Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

14 febrúar 2003

Afmæli Tómasar Inga
Í gær varð Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra, sextugur. Tómas og Nína Þórðardóttir eiginkona hans, tóku á móti gestum í Oddfellow-húsinu á Akureyri síðdegis í gær í tilefni þess. Auk skyldmenna þeirra mættu til fagnaðarins fjölmargir vinir og samstarfsmenn. Þar voru einnig samankomnir forystumenn Sjálfstæðisflokksins, í ríkisstjórn, þingflokknum og í kjördæminu. Veislustjóri var Guðmundur Heiðar Frímannsson og fjöldi góðra ræðna voru fluttar. Geir H. Haarde fjármálaráðherra, flutti ræðu fyrir hönd formanns flokksins og forsætisráðherra, sem var erlendis á fundi. Hann afhenti Tómasi gjöf fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og flutti góða ræðu. Sigríður Anna Þórðardóttir þingflokksformaður, ávarpaði menntamálaráðherra, fyrir hönd þingflokksins og Halldór Blöndal forseti Alþingis, fyrir hönd sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi. Ennfremur flutti Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra, ræðu fyrir hönd samstarfsmanna úr Framsóknarflokknum í ríkisstjórninni og Tryggvi Gíslason skólameistari MA fyrir hönd fyrrum samstarfsmanna úr Menntaskólanum, en þar kenndi Tómas í rúma tvo áratugi. Gunnar Ragnars formaður kjördæmisráðsins, flutti ræðu fyrir hönd sjálfstæðisfélaganna í kjördæminu og Þorsteinn Gunnarsson rektor HA flutti ræðu. Einar Oddur Kristjánsson alþingismaður, flutti einnig hnyttna ræðu sem viðstaddir hlógu mjög að, enda skemmtileg mjög. Að lokum ávarpaði afmælisbarnið gesti og þakkaði fyrir sig í löngu og ítarlegu máli. Þetta var skemmtileg afmælisveisla sem lengi verður í minnum höfð.

Athyglisverð skoðanakönnun Talnakönnunar
Í skoðanakönnun Talnakönnunar fyrir vefsvæðið heimur.is dagana 10.-13. feb. fengu Sjálfstæðisflokkur og Samfylking áþekkt fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 38,4% fylgi (36,4% síðast), Samfylkingin mælist með 37,7% (39,7%), Framsóknarflokkurinn 11,6% (13,3%) Vinstri-Grænir 9,8% (8,8%) og Frjálslyndir 2,1% (2,5%). Samkvæmt þessu fengi Sjálfstæðisflokkur 24-25 þingmenn (26 núna), Samfylking 23-24 (17 nú), Framsókn 7 (12 nú) og Vinstri grænir 6-7 (6 nú). Líklega dyttu Frjálslyndir út vegna þess að þeir fengju engan kjördæmakjörinn mann (2 nú). Síðasta könnun Talnakönnunar var gerð 20-22. janúar 2003. Greinilegt er að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa meira fylgi meðal karla en kvenna en þessu er öfugt varið með Samfylkinguna. Þessi könnun sýnir ekki mikla breytingu frá því síðasta könnun var gerð. Samfylkingin og Framsókn eru ívið minni og Sjálfstæðisflokkur og Vinstri-Grænir ívið stærri, sé miðað við síðustu könnun. Munurinn á könnununum tveim er ekki marktækur. Skv. frétt heims.is eru vikmörk allnokkur eða miðað við 95% vissu eru þau +/-5,0%. Þetta þýðir t.d. að í spá um fjölda þingmanna Samfylkingar og Sjálfstæðismanna gæti munað 2-3 þingmönnum til eða frá. Hjá hinum flokkunum er óvissan minni í prósentustigum talið eða 1-2 þingsæti. Sem fyrr segir ræður miklu hvort Frjálslyndir ná inn manni en það virðist ólíklegt miðað við þessa könnun. Í nýjustu könnun Fréttablaðsins var fylgi Samfylkingarinnar talsvert meira og Sjálfstæðismanna minna en það virðist hafa verið úrtaksfrávik. Í öðrum könnunum eru niðurstöður áþekkar og því líklegt að þessi könnun endurspegli vel stöðuna í þjóðmálum núna. Það vekur athygli að margir eru óákveðnir og Samfylkingin er að taka fylgi frá vinstri samherjum sínum og spurning hvenær fylgið leitar til baka. Hvet fólk til að lesa pistil Benedikts Jóhannessonar um ræðu ISG í Borgarnesi, góð úttekt hjá honum.