Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

06 nóvember 2002

Kosningasigur repúblikana - demókratar valdalausir
Úrslitin liggja fyrir í bandarísku þingkosningunum. Fyrir liggur að Repúblikanaflokkurinn hefur unnið verulegan kosningasigur og tryggt sér völdin í bæði fulltrúadeild og öldungadeild Bandaríkjaþings. Þessi úrslit er mikill persónulegur sigur fyrir George W. Bush forseta Bandaríkjanna, sem lagði allt í sölurnar fyrir kosningasigur og heimsótti á fimm dögum 15 fylki landsins og 17 borgir. Hann uppskar árangur erfiðisins svo um munaði. Nú hefur Bush forseti hlotið skýrt umboð til að koma sínum málum í framkvæmd og hefur til þess þingmeirihluta í báðum deildum að framfylgja stefnu sinni. Sigur Jeb Bush, bróður forsetans, í Flórída var einnig mikill persónulegur sigur fyrir hann en sigur forsetans í Flórída í kosningunum 2000 var umdeildur. Nú hefur forsetinn styrkt stöðu sína verulega og hefur undirbúning að kosningabaráttunni 2004 þar sem hann hyggst tryggja endurkjör sitt. Eftir stendur Demókrataflokkurinn lamaður og valdalaus gegn öflugum forseta með meirihluta beggja þingdeilda að baki sér. Framundan eru spennandi 24 mánuðir í bandarískri pólitík. En eftir stendur Bush með pálmann í höndunum. Ítarleg umfjöllun um úrslitin er á fréttavef CNN

Stjórnmálanámskeið
Sjálfstæðisfélögin á Akureyri hafa ákveðið að efna til stjórnmálanámskeiðs laugardagana 16. og 23. nóvember nk. í Kaupangi, höfuðstöðvum flokksins við Mýrarveg. Þetta er þarft verk hjá sjálfstæðisfélögunum í bænum og mikilvægt að fólk fjölmenni og taki þátt í skemmtilegu flokksstarfi. Allavega er alveg ljóst að ég mun taka þátt og hafa af því gagn og gaman. Birti hér dagskrá námskeiðsins:

16. nóvember:

Íslenska stjórnkerfið
Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor

Stefna Sjálfstæðisflokksins
Halldór Blöndal, forseti Alþingis

Skipulag og starf Sjálfstæðisflokksins
Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarfulltrúi

Fjölmiðlar
Gréta Ingþórsdóttir, frkvstj. þingflokks Sjálfstæðisflokksins

23. nóvember:

Ísland og umheimurinn
Tómas Ingi Olrich, menntamálaráðherra

Bæjarmálastarfið
Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri

Flutningur talaðs máls
Sunna Borg, leikkona

Fundarstjórn og fundarsköp
Anna Þóra Baldursdóttir