Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

16 september 2003

Hafsteinn Þór kjörinn formaður SUS
Hafsteinn Þór Hauksson var kjörinn formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna á 37. þingi SUS á Borgarnesi á sunnudag. Hafsteinn Þór fékk 95 atkvæði af 122 gildum atkvæðum eða 78%, auð og ógild atkvæði voru 16, Hafsteinn var sá eini sem hafði opinberlega gefið kost á sér í embættið. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir var kjörin 1. varaformaður sambandsins, en hún hafði einnig ein gefið opinberlega kost á sér til þess embættis. Hafsteinn er fæddur 11. ágúst 1978 og býr í Garðabæ. Hann er sonur Hauks R. Haukssonar og Rannveigar K. Hafsteinsdóttur. Systkini Hafsteins eru Haukur Þór, fjármálaráðgjafi og varabæjarfulltrúi, og Guðný Kristín, tannsmiður. Kærasta Hafsteins er Hrefna Ástmarsdóttir, nemi í stjórnmálafræði. Ég óska Hafsteini félaga mínum og fjölskyldu hans, innilega til hamingju með kjörið.

Kjörinn í stjórn SUS
Ég hef á seinustu árum reynt af fremsta megni að tjá mig um hitamál samtímans og taka þátt af krafti í stjórnmálum. Á þingi SUS var ég kjörinn í stjórnina fyrir Norðausturkjördæmi. Ég mun í stjórninni verða málsvari aðildarfélaga ungliðanna fyrir kjördæmið og mun kappkosta að tala máli ungra sjálfstæðismanna hér. Ég er ávallt til umræðu um málin og þeir ungliðar í kjördæminu sem vilja ræða við mig um pólitík hvet ég til að senda mér tölvupóst eða hringja í mig. Framundan eru spennandi tímar hjá Sjálfstæðisflokknum og ég vil vinna af krafti fyrir kjördæmið í starfinu innan SUS.