Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

05 september 2006

Halldór segir af sér þingmennsku

Halldór Ásgrímsson

Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, sagði af sér þingmennsku í dag. Það eru mikil þáttaskil sem fylgja því að þingmannsferli Halldórs Ásgrímssonar sé nú lokið. Hann var starfsaldursforseti Alþingis nú við lok stjórnmálaferils síns. Hann var fyrst kjörinn á Alþingi sumarið 1974 í hinum umdeildu og sögulegu alþingiskosningum, sem boðað var til eftir að Ólafur Jóhannesson rauf þing með eftirminnilegum hætti með atbeina dr. Kristjáns Eldjárns, forseta, við fall vinstristjórnarinnar. Halldór var þá í þriðja sæti Framsóknarflokksins í Austurlandskjördæmi og aðeins 27 ára að aldri. Halldór var þó ekki ókunnur stjórnmálum, enda sonarsonur Halldórs Ásgrímssonar sem lengi var þingmaður Austfirðinga, og unnið fyrir flokkinn í öllum kosningum frá árinu 1956, eins og hann sagði sjálfur frá í kveðjuræðu sinni á flokksþingi í síðasta mánuði.

Halldór var áfram í þriðja sæti flokksins í Austurlandskjördæmi árið 1978, á eftir þeim félögum Vilhjálmi Hjálmarssyni, þáv. menntamálaráðherra, og Tómasi Árnasyni, síðar viðskiptaráðherra. Framsóknarflokkurinn tapaði verulegu fylgi í alþingiskosningunum 1978 og missti heil fimm þingsæti eins og samstarfsflokkur sinn í ríkisstjórn, Sjálfstæðisflokkurinn. Halldór missti þingsæti sitt í kosningunum enda hlaut flokkurinn aðeins tvo menn kjörna í Austurlandskjördæmi. Í kjölfar kosninganna var mynduð vinstristjórn undir forsæti Ólafs Jóhannessonar, þó að flokkur hans hefði beðið afhroð í kosningunum. Leiddi hann stjórn með sigurvegurum kosninganna, A-flokkunum, sem hvor um sig hlutu 14 þingsæti og tæpan hreinan meirihluta. Þetta voru sögulegir tímar í íslenskum stjórnmálum.

Halldór var þó ekki lengi utan þings. Svo fór að vinstristjórnin gafst upp eftir stormasama samvist í októberbyrjun 1979. Alþýðuflokkurinn sprengdi stjórn Ólafs með miklum hvelli og gekk á dyr. Það rúma ár sem hún sat hafði hún gengið í gegnum mikinn og erfiðan öldugang. Í kjölfar þessa var boðað til þingkosninga í desemberbyrjun 1979, með mjög skömmum fyrirvara. Halldór fór fram að nýju í Austurlandskjördæmi. Vilhjálmur Hjálmarsson ákvað að hætta þátttöku í stjórnmálum eftir sinn litríka feril, að mörgu leyti nokkuð óvænt. Almennt hefur verið álitið sem svo að Vilhjálmur hafi verið að hliðra til fyrir Halldóri Ásgrímssyni og tryggja að hann næði kjöri í kosningunum. Tómas leiddi listann og Halldór varð í öðru sæti. Halldór náði kjöri í þeim kosningum, enda bætti Framsókn nokkru fylgi við sig fyrir austan.

Halldór Ásgrímsson

Halldór Ásgrímsson var kjörinn varaformaður Framsóknarflokksins árið 1980, þá aðeins 33 ára að aldri. Með því var staða hans innan flokksins mörkuð og eftir það mátti segja að hann væri krónprins flokksins. Halldór sótti eftir það fast að leiða Framsóknarflokkinn í sínu kjördæmi sem varaformaður flokksins. Svo fór að Tómas Árnason gaf ekki eftir leiðtogastöðuna og fór Halldór fram gegn honum. Var prófkjörsbarátta millum þeirra hörð og svo fór að Halldór sigraði Tómas í prófkjörinu eystra síðla árs 1982. Tómas tók þó annað sætið en var ósáttur við sinn hlut, enda þá ráðherra. Að þingkosningunum 1983 loknum var mynduð ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undir forsæti Steingríms Hermannssonar. Halldór varð sjávarútvegsráðherra, en Tómas missti sinn stól og varð svo seðlabankastjóri árið 1984.

