Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

05 nóvember 2002

Spennandi kosninganótt í Bandaríkjunum
Framundan er spennandi kosninganótt í Bandaríkjunum og æsispennandi uppgjör milli Repúblikana og Demókrata um það hvor flokkurinn muni ná völdum í fulltrúadeild og öldungadeild Bandaríkjaþings. Má búast við að talningin verði athyglisverð og að litlu gæti munað á fylkingunum. Á fréttavef CNN er að finna nýjustu fréttir af stöðu mála. Þar er ítarleg umfjöllun um kosningaúrslitin og spáð í spilin eftir því sem líður á talninguna. Hvet alla áhugamenn um stjórnmál til að fylgjast með kosningaúrslitunum og umfjöllun um þau.

Framboðshiti hjá Samfylkingunni
Eins og ég hef margoft sagt eru framundan spennandi prófkjör um helgina, fjögur hjá Samfylkingunni og eitt hjá Sjálfstæðisflokknum. Mikill hiti virðist vera í prófkjörsmálum Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmunum og í Suðurkjördæmi. Í síðarnefnda kjördæminu berjast Margrét Frímannsdóttir og Lúðvík Bergvinsson um forystuna. Nú hefur Margrét lýst því yfir að hún sækist einungis eftir forystusætinu og muni ekki vera á listanum ef hún tapar fyrir Lúðvík. Verður athyglisvert að fylgjast með prófkjörinu þar. Í borginni er hinsvegar mikið rætt innan flokksins um smölun fólks í flokkinn á óheiðarlegum forsendum og hefur Jakob Frímann Magnússon verið mikið nefndur í því samhengi. Hörð barátta er í borginni um forystusætin. Össur Skarphéðinsson, Jóhanna Sigurðardóttir og Bryndís Hlöðversdóttir stefna þar öll á forystusætin og ljóst eitt þeirra mun lúta í gras. Búast má við ennfremur að prófkjör flokksins í Suðvesturkjördæmi og prófkjör sjálfstæðismanna í Norðvesturkjördæminu muni setja sterkan svip á fréttir helgarinnar. Vænta má pólitískra stórtíðinda, enda enginn öruggur í þessum æsispennandi prófkjörum.

Edduverðlaunin 2002 - takið þátt í kjörinu
Edduverðlaunin, íslensku kvikmynda- og sjónvarpsverðlaunin verða afhent á sunnudag. Á heimasíðu Morgunblaðins er hægt að kjósa og líta yfir lista yfir þá sem tilnefndir eru til verðlaunanna. Ég hvet alla til að taka þátt í þessu kjöri og fylgjast með verðlaununum um helgina.

Húmorsleysi í Þjóðmenningarhúsinu
Undanfarna daga hefur mikið verið rætt um að aðstandendum Áramótaskaupsins hafi verið bannað að kvikmynda í Þjóðmenningarhúsinu atriði sem tengjast hneykslismálum fyrrverandi forstöðumanns hússins sem komust í hámæli í byrjun ársins. Mér finnast þessi viðbrögð stjórnenda hússins undarleg og tel furðulegt að ekki megi mynda þar þessi sárasaklausu atriði fyrir Skaupið. Oftast nær hefur verið leyft að kvikmynda á vettvangi vissra atburða og gott dæmi er að myndað var við heimili Árna Johnsen í Vestmannaeyjum í seinasta skaupi og oft hefur verið myndað við alþingishúsið. Fleiri dæmi mætti nefna. Áramótaskaupið er vettvangur spéspegils líðandi árs og óskiljanlegt að ekki megi mynda nokkur sárasaklaus atriði á þeim stöðum sem um er beðið. Áramótaskaupið er ekki ætlað sem árás á einn né neinn, heldur er þar farið yfir atburði liðins árs. Óskandi er að stjórnendur Þjóðmenningarhússins endurskoði þessa ákvörðun sína og leyfi myndatökur á þessu saklausa efni sem um ræðir.