Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

29 október 2002

Athyglisverð umræða um sjávarútvegsráðherra
Í gær var Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra, dæmdur í héraðsdómi fyrir meiðyrði. Var ekki langt liðið frá dómsuppkvaðningu þegar vissir aðilar voru farnir að krefjast afsagnar hans á Innherjavef visir.is. Því fer víðsfjarri að ráðherrann verði að víkja sem ráðherra eða þingmaður vegna þessa dóms. Þetta hefur engin áhrif á kjörgengi hans við komandi kosningar eða ráðherrastörf hans. Það er ekkert í lögum sem segir að hann verði að víkja nema meirihluti þingmanna á Alþingi Íslendinga samþykki að rifta þinghelgi hans eða þá að ráðherrann verði dæmdur í varðhald, fjóra mánuði eða meira. Árið 1976 var Ólafur Jóhannesson þáv. dómsmálaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, dæmdur fyrir meiðyrði í héraðsdómi. Hann sat áfram á þingi og greiddi sekt og ákvað að áfrýja ekki. Hann var forsætisráðherra 1978-1979 og utanríkisráðherra í ríkisstjórn dr. Gunnars Thoroddsens, 1980-1983. Því er ljóst að sjávarútvegsráðherrann þarf ekki að víkja nema til komi fangelsisdómur eða riftun þinghelgi hans.

Félagsvísinda- og lagadeild við Háskólann á Akureyri
Merk tímamót urðu í 15 ára sögu Háskólans á Akureyri í gær. Þá samþykkti háskólaráð skólans á 200. fundi sínum, stofnun nýrrar deildar, félagsvísinda- og lagadeildar, við háskólann. Nám í deildinni mun hefjast haustið 2003. Sérstakir heiðursgestir á fundinum voru Tómas Ingi Olrich, menntamálaráðherra, Páll Skúlason, rektor Háskóla Íslands, Eiríkur Tómasson, deildarforseti lagadeildar HÍ og Ólafur Þ. Harðarson, deildarforseti félagsvísindadeildar HÍ. Í ávarpi sem menntamálaráðherra flutti í tilefni dagsins kom fram að hann teldi æskilegt að Félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Akureyri legði áherslu á að draga fram sérstöðu Íslands í námsframboði sínu og jafnframt mynda öflug tengsl við atvinnulífið. Undir þetta tóku rektor HÍ sem og deildarforsetar lagadeildar og félagsvísindadeildar HÍ. Gert er ráð fyrir þessu í tillögum frá undirbúningshópum þar sem lagt er til að sérstök áhersla verði lögð á samfélagslegt notagildi námsins án þess þó að slegið sé af akademískum kröfum. Þessum áfanga ber að fagna, enda Háskólinn stór partur af bæjarlífinu og mjög mikilvægur. Vegi hann vaxa og dafna á komandi árum.

Spennandi kosningar - athyglisverð grein
Fyrir rúmum mánuði hóf ég að skrifa greinar á vefrit Heimdallar. Skrifa þar tvær greinar á mánuði og hafa þar birst þrjár greinar eftir mig til þessa, í vikunni er von á þeirri fjórðu. Þann 5. nóvember ganga Bandaríkjamenn að kjörborðinu og kjósa sér nýja fulltrúadeild og kjósa um þriðjung af öldungardeildinni. Einnig verður kosið um 36 ríkisstjóraembætti að ótöldum öðrum embættum innan fylkjanna. Í ítarlegri og einkar fróðlegri grein á frelsi.is veltir Hrefna Ástmarsdóttir fyrir sér komandi kosningum vestanhafs og spáir t.d. í stöðu George W. Bush forseta Bandaríkjanna, nú þegar kjörtímabil hans er um það bil hálfnað og hvort hann muni áfram þurfa að búa við meirihluta Demókrata í öldungadeildinni eða hvort Repúblikanar nái þar völdum á ný. Hvet alla áhugamenn um stjórnmál til að lesa þessa grein Hrefnu.