Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

06 september 2006

Tony Blair að missa tökin á stöðunni

Tony Blair

Tony Blair hefur nú verið forsætisráðherra Bretlands í 112 mánuði, allt frá föstudeginum 2. maí 1997. Þá kom hann til valda í Downingstræti 10 á bylgju stuðnings og velvildar meginþorra breskra kjósenda. Þó að margir Bretar hefðu ekki stutt hann til valda fannst þeim hann vera táknmynd nýrra tíma, heiðarleika og trausts. Nú þegar að vel er komið á tíunda ár valdaferilsins virðist vera að styttast í endalokin. Tony Blair er nú táknmynd óvinsælda í hugum Breta og hann er farinn að missa stuðning innan valdakjarna síns í breska Verkamannaflokknum. Undanfarna daga hefur ólgan innan flokksins aukist til mikilla muna. Ólgan hefur nú farið það langt að fjöldi þingmanna hefur sent honum opið bréf til að þrýsta á afsögn hans og nokkrir undirráðherrar hafa sagt af sér til að sýna í verki að hann hafi ekki lengur stuðning þeirra.

Það sem er að gerast núna er farið að minna illilega á endalok stjórnmálaferils járnfrúarinnar Margaret Thatcher. Eftir ellefu og hálft ár við völd árið 1990 hrundi valdakerfi hennar og hún missti stuðning flokkskjarnans til að halda áfram og fara í fjórðu þingkosningarnar með Íhaldsflokkinn. Þá horfðu Bretar á hana missa fótana á aðeins þrem vikum. Það sem Tony Blair berst nú við minnir mjög á sama ástand og þá skapaðist. Blair hefur nú þegar orðið að gefa frá sér allar fyrri yfirlýsingar um að tímasetja ekki brotthvarf sitt úr stjórnmálum. Það varð hann að gera vegna þrýstings allt í kringum sig þegar að við blasti að allt að 80 þingmenn flokksins vildu setja af stað ferli við leiðtogakjör flokksins, en 71 þingmaður flokksins gefur krafist leiðtogakjörs. Það vildi Blair ekki hætta á og gaf út í gegnum dagblaðið The Sun að hann færi innan árs.

Ekki virðist hafa róast mikið yfir við það. Greinilegt er í stöðunni að Tony Blair vill úr þessu fyrst og fremst ná að sitja við völd í Downingstræti þann 2. maí nk. þegar að Verkamannaflokkurinn hefur ríkt samfellt í áratug. Tilkynnt var í The Sun að Blair hefði í hyggju að biðjast lausnar sem leiðtogi Verkamannaflokksins þann 31. maí og hefði í hyggju að hætta sem forsætisráðherra þann 26. júlí 2007. Þá hefði hann ríkt í 10 ár og 10 vikur samfellt. Þessu var komið fram með viljandi hætti og sumir nánustu ráðherrar Blairs tjáðu sig í sjónvarpi með þeim hætti að hann yrði farinn innan árs og yrði ekki við völd á flokksþingi Verkamannaflokksins í september 2007. Þessar yfirlýsingar virðast ekki nægja Gordon Brown, fjármálaráðherra, og stuðningsmönnum hans. Þeir vilja að Blair lýsi þessu opinberlega yfir sjálfur.

Tony Blair

Blair hefur forðast það eins og heitan eldinn að gefa yfirlýsingar í eigin persónu um dagsetningu eða beina staðsetningu þess hvenær hann ætli sér að hætta, af ótta við að það yrði notað gegn sér til að hrekja hann út sem fyrst. Greinilegt er að Blair og Brown talast vart orðið við og átök þeirra á milli hafa náð enn einum hápunktinum. Brown hefur verið til hliðar til fjölda ára og beðið síns færis á að taka við völdum. Það er greinilegt á tali og verkum Blairs og stuðningsmanna hans að hann er að reyna að kaupa sér tíma til að leggja í Brown. Það er ekki sýnilegur vilji Blairs að Brown taki við völdum og hann hefur til þessa frekar viljað byggja upp Alan Johnson, menntamálaráðherra, eða John Reid, innanríkisráðherra, til þess verks. Það hefur sést á tali nánustu manna Blairs að þeir vilja sem minnst gera úr Brown nú.

