað að stilla Tómasi upp í annað sætið. Kom upp tillaga á kjördæmisþingi á Akureyri í lok nóvember 2002 um að Arnbjörg fengi annað sætið. Kosið var á milli þeirra og vann Tómas afgerandi sigur. Arnbjörg skipaði þriðja sætið og Sigríður Ingvarsdóttir (þingmaður frá 2001) var í því fjórða.

Niðurstaðan varð sú að flokkurinn hlaut tvo þingmenn kjörna og Arnbjörg féll því af þingi. Hún kom inn á þing við afsögn Tómasar Inga af þingi í kjölfar þess að hann lét af ráðherraembætti í lok ársins 2003. Það blandast engum hugur um það að úrslit kosninganna 2003 voru vonbrigði fyrir okkur sjálfstæðismenn hér. Ég tel að það hafi verið mjög röng ákvörðun að efna ekki til prófkjörs þá í hinu nýja kjördæmi og stokka spilin upp. Óánægja var meðal Austfirðinga með stöðu Arnbjargar og margir vildu hafa Tómas Inga í öðru sæti vegna þess að hann var ráðherra. Um Halldór var mikil samstaða meðal þeirra sem voru í uppstillingarnefndinni og í forystu flokkskjarnans. Eðlilegast hefði verið að flokksmenn hefðu fengið valdið í sínar hendur - efnt til prófkjörs og jafnvel gefið fleirum tækifæri til að fara fram til forystu.

Ljóst er að margir vilja prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum í Norðausturkjördæmi nú. Það er eðlilegt. Eins og fyrr segir ekki verið prófkjör í norðurhlutanum (gamla NE) frá 1987 og í Austurlandi ekki verið prófkjör frá 1999. Nú er svo sannarlega orðið mjög mikilvægt að flokksmenn allir fái það vald í hendurnar að velja framboðslistann og efnt verði til prófkjörs. Eðlilegt er að uppi sé krafa nú um að fram fari prófkjör. Það kemur í mínum huga ekki annað til greina nú en að stokka verulega upp spilin og boða til prófkjörs til að velja þá sem leiða flokkinn í Norðausturkjördæmi í komandi kosningum og starf flokksins í kjördæminu á næsta kjörtímabili.



Bogart í The Caine Mutiny

Hefur verið rólegt og gott seinustu dagana. Horfði í gærkvöldi á hina mögnuðu The Caine Mutiny, klassískt og sígilt réttardrama frá árinu 1954 byggt á handriti margfrægrar Pulitzer-verðlaunaskáldsögu Hermans Wouk. Segir frá því þegar tveir sjóliðsforingjar gera uppreisn gegn skipherra sínum, kapteini Quegg, og segja hann orðinn einráðan og andlega vanheilan til að stjórna skipinu. Sérlega vönduð og áhugaverð sviðsetning og stórkostlegur leikur aðalleikaranna er aðall þessarar klassamyndar.

Humphrey Bogart fer á kostum í hlutverki skipherrans, einu af bestu hlutverkum hans á glæsilegum ferli. Túlkun hans nær hámarki er Quegg er leiddur til vitnis í réttarsalnum, þar sýnir Bogart á ógleymanlegan hátt hið snúna og margbrotna sálarástand skipherrans. Þetta hlutverk er í raun síðasta stórhlutverk Bogarts, en hann lést tæpum þrem árum eftir gerð myndarinnar.

Ekki má heldur gleyma öðrum leikurum, en þeir Van Johnson, Robert Francis, Fred MacMurray, José Ferrer og Lee Marvin fara einnig á kostum í hlutverkum sínum. Sannkölluð eðalmynd, var orðið mjög langt síðan að ég sá hana og hún var góður yndisauki á sumarkvöldi.


Akureyri að sumri

Hefur verið yndislegt sumarveður hér seinustu dagana. Fór í morgun í sund og góðan hjóltúr að því loknu. Virkilega notalegt og gott - við njótum öll lífsins hér á fögrum sumardegi.