Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

29 ágúst 2003

Uppsagnir á Stöð 2
Mikla athygli hefur vakið seinustu vikur uppsagnir hæfra frétta- og dagskrárgerðarmanna á Stöð 2. Þannig hefur t.d. Þorsteini J, Dóru Takefusa, Ólöfu Rún Skúladóttur, Margréti Stefánsdóttur og Huldu Gunnarsdóttur öllum verið sagt upp störfum. Undarleg var uppsögn t.d. Þorsteins, enda um að ræða einn kraftmesta sjónvarpsmann landsins og hafði stýrt með góðum árangri, þættinum Viltu vinna milljón í þrjú ár. Heyrst hefur að Jónas R. Jónsson taki við þættinum, ekki þykja mér það góð skipti. Í vikunni var svo þeim Árna Snævarr og Snorra Má Skúlasyni sagt upp störfum. Báðir eiga að baki langan starfsferil á stöðinni og stýrt góðum þáttum og verið áberandi í sjónvarpi. Árni var t.d. í fyrra valinn fréttamaður ársins. Það er greinilegt að vinnumórallinn á Stöð 2 er ekki beysinn þessa dagana, kalt stríð í loftinu milli eigenda og starfsmanna.

Akureyrarvaka 2003
Í dag eru liðin 141 ár frá því Akureyrarbær hlaut kaupstaðarréttindi. Í tilefni þess verður um helgina haldin Akureyrarvaka 2003, árleg menningarhátíð bæjarbúa. Hefst hún formlega í kvöld kl. 21:00 í Lystigarðinum með formlegri hátíðardagskrá. Þar mun Þóra Ákadóttir forseti bæjarstjórnar, flytja ávarp og í kjölfarið verður skemmtileg dagskrá í garðinum allt kvöldið: Garðveisla - gamanleikur í einum þætti, leikhúskórinn tekur lagið, leiðsögn um sýninguna 13+3 í garðinum og síðast en ekki síst skemmtilegt andrúmsloft auðvitað talsvert. Um helgina er svo menningarveisla sem fylgir í kjölfarið og framundan skemmtileg Akureyrarvaka - óður til Akureyskrar menningar.

Góður pistill Andrésar
Á miðvikudag flutti Andrés Magnússon magnaðan pistil í morgunsjónvarpi Stöðvar 2 og Bylgjunnar, Íslandi í bítið. Þar fjallar hann um ákvörðun Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur þess efnis að sækjast eftir formennsku í Samfylkingunni eftir tvö ár og strategíu hennar í þeirri pólitísku eyðimerkurgöngu sem bíður varaþingmannsins næstu fjögur árin. Tek ég undir með Andrési að mestu leyti og finnst hann orða vel stöðuna sem bíður formannsefnisins (þ.e.a.s. ef hún heldur áfram að stefna í þá átt) og verðandi varaformanns Samfylkingarinnar.