Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

19 janúar 2003

Átta ára afmæli vefsíðu Björns - góður pistill
Í gær voru liðin átta ár frá því að Björn Bjarnason alþingismaður og leiðtogi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, opnaði vefsíðu sína á Netinu. Á þessum tíma hefur hann tjáð sig opinskátt um menn og málefni í pólitík bæði sem ráðherra og forystumaður í borgarstjórn og á þingi. Í pistli gærdagsins fjallar Björn um seinasta borgarstjórnarfund sem verður eflaust minnisstæður vegna mótmæla virkjunarandstæðinga og þess þegar púað var á fráfarandi borgarstjóra og hún kölluð ríkissósíalisti af eigin samherjum, ennfremur gerir Björn grein fyrir afstöðu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í málinu og fréttaflutningi af því. Einnig fjallar hann um hið "sögulega" tvíeyki Samfylkingarinnar og rangfærslur prófessora við á sagnfræðistaðreyndum. Sérstaka athygli mína vöktu þessi orð Björns sem ég tek heilshugar undir: "Aldrei fyrr hefur verið gengið fram með þeim hætti í forystu íslensks stjórnmálaflokks að ákveða, að því er virðist á fjölskylduforsendum, að taka einstakling inn í forystusveit, án þess að um það sé fjallað og tekin ákvörðun með formlegum hætti á viðeigandi vettvangi innan viðkomandi stjórnmálaflokks. Eftir allt tal þingmanna Samfylkingarinnar eins og Bryndísar Hlöðversdóttur, Jóhönnu Sigurðardóttur og Lúðvíks Bergvinssonar um nauðsyn lýðræðislegra og gegnsærra vinnubragða í starfi stjórnmálaflokka er með ólíkindum, að til dæmis þessir þingmenn láti þetta yfir sig ganga þegjandi og hljóðalaust. Er augljóst, að lýðræðistalið er bara í nösunum á þingmönnunum, þegar þeir telja það gefa sér færi til árása á andstæðinga sína".

Golden Globe-verðlaunin afhent í nótt
Í nótt verða Golden Globe-kvikmynda- og sjónvarpsverðlaunin afhent í 60. skipti við hátíðlega athöfn í Los Angeles. Margar virkilega áhugaverðar kvikmyndir eru tilnefndar og eftirtektarverðar leikframmistöður. Ýmsar þessara mynda hafa verið sýndar hérlendis eða eru á leiðinni í bíó á næstu vikum. Golden Globe hafa löngum verið talinn góður vitnisburður um það sem koma skal þegar Óskarsverðlaunin verða afhent í marslok. Gott dæmi er að á seinustu 10 árum hafa 8 af 10 óskarsverðlaunamyndum unnið verðlaunin, þ.á.m. 7 fyrir bestu dramatísku mynd. Það verður því athyglisvert að fylgjast með þessu í nótt. Í ítarlegum pistli á kvikmyndir.com veltir Sigurður Guðmundsson fyrir sér tilnefningunum og spáir í spilin. Framundan er spennandi nótt fyrir áhugafólk um kvikmyndir, ég mun fylgjast vel með þessu.