Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

30 júlí 2006

Notaleg helgi - pólitísk skrif - klassamyndefni

Illugi Gunnarsson

Þetta hefur verið róleg og notaleg helgi. Fór í dag í listasafnið á sýningu á verkum listakonunnar Louisu Matthíasdóttur. Þetta var frábær listamaður og málverk hennar eru glæsileg. Louisa skipar veigamikinn sess í listasögu landsins og er ein fremsta listakonan í sögu landsins. Hafði ætlað mér lengi að fara á þessa sýningu og dreif loksins í því með vinafólki mínu sem er statt í bænum og átti leið um hér í dag. Eftir menningarreisuna fórum við svo auðvitað í kaffispjall í Bláu könnuna og settumst niður úti með kaffibolla og gæddum okkur á veglegum tertusneiðum. Í kvöld fór ég svo í klukkustundarlangan göngutúr í rigningunni í Kjarnaskógi - hressandi og gott eins og venjulega. Það var mjög notalegt að fá sér göngu í þessu veðri og eins og alltaf kemur maður mun hressari úr þessari útivist.

Í morgun fékk ég mér kaffibolla og renndi yfir dagblöðin tvö áður en horft var á hádegisfréttir og Pressuna á NFS. Í Fréttablaðinu bar hæst frábær pistill Illuga Gunnarssonar - nú sem ávallt fyrr er Illugi með áhugaverðar og góðar pólitískar pælingar sem gaman er að lesa. Fór hann þar yfir stefnuleysi og vandræðagang Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í viðtali Helga Seljan, frænda míns, á NFS um síðustu helgi. Hann segir þar eiginlega það sem mér bjó í brjósti þegar að ég horfði á viðtalið. Illugi á þarna sérstaklega góðan dag í skrifum og hittir naglann algjörlega á höfuðið hvað varðar áberandi stefnuleysi Samfylkingarinnar og formanns hennar. Þetta er grein sem vert er að mæla með og það má segja sem svo að þeir sem meti pólitík dagsins í dag mikils hafi lesið hana með áhuga yfir morgunkaffinu.

Illugi Gunnarsson er vaxandi pólitísk stjarna að mínu mati. Það leikur enginn vafi á því í mínum huga að Illugi sé efnilegt þingmannsefni fyrir flokkinn í komandi þingkosningum. Það yrði mikill fengur að því fyrir Sjálfstæðisflokkinn að hann myndi gefa kost á sér fyrir væntanlegar alþingiskosningar og ég vona að hann muni gera það. Hann stóð sig virkilega vel sem pólitískur aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar í forsætis- og utanríkisráðuneytinu og hefur verið mjög áberandi í stjórnmálaumræðunni. Tel ég að svo fari að Illugi geti valið milli kjördæma til framboðs. Illugi er fæddur og uppalinn á Siglufirði. Helst vildi ég að Illugi myndi gefa kost á sér hér í Norðausturkjördæmi, enda veitir okkur ekki af uppstokkun í okkar hópi hér á þessum slóðum.

Stjórnarslit 1988

Var í gær að fara yfir gamalt myndefni í spólusafninu mínu. Ég hef alltaf verið þekktur fyrir að hafa áhuga á myndefni, sérstaklega fréttatengdu. Er ég einn þeirra sem hef gaman af að eiga efni, eins og t.d. fréttaannála og áramótaþætti og safna. Fann í gær í safninu mínu skemmtilegan umræðuþátt Elínar Hirst í aðdraganda forsetakosninganna 1996 þar sem Ólafur Ragnar Grímsson sat fyrir svörum, svo var það þátturinn frægi árið 1991 þar sem Steingrímur Hermannsson og Davíð Oddsson hnakkrifust í upphafi forsætisráðherraferils Davíðs um fortíðarvandann sem stjórn Steingríms skildi eftir sig. Svo var það auðvitað hin sígilda stund er Steingrímur Hermannsson og Jón Baldvin Hannibalsson slitu í raun samstarfi flokka sinna við Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar haustið 1988.

Fannst mér alveg virkilega áhugavert að horfa á þessa eina sterkustu stund íslenskrar sjónvarpssögu þegar að Steingrímur og Jón Baldvin eiginlega segja sig formlega frá stormasömu samstarfinu við Þorstein. Sólarhring eftir þáttinn hafði Þorsteinn sagt af sér og samstarfinu var lokið. Mörgum sjálfstæðismönnum sveið mjög að sjá flokk sinn missa stjórnarforystuna og töldu margir að Þorsteinn hefði átt að grípa til sinna ráða og segja flokkanna úr stjórninni og boða til kosninga. Slíkar kosningar á þeim tímapunkti hefðu slegið af Borgaraflokk Alberts Guðmundssonar og veikt stöðu Alþýðuflokksins til muna. Pólitísk saga landsins hefði þá væntanlega orðið önnur og Davíð komið síðar inn á vettvang landsmálanna. Það er endalaust hægt að spá í því hvað hefði gerst.

Datt svo í það að horfa á gömul skaup frá fyrri tíð. Rifjaði upp kynnin af skaupunum 1984, 1985, 1986 og 1989. Alveg stórfenglegt gamanefni, háklassískt. Sérstaklega er skaupið frá '86 alveg klassi - hægt að hlæja endalaust af húmornum vegna leiðtogafundarins fræga. Svo horfði ég á þátt sem er í hávegum hafður á mínu heimili en það er úrval hins allra besta úr skemmtiþættinum Á líðandi stundu sem var á dagskrá Sjónvarpsins fyrir tveim áratugum og var stýrður af Agnesi Braga, Sigmundi Erni og Ómari. Mikið er nú gott að vera ríkur af góðu klassaefni.

Eftir kvöldmatinn horfði ég á þátt Sigríðar Arnardóttur, Örlagadagurinn, á NFS. Að þessu sinni sagði Ragnar Stefánsson, jarðskjálftafræðingur, frá sínum örlagadegi í lífinu, þegar að hann lenti í bílslysi fyrir nokkrum árum þar sem samstarfsfélagi hans og vinur lést. Ragnar og kona hans hafa búið sér notalegt heimili nú í Svarfaðardalnum og skipt um lífsstíl. Þetta var virkilega áhugaverður viðtalsþáttur. Sirrý á auðvelt með að ná hinu góða úr viðmælendum sínum.

Sit hér seint á sunnudagskvöldi heima í stofunni við fartölvuna í Þórunnarstrætinu og horfi á beina útsendingu Sjónvarpsins frá tónleikum SigurRósar á Klambratúni í Reykjavík. Frábær útsending og mögnuð tónlist. Yndislegt að fá þetta beint heim í stofu á þessu sumarkvöldi.