Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

30 nóvember 2002

Sigurstranglegur framboðslisti - öflug forystusveit
Framboðslisti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi er tilbúinn. Hann var lagður fram til samþykkis á kjördæmisþingi flokksins á Fosshótel KEA á Akureyri í dag. Skv. tillögu kjörnefndar voru þingmenn flokksins á þessum slóðum í forystunni;

1. Halldór Blöndal forseti Alþingis
2. Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra
3. Arnbjörg Sveinsdóttir alþingismaður
4. Sigríður Ingvarsdóttir alþingismaður

Fram kom breytingartillaga af hálfu nokkurra kjördæmisþingsfulltrúa um að Arnbjörg yrði í öðru sætinu en Tómas í því þriðja. Var því kosið á milli þeirra og fór kosningin á þá leið að ráðherrann vann öruggan sigur og hlaut nærri 2/3 greiddra atkvæða. Niðurstaðan er að mínu mati góð og öflugur listi sem boðinn er fram af hálfu flokksins. Sérstaklega ánægjulegt er að fjöldi ungliða er á listanum, sem er mikilvægt að mínu mati. Næsta markmið er að flokkurinn verði í fararbroddi í kjördæminu. 3 þingmenn ættu að vera öruggir ef miðað er við úrslit seinustu kosninga og lítið sem vantar upp á að fjórði maður vinnist. Það verður markmið okkar í kjördæminu að tryggja að það náist og Sigríður nái glæsilegri kosningu. Baráttan er hafin - stefnan er sett á góðan sigur í kjördæminu og að sjálfsögðu á landsvísu.

Frábær pistill Björns
Í pistli á heimasíðu sinni fer Björn Bjarnason alþingismaður og borgarfulltrúi, yfir það hvernig spekúlantar á vinstrivængnum hafa tjáð sig um úrslit prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík um síðustu helgi. Ennfremur tjáir hann sig um þann flokk sem eitt sinn átti að vera breiðfylking vinstri manna. Ég er mjög sammála áliti Björns og tek undir með honum þegar hann segir:

"Í Reykjavík blasir við kjósendum Samfylkingar, að þeir, sem áður voru í Alþýðubandalaginu, hafa náð undirtökum á lista fylkingarinnar. Alþýðuflokksmönnum hefur einfaldlega verið úthýst fyrir utan Jóhönnu Sigurðardóttur, sem skilgreindi sjálfa sig vinstra megin við Alþýðuflokkinn og stofnaði Þjóðvaka á sínum tíma til að árétta það. Samfylkingin er enn í tilvistarkreppu. Fyrst var okkur sagt, að hún kæmist úr henni, þegar fylkingu hefði verið breytt í flokk. Síðan var okkur sagt, að fylking orðin að flokki yrði fullburða, þegar hún hefði eignast formann. Nú er okkur sagt, að fylking orðin að flokki með formann nái sér á strik, þegar hún hafi mótað sér stefnu!".

Mannvitsbrekkan á Fréttablaðinu
Alltaf er það jafn "ánægjulegt" að líta á blaðursíðu Þórarins Þórarinssonar "blaðamanns" á Fréttablaðinu þar sem hann blammerar í allar áttir á sama misheppnaða og ómálefnalega háttinn og venjulega. Það virðist vera sem honum sé sérstaklega illa við mig og skrif mín á Netinu, merkilegt nokk. Ég stóð í þeirri trú og geri enn að þau skrif séu ekki skyldulesning, þau séu lesin af fólki sem geri það af fúsum og frjálsum vilja. Þessu virðist ekki vera farið á þann hátt með Þórarin. Það virðist vera sem hann sogist ósjálfrátt á þær síður þar sem pistlar mínir birtast og hann verði að lesa þá. Þetta er afskaplega merkilegt og skemmtileg stúdía fyrir fagmenn að kanna þetta atferli mannsins. Svo virðist vera að þessi maður hugsi eins og 18 ára menntaskólastrákur á fylleríi eða svo virðist, það er svosem allt í lagi, hans problem. Ég minni bara á að skrif mín þarf enginn að lesa tilneyddur, þau eru ætluð þeim sem hafa á þeim áhuga og vilja kynna sér skoðanir mínar eða pælingar. Það er valkostur fyrir alla hvort þeir lesa þessi skrif hér eða pistla mína almennt. En það virðist ekki vera svo auðvelt með mannvitsbrekkuna sem matreiðir fréttir í blaðið sem enginn á. Merkilegt nokk.