Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

21 september 2003

SUS þing - nýr formaður - stjórnarseta í SUS - Heimdallur
Í sunnudagspistli vikunnar á stebbifr.com, fjalla ég um þing Sambands ungra sjálfstæðismanna í Borgarnesi, helgina 12. – 14. september sl. Ég fer yfir það markverðasta sem gerðist á þinginu. Ennfremur fjalla ég um nýja forystu SUS en Hafsteinn Þór Hauksson var kjörinn formaður og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir varaformaður. Ég var kjörinn í stjórn SUS fyrir Norðausturkjördæmi og fjalla ég um mín markmið í starfinu í stjórninni. Mikilvægast þar er að mínu mati að efla vefsíðu SUS og félagsstarfið um allt land. Að lokum fjalla ég um stjórnarkjör í Heimdalli, félagi ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, sem framundan er.

Anna Lindh kvödd
Um helgina var Anna Lindh utanríkisráðherra Svíþjóðar, jarðsungin í Stokkhólmi. Var athöfnin einungis fyrir nánustu ættingja, pólitíska samherja og vini hennar. Á föstudag var minningarathöfn um hana í Ráðhúsinu í Stokkhólmi. Um 1.300 gestir voru viðstaddir athöfnina sem stóð í hálfa aðra klukkustund. Fluttar voru mjög hjartnæmar ræður um framlag hennar til stjórnmála, ekki bara í Svíþjóð heldur á alþjóðavísu. Meðal þeirra sem flutti ræðu var Göran Persson forsætisráðherra, sem kvaddi þarmeð einn sinn nánasta pólitíska samherja. Ræða hans sem snertir viðkvæma strengi, er skyldulesning fyrir alla þá sem vilja minnast eins af kraftmestu stjórnmálaleiðtogum Svíþjóðar seinustu áratugina.