Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

06 febrúar 2003

Rimma Björns og Þórólfs - valdalaus borgarstjóri
Í dag sat Þórólfur Árnason borgarstjóri, sinn fyrsta borgarstjórnarfund. Þar endurtók Björn Bjarnason spurningar þær sem hann beindi til Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur borgarfulltrúa, á seinasta fundi hennar sem borgarstjóra fyrir viku, en nú var þeim beint til eftirmanns hennar, þar sem henni brast kjarkur við lok valdaferils síns að svara þeim. Spurningarnar fjölluðu um skuldasöfnun Reykjavíkurborgar undanfarin ár, en hreinar skuldir borgarinnar án lífeyrisskuldbindinga hafa hækkað um 1100% á sama tíma og sambærilegar skuldir ríkissjóðs hafa lækkað um 13%. Einnig er staðreynd að heildarskuldir á hvern Reykvíking eru 733.000 krónur og þar með hærri en í nokkru öðru sveitarfélagi á höfuðborgarsvæðinu. Skemmst er frá því að segja að borgarstjórinn svaraði í engu þessum spurningum og skautaði yfir þær á sama hátt og forveri hans. Kom til harðra orðaskipta á milli hans og Björns, og ljóst að nýr borgarstjóri er hörundsár maður og á erfitt með að rökræða um skuldirnar af ótta við að styggja yfirboðara sína í hinum pólitíska heimi. Þegar kom að því að svara raunverulegum spurningum sat borgarstjórinn kjurr og í pontu fór Alfreð nokkur Þorsteinsson sem á dögunum varð formaður borgarráðs í stað drottningarinnar föllnu. Er hann líklega valdamestur þeirra smákónga sem drottna nú yfir borginni eftir fráfall drottningarinnar harðneskjulegu.

Ronald Reagan 92 ára í dag
Í dag verður Ronald Reagan 40. forseti Bandaríkjanna, 92 ára gamall. Í grein í Washington Post í dag er fjallað um seinustu ár, en Reagan greindist með Alzheimer-veikina skömmu eftir að hann lét af forsetaembætti. Er nú svo komið að hann þekkir ekki sína nánustu og lifir í skugga frægðar sinnar. Reagan var á árum áður vinsæll leikari en skellti sér í pólitíkina á sjöunda áratug síðustu aldar. Árið 1966 varð hann ríkisstjóri í Kaliforníu. Árið 1980 varð hann 40. forseti Bandaríkjanna, 69 ára gamall, elsti maðurinn sem kjör hefur hlotið í forsetaembættið. Hann sat í embætti, tvö kjörtímabil, 1981-1989, en þá varð varaforseti hans, George Bush eftirmaður hans á forsetastóli. Hvet fólk til að kynna sér ævi hans á þessari síðu.