Halldór var 36 ára er hann varð sjávarútvegsráðherra. Í ráðherratíð hans var kvótakerfinu komið á með sögulegum hætti og ýmis önnur merkileg verkefni komu til sögunnar. Hann var auk þessa dóms- og kirkjumálaráðherra 1988-1989 í öðru ráðuneyti Steingríms Hermannssonar. Halldór sat á sjávarútvegsráðherrastóli allt til ársins 1991. Að þeim kosningum loknum mynduðu Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur ríkisstjórn undir forsæti Davíðs Oddssonar. Framsóknarflokkurinn var utan stjórnar eftir tveggja áratuga nær samfellda setu í ríkisstjórn, ef undan eru skildir fimm mánuðir minnihlutastjórnar Alþýðuflokksins undir forsæti Benedikts Gröndal 1979-1980. Halldór tók mjög að ókyrrast eftir að Steingrímur missti forsætið og taldi sinn tíma kominn. Átök innan flokksins um EES leiddu til fallandi gengis Steingríms.

Steingrímur Hermannsson varð seðlabankastjóri í apríllok 1994 og sagði af sér formennsku flokksins eftir 15 ára setu. Samhliða því varð Halldór formaður Framsóknarflokksins. Halldór tók við forystu stjórnarandstöðunnar og vann af krafti í aðdraganda alþingiskosninganna 1995 að byggja upp flokkinn og fór um landið og vann af miklum krafti. Framsóknarflokkurinn hlaut nokkuð góða kosningu, miðað við sögulegar aðstæður árin á undan, í kosningunum 1995. Hann hlaut 15 alþingismenn kjörna í stað 13 þingmanna árin 1987 og 1991. Í kjölfar kosninganna hófust stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, sem sátu í stjórn, en stjórnin hélt velli. Svo fór að upp úr þeim viðræðum slitnaði og hófu Davíð og Halldór viðræður sem luku með stjórnarmyndun flokkanna.

Halldór Ásgrímsson

Til fjölda ára var það álit flestra að aðeins hefði reynt á þessi tvö stjórnarmynstur vorið 1995, áframhaldandi stjórn eða þá sem tók við. Í kveðjuræðu sinni á flokksþingi Framsóknarflokksins nú í ágúst kom það hinsvegar fram í máli Halldórs að strax eftir kosningar hefði hann leitast eftir viðræðum um vinstristjórn undir sinni forystu. Svo fór að Alþýðuflokkurinn vildi frekar samstarf með Sjálfstæðisflokki og því varð ekki meira úr þeim viðræðum, en þó var rætt saman um þann kost. Fram að þessu hafði verið talið að Halldór hefði ekki viljað þann kost vegna ólgunnar sem kom upp á milli Framsóknar og Alþýðubandalags eftir að Ólafur Ragnar Grímsson hafði frumkvæði rétt fyrir kosningar um að kortleggja grunn að stjórnarsáttmála flokkanna. Halldór reiddist því mjög og hafnaði honum með þjósti.

Í fyrrnefndri kveðjuræðu sinni sagðist Halldór telja merkasta verk sitt í stjórnmálum það að hafa stuðlað að stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks árið 1995. Það samstarf er enda enn við völd og hefur unnið af krafti í þrjú kjörtímabil. Halldór var utanríkisráðherra í samstarfinu árin 1995-2004 og sat því lengur á utanríkisráðherrastóli en nokkur annar íslenskur stjórnmálamaður. Að loknum alþingiskosningunum 2003 sömdu flokkarnir um að Halldór tæki við forsæti ríkisstjórnarinnar af Davíð Oddssyni þann 15. september 2004 og fór það svo. Halldór sat á forsætisráðherrastóli í heilan 21 mánuð og lét af embætti 15. júní sl. eftir að hafa boðað endalok stjórnmálaferils síns á eftirminnilegum blaðamannafundi við embættisbústað forsætisráðuneytisins á Þingvöllum 10 dögum áður.

Hvaða skoðun svo sem íslenskir stjórnmálaáhugamenn hafa á persónu og stjórnmálastörfum Halldórs Ásgrímssonar verður ekki deilt um það að hann markaði spor í íslenska stjórnmálasögu. Hann var lengi virkur þátttakandi í stjórnmálum og helgaði þessum bransa ævistarf sitt. Það var merkilegt framlag sem hann lagði að mörkum og persónulega met ég mjög mikils persónu Halldórs Ásgrímssonar. Hann á að mínu mati heiður skilið fyrir gott verk sitt, sérstaklega á ellefu árum sínum sem ráðherra og leiðtogi Framsóknarflokksins í ríkisstjórn hans með Sjálfstæðisflokki. Það eru nokkur þáttaskil þegar að hann afsalar sér þingmennsku og hverfur úr virkri stjórnmálaforystu. Það er skemmtilega kaldhæðnislegt að sæti Halldórs erfist til ungrar forystukonu flokksins, Sæunnar Stefánsdóttur, sem er aðeins 27 ára gömul.

Halldór Ásgrímsson og Sólveig Pétursdóttir

Allra augu hljóta nú að beinast að því hvað taki við hjá Halldóri Ásgrímssyni, sem stendur á krossgötum rétt eins og flokkurinn sem hann hefur staðið í fylkingarbrjósti fyrir í heilan aldarfjórðung.