Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

08 nóvember 2002

Glæsileg heimasíða Sigurðar Kára
Í dag opnaði Sigurður Kári Kristjánsson lögfræðingur og fyrrv. formaður SUS, heimasíðu sína. Í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík eftir hálfan mánuð gefst flokksmönnum hið gullna tækifæri að tryggja ungu fólki öruggt sæti á þingi. Í framboði er Sigurður Kári. Það er afdráttarlaus skoðun mín að hann sé traustsins verður. Í honum sameinast allir höfuðkostir sem manni getur hlotnast. Hann er allt í senn trúr sannfæringu sinni, fágaður, hress og heiðarlegur. Ég treysti honum til góðra verka og vona að flokksfélagar mínir í borginni tryggi kjör hans. Hann er hiklaust rétti maðurinn. Vona að honum gangi vel í þessum slag. Þetta er engin spurning - Sigga Kára í sjöunda sætið!

Gagnleg ráðstefna um sjávarútvegsmál
Ég fór í dag á ráðstefnuna Ný mið, þar sem fjallað var um sóknarfæri sjávarútvegsins. Að ráðstefnunni stóðu Stafnbúi, félag auðlindadeildarnema við Háskólann á Akureyri og Hinu Íslenska Sjávarútvegsfræðafélagi. Með ráðstefnunni var ætlað að varpa ljósi á ný tækifæri sjávarútvegsins til sóknar, ný mið sjávarútvegsins í framtíðinni. Óhætt er að segja að um gagnlega ráðstefnu hafi verið að ræða. Þar voru fluttar athyglisverðar ræður um framtíð íslensks sjávarútvegs frá mörgum sjónarhornum. Meðal þeirra sem fluttu ræður á ráðstefnunni voru Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra, og Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra. Ég persónulega fræddist mjög um framtíð þessa mikilvæga málaflokks og hafði gagn og gaman af þessari ráðstefnu og færi þeim sem að henni stóðu bestu þakkir fyrir gott framtak.

Björn opnar kosningaskrifstofu
Á morgun opnar Björn Bjarnason alþingismaður og leiðtogi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, kosningaskrifstofu sína og hefur kosningabaráttu sína fyrir prófkjörið síðar í mánuðinum. Í komandi prófkjörsslag stefnir Björn á þriðja sætið, rétt eins og hann hefur gert í tveim fyrri prófkjörum 1990 og 1994. Ég þekki Björn vel og veit að hann er vinnusamur, heiðarlegur og traustur maður í hvívetna. Á þeim sjö árum sem hann sat á stóli menntamálaráðherra varð ljóst að hann vann hörðum höndum fyrir því að bæta mennta- og menningarkerfið. Það er nóg að líta á heimasíðu Björns til að sjá styrk hans sem stjórnmálamanns. Þar fer maður sem hefur mikinn áhuga á málefnum samtímans, tjáir sig opinskátt og er trúr sannfæringu sinni. Þannig þurfa stjórnmálamenn að vera. Björn er svo sannarlega réttur maður í þriðja sætið. Hann hefur stuðning minn til góðra verka.