Þetta skynja Brown og hans menn og sjá að það er ekki til setunnar boðið og vilja að Blair negli sig niður á dag hið fyrsta til að útkljá málið og í raun fastsetja hann sem fráfarandi leiðtoga sem allra fyrst, þessu eigi hann að lýsa opinberlega yfir en ekki með hálfkáki í The Sun. Hann veit að geri hann það er öllu lokið. Þá eru veiðileyfin fyrst orðin ódýr í kringum hann. En Brown vill einmitt fá botn í þetta tal og fá skýra dagsetningu. Mikið hefur verið pískrað um það að ástæðan fyrir því að Gordon Brown sóttist ekki eftir leiðtogastöðu flokksins við snögglegt andlát John Smith árið 1994 hafi verið sú að þeir Blair hafi gert með sér samning um að skipta völdum. Blair hafi í raun átt að ríkja í áratug og hætta fyrir þingkosningarnar 2005. Blair stóð ekki við þann samning en hefur haldið áfram og haldið Brown volgum.

Það er að opinberast sífellt betur það sem í raun flestir vildu að Brown hefur með rólegheitum tryggt Blair nokkuð gott veður við flokksforystuna lengur en hann hefur í raun viljað. Nú er það greinilega mat þessa arms að mál sé að linni og tímabært að Brown fái að taka við. Það hleypti urg í þennan arm þegar að lykilmenn Blairs allt að því gerðu lítið úr honum og orðrómurinn að Blair sé að bíða til að slá á framavonir Browns, sem verið hefur eftirmaður hans á yfirborðinu í raun alveg síðan að hann varð fjármálaráðherra árið 1997, gerðu hann æfan. Það varð svo endanlega til að gera allt vitlaust þegar að kostulegt minnisblað spunameistara forsætisráðherrans lak út en það þótti í senn úr takti við allan raunveruleikann og ofmeta alla stöðu forsætisráðherrans. Minnisblaðið sýndi að spunamenn Blairs væru ekki í neinu sambandi við raunveruleikann.

Tony Blair

Mitt í átökunum innan Verkamannaflokksins birtist ný skoðanakönnun sem sýnir Verkamannaflokkinn enn og aftur á fallanda fæti með lægsta fylgi sitt í könnunum í fjórtán ár, frá árinu 1992, árið sem John Smith varð leiðtogi flokksins eftir tapið í kosningunum það ár sem leiddi til falls Neil Kinnock. Á sama tíma er svo David Cameron með meira fylgi er spurt er hver eigi að verða forsætisráðherra en Tony Blair og Gordon Brown. Það má búast við að taktar Blairs séu settir fram nú til að reyna að slá á erfiða stöðu hans og reyna líka að róa andstæðingana innan flokksins en ekki bundið enda á óróleikann. Það er öllum ljóst að Blair er að missa tökin á flokknum og stöðu mála og ekki vitað hvort honum mun takast að yfirgefa bresk stjórnmál með sóma eftir langan valdaferil.

Það er greinilegt að flokkurinn logar í óeiningu og samstaðan þar innanborðs á hverfanda hveli. Það er svo spurningin hvort að hlustað verði á ákall Tony Blair til flokksfélaga um að horfa til verkefnanna framundan en ekki valdabaráttu um áhrif og forystusæti flokksins síðar meir, eftir að hann hefur reynt að gefa út tímaplan uppstokkunar. Það ræðst fljótlega hvort hann hefur stjórn á flokki sínum eður ei. Fipist honum sú stjórn meir en nú er orðið má búast við miklum pólitískum tíðindum í Bretlandi þegar í haust.


Ég fjallaði nánar um endalok stjórnmálaferils Margaret Thatcher í ítarlegum pistli um hana í október 2005, þegar að hún varð áttræð. Allir sem kynna sér atburðarás endaloka valdaferils hennar sjá sömu merki þess sem er að gerast í Downingstræti einmitt núna. Það eru merki þess að stjórnmálamenn ofmetnast af valdi sínu og telja sig geta setið endalaust við völd.