Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

29 nóvember 2002

Framboðslistar kynntir - baráttan að hefjast
Á morgun verða framboðslistar Sjálfstæðisflokksins í þrem kjördæmum af sex fyrir komandi þingkosningar, lagðir fram á kjördæmisþingum. Það er í Suðvesturkjördæmi, Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi. Með því hefst formlega kosningabarátta flokksins, þar sem markmiðið er að tryggja að flokkurinn verði áfram í forystu í landsmálunum og verði leiðandi pólitískt afl í öllum kjördæmunum sex. Það er mjög mikilvægt að flokkurinn gangi sem allra fyrst frá öllum lausum endum í framboðsmálum og geti einhent sér í mikilvægasta verkefnið, sigur í kosningunum í maímánuði. Eflaust er ekki langt í að báðir listarnir í Reykjavík liggi fyrir og líklegt að listinn í Norðvesturkjördæmi, liggi fyrir fljótlega eftir að miðstjórn hefur farið yfir mál í kjölfar prófkjörsins þar. Þetta ætti því allt að vera komið á fullt eftir hátíðirnar.

Loksins, loksins - mánudagsútgáfa Morgunblaðsins
Á næsta ári verður Morgunblaðið 90 ára gamalt. Það hefur löngum verið íhaldsamt, bæði þegar kemur að útgáfumálum og útliti sem lítið hefur breyst í áranna rás. Fyrir nokkrum vikum varð sú róttæka breyting á blaðinu að forsíða þess varð blönduð af erlendum og innlendum fréttum. Í rúm 30 voru einungis erlendar fréttir á forsíðunni og tímabært að stokka þetta upp og breyta til og lífga upp á forsíðuna. Nú, á afmælisári kemur þörf breyting í útgáfumálum blaðsins, síðasta vígið er fallið. Frá og með 6. janúar 2003 mun blaðið koma út alla daga, mánudagsútgáfa mun þá formlega hefjast. Þetta er stórt og þarft skref sem þarna er stigið. Ég tel það vera mikilvægt að flaggskip íslenskra prentmiðla komi út alla daga vikunnar og fagna því þessu mjög. Morgunblaðið er í mínum huga frábært blað og þarfur vettvangur sem ég vildi ekki vera án. Með þessari ákvörðun mun blaðið styrkjast enn meira en nú er. Ég tel að svo verði.

Skemmtileg helgi framundan
Eins og ég sagði frá á dögunum styttist óðum til jóla og því tími jólahlaðborðanna hafinn. Ég ætla að skella mér í kvöld í góðra vina hópi á jólahlaðborð og njóta góðra veitinga. Á morgun verður kjördæmisþing Sjálfstæðisflokksins á Fosshótel KEA og seinnipartinn á morgun ætla ég að skella mér í bíó og líta á nýjustu Bond-myndina ásamt félögum mínum og annaðkvöld er planið að vinahópurinn hittist. Það ætti því að vera skemmtileg helgi framundan og djammað allhressilega.