Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

10 maí 2003

Skýrar línur - verum blátt áfram í dag
Kosningabaráttu við alþingiskosningarnar 2003 lauk í gærkvöldi með umræðum forystumanna þeirra flokka sem bjóða fram á landsvísu, í alþingishúsinu. Komið er að þeim tímapunkti að fólk gangi að kjörborðinu og velji fulltrúa sína á Alþingi Íslendinga næsta kjörtímabilið. Kaus í morgun í Oddeyrarskóla á Akureyri, þar er sól og blíða og góð stemmning í fólki. Í dag verður skorið úr um það hvort Sjálfstæðisflokkurinn verður áfram í forystu landsmála. Þau tæki sem sjálfstæðismenn hafa alltaf haldið fram að reynist best hafa skilað þjóðinni hagsæld án fordæma í Íslandssögunni. Frelsi einstaklingsins, ábyrgð í ríkisfjármálum og hófleg skattheimta hafa verið einkunnarorð Sjálfstæðisflokksins í þeim ríkisstjórnum sem flokkurinn hefur veitt forystu frá árinu 1991. Nú er sótt að Sjálfstæðisflokknum sem aldrei fyrr, þrátt fyrir árangurinn sem náðst hefur. Rökin gegn stjórn Sjálfstæðisflokksins byggjast á veikum grunni en það þýðir ekki að sjálfstæðismenn þurfi ekkert að óttast. Að Íslendingum steðjar sú ógn, að vinstristjórn komist til valda og glutri niður árangrinum og misnoti tækifærin sem eru til sóknar.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur í hyggju að framkvæma eftirfarandi á næsta kjörtímabili; lækka tekjuskatt um 4%, afnema eignarskatta, lækka um helming virðisaukaskatt á matvæli, bækur, húshitun, rafmagnskostnað og öðru sem tilheyri lægri virðisaukaskattsþrepinu, hækka barnabætur um 2000 milljónir króna, lækka öll skattþrep erfðafjárskatts og auka skattfrelsi vegna viðbótar framlaga í lífeyrissparnað. Hingað til hafa sjálfstæðismenn ekki lofað beinum skattalækkunum fyrir kosningar en hafa þó lækkað þá samt. Um er að ræða bein loforð okkar sem við munum efna ef okkur verður falin stjórn á þjóðarskútunni næsta kjörtímabil. Eins og formaður flokksins sagði sjálfur í ræðu á landsfundi eru sjálfstæðismenn ekki aðeins umræðustjórnmálamenn heldur fyrst og fremst athafnastjórnmálamenn. Skattalækkunartillögur flokksins munu allar verða lögfestar í einu lagi á fyrsta haustþingi eftir kosningar. Þar munu dagsetningar verða nefndar um hvenær breytingarnar tækju gildi á kjörtímabilinu. Greinilegt er að lítill samhljómur er á milli leiðtoga stjórnarandstöðuflokkanna í kosningabaráttunni og hafa þau talað í margar áttir í þeim umræðuþáttum sem þau hafa verið saman í. Þau virðast eiga mjög fátt sameiginlegt. Talsmaður Samfylkingarinnar slær úr og í frá einum sjónvarpsþætti til annars og virðist að mörgu leyti endurspegla vel þann flokk sem hún er í. Ætti að nægja að líta á skattamálin í þeim efnum. Nú virðist fjölþrepa tekjuskatturinn fokinn út í veður og vind. Eins og fyrr segir er leiðtogaþrenning stjórnarandstöðunnar ekki traustvekjandi, en ljóst er að hún er sá kostur, sem kjósendur hafa gegn leiðtogum stjórnarflokkanna þegar velja skal forystu til næstu ára. Kostirnir í komandi kosningum eru mjög skýrir; viljum við áframhaldandi stöðugleika eða stjórnleysi að hætti vinstri manna í margra flokka stjórnum frá fyrri tíð. Svo einfalt er það!

Sjálfstæðisflokkurinn gengur til kosninga í dag stoltur af þeim árangri sem Íslendingar hafa náð og sannfærður um að ef áfram verður haldið á sömu braut bíði okkar allra enn frekari ávinningur. Miklar breytingar hafa orðið á íslensku þjóðfélagi á undanförnum árum. Þær hafa leitt til hagsældar og bættra lífskjara langt umfram það sem gerst hefur í nálægum löndum. Umgjörð atvinnulífsins er nú betri en áður, starfsskilyrði þess hagstæðari, skattar almennings og fyrirtækja lægri og svigrúm til athafna meira en áður. Tekist hefur að treysta forsendur velferðarkerfisins með öflugu atvinnulífi á grundvelli stöðugleika í efnahagsmálum. Saman höfum við náð árangri og getum verið bjartsýn á framtíð okkar og Íslands á komandi árum. Varðveitum stöðugleikann á komandi árum. Glutrum ekki árangri undanfarinna ára niður, sköpum ný tækifæri og farsæla framtíð til hagsbóta fyrir alla. Með því að kjósa Sjálfstæðisflokkinn og Davíð Oddsson áfram til forystu í landsmálunum stöndum við vörð um stöðugleikann. Ég hvet landsmenn til að vera blátt áfram í dag og kjósa Sjálfstæðisflokkinn á kjörstað. Framtíð þjóðarinnar er í okkar höndum, tryggjum að áfram verði haldið á braut farsældar í landinu okkar, landi tækifæranna. Áfram Ísland!