Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

19 mars 2003

Umfjöllun um stjórnarmyndanir
Nú þegar rúmir 50 dagar eru til kosninga, er kosningabaráttan að komast á fullt. Að loknum kosningum verður að mynda starfhæfa ríkisstjórn. Í gær birtist pistill minn um stjórnarmyndanir á frelsi.is. Það er forseti Íslands sem ákveður hverjum skuli falið stjórnarmyndunarumboð og hefur hann oft haft áhrif á gang mála. Núverandi stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur setið að völdum í tæp átta ár, frá 23. apríl 1995. Allan þann tíma hafa formenn flokkanna setið í stjórninni; Davíð Oddsson sem forsætisráðherra og Halldór Ásgrímsson sem utanríkisráðherra. Af öðrum ráðherrum í stjórninni 1995 er einungis Páll Pétursson eftir. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa oft setið saman í stjórn, en aldrei jafnlengi samfleytt og nú, átta ár að loknu þessu kjörtímabili. Núverandi ríkisstjórn er fimmta tveggjaflokkastjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks frá 1932 en að auki hafa flokkarnir átt saman aðild að ríkisstjórnum með þátttöku fleiri flokka. Það hefur ekki alltaf ráðið úrslitum hver vinnur kosningarnar en það hefur mikið að segja og hefur oft skipt sköpum. Einnig hefur mikið að segja hvort stjórnin heldur þingmeirihluta eða ekki, eða hvort vilji er fyrir áframhaldandi samstarfi ef meirihluti héldi, þetta getur ráðist af mörgum forsendum. Það eru margar og ólíkar forsendur sem ráða hvernig úr spilunum spilast - það verður athyglisvert að sjá hvernig þetta verður eftir komandi kosningar. Ljóst er að kosningabaráttan verður spennandi - ekki verður síður athyglisvert að fylgjast með stjórnarmyndun að kosningunum loknum. Verður áframhald á núverandi stjórnarsamstarfi? Er ný viðreisn í uppsiglingu? Eða jafnvel stjórn þeirra flokka sem setið hafa í stjórandstöðu? Ómögulegt er um að spá. Framundan er athyglisverð kosningabarátta fyrir alla þá sem áhuga hafa á stjórnmálum.

Þróun Netsins í almennri stjórnmálabaráttu
Í ítarlegum pistli á heimasíðu Sjálfstæðisflokksins á Akureyri á mánudag fjalla ég um þróun Netsins í almennri stjórnmálabaráttu á seinustu árum. Á árum áður var kosningabaráttan háð með blaðaskrifum og útgáfu blaða tengdum flokkunum til að koma boðskap þeirra sem best á framfæri. Flokksmálgögnin á dagblaðamarkaðnum voru mikilvægur þáttur í þeirri baráttu. Eftir því sem árin hafa liðið hefur tími flokksblaðanna runnið sitt skeið og baráttan því háð á öðrum forsendum en oft áður. Nú skiptir Netið miklu máli við öflun og miðlun upplýsinga í kosningabaráttu. Er mikilvægt að stjórnmálamenn og frambjóðendur komi boðskap sínum og stefnu framboða sinna á framfæri á sem kraftmestan hátt til skila til kjósenda sinna í gegnum skrif, einkum á Netinu og í blaðagreinum, sérstaklega í Morgunblaðinu. Í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar var Internetið aðeins varafjarskiptaleið Bandaríkjahers og veraldarvefurinn var ekki kominn til sögunnar enn. Síðan hefur netvæðingin verið mjög ör og setur æ ríkari svip á samskipti manna. Við Íslendingar erum eins og flestum ætti að vera kunnugt í fremstu röð í þessum málum, en um 80% landsmanna á aldrinum 16-75 ára hafa nú aðgang að Netinu. Er því ljóst að mikilvægt er fyrir stjórnmálamenn að ná til þessa fólks í gegnum þennan gríðaröfluga miðil nútímans. Í dag keppast flokkarnir um að koma upplýsingum til skila á markvissan hátt og margir stjórnmálamenn hafa ákveðið að koma sér upp vefsíðu til að vera í góðu sambandi við kjósendur og koma skoðunum sínum þar á framfæri. Brautryðjandi í þessum efnum var Björn Bjarnason alþingismaður og fyrrv. menntamálaráðherra. Hann opnaði vefsíðu sína fyrir átta árum, í febrúar 1995 og hefur síðan skrifað vikulega pistla um stjórnmál og það sem hæst ber í þjóðfélaginu, birtir þar einnig allar blaðagreinar sínar og ræður og uppfærir þar reglulega dagbók sína. Er enginn vafi á því að hann er sá maður sem einna best hefur notfært sér þennan miðil og kynnt skoðanir sínar. Þar er hægt að fylgjast með verkum og skrifum Björns allan ráðherraferil hans 1995-2002 og seinasta árið sem leiðtoga borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins. Í kjölfar hans hafa margir stjórnmálamenn ákveðið að nota sér þennan miðil til að vera í góðum tengslum við umbjóðendur sína.

Gagnvirkar upplýsingar - Íslendingur er mikilvægur fyrir okkur
Netvæðingin hefur auðveldað stjórnmálamönnum, stjórnmálaflokkum og stjórnvöldum almennt, að miðla upplýsingum til kjósenda. Slík miðlun upplýsinga skiptir mjög miklu í kosningabaráttu. Það er alveg ljóst að greið og gagnvirk samskipti eru lykilatriði í stjórnmálastarfi. Nýja upplýsingatæknin er betri en nokkur annar vettvangur til upplýsingamiðlunar að því leyti, að hún er gagnvirk. Hún gefur stjórnmálamönnum nýtt og einstakt tækifæri til að skiptast á skoðunum við kjósendur. Netið hefur gjörbreytt allri miðlun opinberra upplýsinga. Vefsíður Stjórnarráðsins, Alþingis, Hæstaréttar og sveitarfélaganna eru til mikillar fyrirmyndar. Einkum er ljóst að heimasíða Akureyrarbæjar nýtur mikillar hylli, en enginn þéttbýliskjarni á landinu getur státað af jafn vinsælli heimasíðu og Akureyrarbær, samkvæmt mælingum á heimsóknir á vefsíður. Í apríl 2001 var heimasíða Sjálfstæðisflokksins hér á Akureyri, islendingur.is, opnuð og hefur hún verið öflugur miðill okkar sjálfstæðismanna í bænum og þjónað flokksmönnum í öllu Norðausturkjördæmi og mun verða mikilvægur þáttur í baráttu okkar næstu vikurnar. Það er enginn vafi á því að islendingur.is er ein öflugasta vefsíða sjálfstæðismanna á landinu og þar eru nýjustu fréttinar úr flokksstarfinu, pistlar og greinar flokksmanna og allt sem máli skiptir fyrir okkur sem styðjum flokkinn. Sé Netið notað með markvissum og reglubundnum hætti, er hægt að skapa fjölmiðil sem vegur ekki síður þungt en hinir hefðbundnu miðlar. Íslenskir stjórnmálamenn og frambjóðendur á komandi árum eiga nýja og öfluga leið til að efla samband við umbjóðendur sína. Netið hefur opnað mörg spennandi tækifæri til samskipta á milli fólks og þau geta skipt sköpum í harðri baráttu þar sem mikilvægt er að hrífa fólk með sér og setja fram stefnu sína og skoðanir á markvissan og öflugan hátt.