Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

21 október 2003

Heitast í pólitíkinni
Aðalumræðuefnið í dag er umfjöllun Neytendasamtakanna um banka og tryggingarfélög til dæmis. Fram kemur í blöðum í dag að NS segir bankana hafa hagnast um 3,7 milljarða fyrstu sex mánuði ársins vegna óeðlilegs vaxtamunar og hárra þjónustugjalda. Þetta eru athyglisverðar tölur og reyndar vekur öll umfjöllun NS áhuga neytenda í landinu, eins og gefur að skilja. R-listinn er enn í sárum eftir að Steinunn Birna gekk á dyr, í dag segir hún á mbl.is að henni hafi verið meinað að tjá eigin skoðanir um Austurbæjarbíó og ennfremur að henni hafi oft verið settur stóllinn fyrir dyrnar - svona er nú lýðræðið í borgarmálaráði R-listans þessa dagana. Kristján Pálsson er aftur genginn í Sjálfstæðisflokkinn. Það er gott segja eflaust einhverjir. Ekki tel ég svo vera. Maður sem kostaði flokkinn forystuna í Suðurkjördæmi og þingsæti, er vart aufúsugestur. Betra hefði verið að Kristján hefði dregið sig í hlé fyrir kosningar og beðið eftir næstu kosningum, en það er vart við að búast að hann verði dreginn fram í dagsljósið fyrir flokkinn framar.

Svona er frelsið í dag
Á frelsinu er alltaf fjör og fjölbreytt umfjöllun. Í dag skrifar Helga Baldvinsdóttir Bjargardóttir virkilega góðan pistil um nöfn og ennfremur um mannanefndanefnd og hlutverk hennar. Fer Helga yfir málið á athyglisverðan hátt. Bendir ennfremur á mörg skondin nöfn sem nefndin hefur samþykkt. Það er ekki laust við að maður fái á tilfinninguna að þetta sé ein silkihúfunefndin gagngert sett fram til að hafa ekkert að gera. Miðað við þau nöfn sem samþykkt kemur spurning dagsins, af hverju mannanefnanefnd til að stjórna almenningi og nöfnum á börn fólks. Enginn tilgangur með þessu, burt með svona bákn! En Helga á heiður skilið fyrir góða umfjöllun.

Dægurmálaspjall gærkvöldsins
Í gærkvöldi var rætt í Íslandi í dag um skýrslu Neytendasamtakanna um iðgjöld og fleira því tengt. Þar voru Jóhannes Gunnarsson neytendaformaður og Gunnar Felixson forstjóri TM að rífast um þetta og fóru yfir málin, með mjög ólíkar skoðanir eins og við var að búast. Eftir spjall þeirra stóð eftir spurningin hvor hefur rétt fyrir sér. Eiga ásakanir NS um of há þjónustugjöld, sér rök í veruleikanum, ef svo er á ekki að taka á því. Fá þetta á borðið takk! Í Kastljósinu ræddu Gísli Gíslason bæjarstjóri á Skaganum og þingmaðurinn Magnús Þór Hafsteinsson (sem eitt sinn var víst fréttamaður) um kvótamál á Skaganum og ekki sammála um það. Auðvitað vona allir að farsæl lending verði í þessu máli, en öfgaskoðanir þingmannsins vekja mikla athygli. Ennfremur kom Einar Mar í viðtal um athyglisverða skýrslu sína um flokka og kjósendur, virkilega fróðlegir punktar hjá honum.

Bækur - kvikmyndir
Þessa dagana er ég meðfram pistlaskrifum á frelsið, kvikmyndir.com og Íslending að lesa aftur seinasta bindi ævisögu Einars Ben eftir Guðjón Friðriksson. Alveg einstök bók, sannkallað augnakonfekt. Skemmtilega sagt frá þessum einstaka karakter. Er einnig að lesa í ljóðabók Jónasar Hallgrímssonar, en ég hef miklar mætur á kveðskap þeirra Einars og Jónasar. Horfði í gærkvöldi á All About Eve, sannkölluð perla þar sem Bette Davis, George Sanders og Anne Baxter eiga stjörnuleik. Um helgina horfði ég á stórmyndir Spielbergs, Schindler´s List og Saving Private Ryan áður en ég skrifaði leikstjórapistil um hann. Svo horfði ég á The Bridge on the River Kwai á sunnudaginn, semsagt háklassabíó á mínu heimili. Enda er ég og mitt kvikmyndasafn vinsæl hjá fjölskyldunni! hehe

Vefur dagsins
Í þessari viku er þema á vef dagsins, vinablogg. Benti í gær á vef Kidda. Í dag er svo komin röðin að góðum bloggvef Helgu sem er frelsispenni eins og ég. Helga er ekki feimin að tjá skoðanir sínar og dugleg að blogga þegar hún hefur skoðanir, perla á vefnum!

Snjallyrði dagsins
Frelsi þýðir ábyrgð. Það er þess vegna sem flestir menn óttast það
George Bernard Shaw