Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

20 ágúst 2006

Er Hillary farin að horfa til ársins 2008?

Hillary Rodham Clinton

Um fátt er meira rætt í Bandaríkjunum þessa dagana en að Hillary Rodham Clinton, öldungadeildarþingmaður og fyrrum forsetafrú Bandaríkjanna, ætli í forsetaframboð á árinu 2008. Nýleg skoðanakönnun meðal demókrata gefur sterklega til kynna að gefi þessi miðaldra kona með lögheimili í borg háhýsanna, New York, formlega kost á sér sé útnefning flokksins næstum gulltryggð fyrir hana. Þó svo að enn séu rúm tvö ár til næstu forsetakosninga í Bandaríkjunum eru fréttamiðlar vestanhafs þegar farnir að spá í þeim kosningum. Ekki síst er þar talað um hverjir séu möguleg forsetaefni af hálfu repúblikana og demókrata. Enginn vafi leikur á að kapphlaupið innan beggja flokka séu nær galopin og allt geti þar svosem gerst. Við blasir þó að Hillary er talin svo sterk fyrirfram að fari hún fram fái hún útnefninguna nærri á silfurfati.

Næstu forsetakosningar verða reyndar mjög sögulegar, hvernig sem þær munu fara, enda er ljóst nú þegar að þær verða hinar fyrstu frá árinu 1952 þar sem hvorki forseti eða varaforseti Bandaríkjanna verða í kjöri. George Walker Bush forseti, situr sitt seinna kjörtímabil og má skv. lögum ekki bjóða sig fram aftur og mun því halda heim til Texas er hann lætur af embætti þann 20. janúar 2009. Dick Cheney varaforseti, hefur lýst því yfir að hann hafi engan áhuga á forsetaframboði og ætli að sinna sínum verkefnum út kjörtímabilið og njóta að því loknu lífsins með konu sinni og fjölskyldu, fjarri Washington, eins og hann hefur orðað það sjálfur. Innan Repúblikanaflokksins má segja að umræðan um frambjóðanda flokksins árið 2008 hafi vaknað um leið og fyrir lá að Bush hefði náð endurkjöri, og vald forsetans með því þegar tekið að þverra.

Völd og áhrif Bush forseta ráðast reyndar nú umfram allt á því hvernig þingkosningarnar fara í nóvember. Missi repúblikanar völdin í annarri eða báðum deildum Bandaríkjaþings mun hann verða nær vængstýfður heima fyrir það sem eftir lifir forsetaferilsins. Þó að repúblikanar haldi völdum má búast við að hann lendi í vandræðum, enda er það almennt svo með forseta sem er að ljúka seinna tímabilinu að þeir eru veikir, enda ljóst að hvorki þurfa þeir að fara aftur í kosningar né heldur þurfa þingmennirnir á forsetanum að halda og hópast að baki þeim sem fara fram í næsta forsetakjöri. Nákvæmlega þetta gerðist með Bill Clinton, sem reyndar hafði þingið á móti sér meginhluta síns forsetaferils. Bush forseti mun altént leggja allt í sölurnar að halda þinginu sín megin og koma í veg fyrir að Íraksstríðið skaði flokkinn.

Við blasir að margir séu farnir að undirbúa framboð innan Repúblikanaflokksins. Nægir þar að nefna George Pataki, ríkisstjóra New York, Rudolph Giuliani, fyrrum borgarstjóra í New York og öldungadeildarþingmennina Bill Frist og John McCain. Margir fleiri eru nefndir. Enginn skortur verður á repúblikönum í kosningaslaginn þegar að Bush og Cheney hætta. Búast má við að allsherjar uppstokkun verði á Repúblikanaflokknum í aðdraganda forsetakosninganna 2008. Eins og fyrr segir getur Bush ekki farið fram aftur og því líklegt að frambjóðandi með aðrar áherslur en forsetinn leiði flokkinn og í raun muni flokkurinn stokka sig og því verði í reynd ekki kosið um valdatíma forsetans. Það er reyndar greinilegt að repúblikanar reyna að fjarlægja sig forsetanum nokkuð en passa sig þó á að styggja hann ekki og nota því mikla reynslu hans.

Hillary Rodham Clinton og Bill Clinton

En aftur að Hillary og demókrötum. Það er ekkert hernaðarleyndarmál að Hillary Rodham Clinton harmaði ekki ósigur John Kerry í síðustu forsetakosningum. Aðeins eru fimm og hálft ár síðan hún flutti úr Hvíta húsinu, en hún hafði fylgt eiginmanni sínum, Bill Clinton 42. forseta Bandaríkjanna, í gegnum þykkt og þunnt á átta ára forsetaferli hans. Meðan að hneykslismálin geisuðu vegna Monicu Lewinsky sat hún á sér, vitandi það að færi hún frá forsetanum myndi það skaða hana ekki síður en hann. Hillary var kjörin öldungadeildarþingmaður í New York í kosningunum árið 2000 og var bæði forsetafrú og þingmaður í öldungadeildinni í 17 daga í ársbyrjun 2001. Það þótti mikil pólitísk dirfska fyrir hana að leggja í framboð árið 2000 og hún leggja mikið undir. En hún tefldi rétt og henni tókst að byggja upp eigin feril er ferli makans lauk.

