Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

01 september 2006

Samfylking og VG standa á pari

Flokkarnir

Nú kl. 18:00 var birt ný skoðanakönnun Gallups á fylgi flokkanna í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins. Hún sýnir að bilið minnkar enn á milli vinstriflokkanna í íslenskum stjórnmálum, Samfylkingarinnar og VG. Segja má að nú standi þessir tveir flokkar algjörlega á pari - eitthvað sem hefði þótt órafjarri í síðustu þingkosningum. Það munar innan við þrem prósentustigum á þeim. Þetta hlýtur að teljast mjög merkileg þróun og það eru mjög athyglisverð tíðindi sem sjást í þessari könnun og t.d. hefur Sjálfstæðisflokkurinn tæplega 20% meira fylgi en Samfylkingin í könnunum Gallups þriðja mánuðinn í röð. Framsóknarflokkurinn missir eitt prósentustig þrátt fyrir að hafa haldið flokksþing í síðasta mánuði.

Það er spurning hvað fer í gegnum hugarflug þeirra sem börðust fyrir því að Ingibjörg Sólrún yrði leiðtogi Samfylkingarinnar þegar að þeir sjá þessa Gallup-könnun. Það hlýtur að jafnast á við martröð fyrir þá að vakna upp við svona fylgistap undir forystu Ingibjargar Sólrúnar og að vera nú á pari við kommana í VG. Það var ekki draumsýn þeirra sem studdu Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur til forystu í Samfylkingunni fyrir rúmu ári. Það er reyndar spurningin hvort enn muni halda áfram að minnka munurinn eða hvort VG hreinlega muni toppa Samfylkinguna.

Það fer kannski eitthvað að hitna á æðstu valdastöðum í þessum flokki sem fyrrum hafði það markmið að vera mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn - en mælist nú með fjórðungsfylgi í könnunum, enn einu sinni og hnikast ekkert upp á við þrátt fyrir áralanga stjórnarnandstöðu.