Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

11 janúar 2003

Óvissa um Kárahnjúkavirkjun í borgarstjórn
Eins og ég sagði frá í gær hefur stjórn Alcoa samþykkt að reisa álver við Reyðarfjörð. Nú þegar málið er komið í þennan farveg hefur stjórn Landsvirkjunar samþykkt framkvæmdir vegna virkjunar við Kárahnjúka. Til að málið hljóti staðfestingu þurfa eigendur fyrirtækisins, ríkið, Reykjavíkurborg og Akureyrarbær að staðfesta þær ákvarðanir. Fyrir liggur að meirihluti er á Alþingi fyrir þessum framkvæmdum og mun iðnaðarráðherra leggja fyrir þingið frumvarp um málið á næstu dögum. Í bæjarstjórn Akureyrar er ljóst að bæjarstjórnarmeirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks styður málið ásamt nokkrum fulltrúum minnihlutans. Í borgarstjórn Reykjavíkur er aðra sögu að segja af málinu. Þar er engin samstaða innan meirihluta R-listans um málið. Fram hefur komið að varaborgarfulltrúi R-listans greiddi atkvæði gegn framkvæmdununum í stjórn Landsvirkjunar og einnig hafa leiðtogar Samfylkingarinnar og VG í borgarstjórninni lýst yfir andstöðu sinni, en Framsóknarmenn innan meirihlutans styðja virkjunina. Á fimmtudag verður kosið um málið og ljóst að atkvæði borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins munu skipta sköpum. Ekki er enn ljóst hvaða afstöðu þrír fulltrúar meirihlutans, þ.á.m. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fráfarandi borgarstjóri og leiðtogi R-listans muni taka í málinu. Nú þegar ljóst er að hún lætur af embætti borgarstjóra eftir þrjár vikur og hyggur á þingframboð og að öllum líkindum verða leiðtogaefni flokksins í komandi kosningum verður athyglisvert að sjá hvaða skoðun hún hefur á þessu mikilvæga máli. Gæti svo farið að afdrif málsins muni velta á afstöðu hennar. Það er mín skoðun að Sjálfstæðismenn í borgarstjórn eigi að láta meirihlutann og borgarstjórann fráfarandi um að klára málið og láta það velta á afstöðu hennar. Verður fróðlegt að sjá hvort hún leiðtogaefni Samfylkingarinnar sé hlynnt eða andvíg atvinnusköpun og uppbyggingu á landsbyggðinni. Hún getur ekki verið "stikkfrí" í þessu máli. Ekki er langt síðan meirihlutinn í borginni hékk á bláþræði vegna innbyrðis valdaátaka. Er ekki útilokað að þetta mál muni standa í borgarstjórnarmeirihlutanum.

Valgerður sigrar Jón - Ólafur Örn hættir - Ellert á vergangi
Framsóknarmenn í Norðausturkjördæmi héldu í dag kjördæmisþing sitt á Hrafnagili í Eyjafirði og völdu frambjóðendur á framboðslista sinn fyrir komandi þingkosningar. Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sigraði Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra, í slagnum um leiðtogasætið. Þótti ljóst að svo myndi fara, enda meirihluti þingfulltrúa úr gamla Norðurlandskjördæmi eystra. Jón verður í öðru sætinu og í þeim tveim næstu koma tveir ungir frambjóðendur, Dagný Jónsdóttir og Birkir Jón Jónsson. Er mjög líklegt að farsæl niðurstaða í virkjunarmálum hafi ráðið úrslitum fyrir Valgerði. Í gær tilkynnti Ólafur Örn Haraldsson að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri í komandi kosningum eftir 8 ára þingmennsku. Í dag var svo tilkynnt að Ellert B. Schram forseti ÍSÍ og fyrrv. alþingismaður, væri að íhuga framboð fyrir Samfylkinguna. Það er hálf ömurlegt að sjá þennan fyrrum þingmann og formann SUS á slíkum vergangi og óheillaleið.