Hillary Rodham Clinton er að flestra mati manneskjan á bakvið sigur eiginmanns síns í forsetakjörinu 1992 - hefur aukinheldur lengi verið útsjónarsamur stjórnmálaplottari með mikla yfirsýn yfir pólitískt landslag og stöðumat hinnar réttu strategíu. Hún hefur allt frá lokum forsetatíðar eiginmannsins markað sér sinn eigin stjórnmálaferil og gert það mjög vel. Hún hefur um nokkurn tíma haft verulegan áhuga á forsetaembættinu, en veit að það gæti orðið erfitt fyrir hana að leggja í slaginn, enda í húfi bæði pólitísk arfleifð eiginmanns hennar og hennar einnig. Framboð gæti reynst rétt en einnig verið alvarleg mistök fyrir þau bæði. Það hlýtur að kitla hana að verða fyrsta konan á forsetastóli í Bandaríkjunum og aukinheldur fyrsta forsetafrú landsins sem hlýtur embættið. Greinilegt er að maður hennar vill að hún fari fram og leggji í slaginn.

Skorað var á Hillary að gefa kost á sér þegar árið 2004. Þá fór hún ekki fram, vitandi að framboð þá hefði að öllum líkindum skaðað hana verulega. Hún lofaði enda New York-búum að vinna fyrir þá í sex ár samfellt í öldungadeildinni ef þeir treystu sér fyrir þingsæti hins vinsæla Daniel Patrick Moynihan á sínum tíma. Hún vann og það með yfirburðum, hún heillaði New York-búa þrátt fyrir að hafa haft lögheimili þar aðeins í innan við ár er hún náði kjöri. Ein skemmtilegasta pólitíska auglýsing seinni tíma var reyndar í kosningunum 2000 í NY, af hálfu Rick Lazio, keppinautar hennar. Þar var mynd af Hillary skælbrosandi og svo barni í vöggu. Fyrir neðan kom hinn kaldhæðnislegi texti: "This baby has lived longer in New York than Hillary Clinton". Alveg mergjuð auglýsing en kom þó engan veginn í veg fyrir öruggan sigur Hillary í NY.

Enginn vafi leikur á því að Hillary verður endurkjörinn öldungadeildarþingmaður í New York. Hennar bíður lítil keppni í kosningunum og hún hlýtur þegar að vera farin að hugsa handan janúarmánaðar þegar að næsta kjörtímabil öldungadeildarinnar hefst formlega. Reyndar má búast við því að bráðlega eftir svokallaðar MidTerm election í nóvember hefjist keppnin um Hvíta húsið. Það er ekki svo rosalega langt til forsetakosninga og venjulega hefst undirbúningur og keppni bakvið tjöldin þegar að þingdeildirnar koma saman í janúar eftir miðtímabilskosningarnar. Það er alveg ljóst að ljón gætu orðið á veginum fyrir Hillary. Hún á sér andstæðinga bæði innan flokks og utan og víst er að mörgum stendur stuggur af því í flokkskjarnanum muni Clinton-hjónin aftur taka yfir flokkinn, rétt eins og í forsetatíð Bill Clinton.

Hillary Rodham Clinton

Þegar litið er til mögulegra andstæðinga Hillary, fari hún fram, er oftast litið á þá sem eru augljósastir í stöðunni, þeirra sem hafa reynslu af því harki sem fylgir forsetaframboði í Bandaríkjunum. Þær raddir verða sífellt háværari að Al Gore, fyrrum varaforseti, sem beið ósigur fyrir George W. Bush í hinum æsispennandi og jafnframt sögulegu forsetakosningum árið 2000, sé að íhuga framboð. Svo má auðvitað ekki gleyma John Edwards, sem var varaforsetaefni Kerrys í kosningabaráttunni á síðasta ári. Enn heyrast kjaftasögur um að John Kerry hefði jafnvel áhuga á framboði aftur, en víst má telja að margir telji ólíklegt að Kerry takist að vinna árið 2008 fyrst honum mistókst það árið 2004 þó að hann reyndi að hamra á Íraksstríðinu og stöðu mála þar. Þeir einir gætu veitt Hillary einhverja keppni um hnossið mikla. Aðrir verða varla bógar í það.

Það vita reyndar allir sem þekkja pólitíska loftið vestanhafs að stjörnur Demókrataflokksins eru Clinton-hjónin. Á flokksþinginu í júlí 2004, þar sem Kerry var útnefndur til verka sem frambjóðandi flokksins gegn Bush í heimaborginni Boston, voru þau aðalleikarar - stálu sviðsljósinu með stæl. Kannanir sýna enda að hún gæti neglt útnefninguna nokkuð auðveldlega leggi hún í slaginn. En það eru áhættur á veginum, sérstaklega fyrir fyrrum forseta Bandaríkjanna, sem gæti skaðast tapi Hillary fyrir repúblikana. Þó er enginn vafi að framboð kitlar Hillary. Hún hefur allavega stjörnuljómann sem tveim fyrri frambjóðendum flokksins hefur skort svo áþreifanlega.

Og stjörnuljóminn einn gæti alveg borið þessa miðaldra konu í borg háhýsanna alla leið í Pennsylvaniu-götu í Washington eftir nokkur ár - hver veit annars. Ljóst er allavega að æsispennandi tímar eru framundan í bandarískri pólitík.