Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

01 febrúar 2004

Hannes Hafstein ráðherraHeitast í umræðunni - pistill Björns
Í dag, 1. febrúar, eru liðin 100 ár frá því að Íslendingar fengu heimastjórn. Með því var þingræði komið á hérlendis og Stjórnarráð Íslands formlega stofnað. Með þessu var stofnað embætti ráðherra Íslands, er skyldi aðsetur hafa í Reykjavík. Við það varð Reykjavík miðstöð stjórnsýslu á Íslandi. Þessi flutningur framkvæmdavaldsins til Íslands hafði fram til 1904 verið eitt helsta baráttumál Íslendinga. Þetta var stærsta skrefið í baráttu þjóðarinnar fyrir sjálfstæði sínu. Það kom í hlut Íslandsmálaráðherra dönsku stjórnarinnar, Alberti, að velja fyrsta íslenska ráðherrann. Við val sitt fór ráðherrann eftir vilja meirihluta Alþingis, heimastjórnarmanna. Ákvað Alberti að skipa Hannes Hafstein fyrsta ráðherra Íslendinga og tók hann við embætti sínu 1. febrúar og kom þá að starfslokum Magnúsar Stephensens, er verið hafði landshöfðingi í tæpa tvo áratugi. Ríkisráð kom saman til fundar í hádeginu í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Í fjarveru forseta Íslands stjórnaði Halldór Blöndal forseti Alþingis, fundi ríkisráðs. Á þeim fundi var samþykkt að breyta ákvæðum í reglugerð um stjórnarráð Íslands og færa hana til nútímans. Handhafar forsetavalds staðfestu í fjarveru forseta þessar breytingar. Davíð Oddsson forsætisráðherra, lagði svo í dag blómsveig á leiði Hannesar og eiginkonu hans Ragnheiðar, í kirkjugarðinum við Suðurgötu.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherraÍ pistli sínum á heimasíðunni, fjallar Björn um afmæli heimastjórnar og Kammersveitar Reykjavíkur. Fjallar hann ítarlega um ríkisráðsfund í Ráðherrabústaðnum í dag. Orðrétt segir hann: "Sagan geymir ýmis dæmi um að handhafar forsetavalds sitji ríkisráðsfundi. Í stjórnarráðssögunni, sem út kemur í dag, er til dæmis mynd frá því fyrir um það bil 40 árum, sem sýnir ríkisráðið undir forsæti Birgis Finnssonar, þáverandi forseta sameinaðs alþingis, en honum til vinstri handar situr Þórður Eyjólfsson, forseti hæstaréttar, og Bjarni Benediktsson forsætisráðherra á hægri hönd Birgis. Hvort þetta er í síðasta sinn þar til nú, að ríkisráðið kemur saman með handhöfum forsetavalds, skal ég ekki fullyrða. Er það þó talið líklegt. Varð ég var við það, að fjölmiðlamönnum þótti þetta nokkrum tíðindum sæta, sem er auðvitað rétt, þegar litið er til sögu ríkisráðsins og stjórnarráðsins."

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um aldarafmæli heimastjórnar á Íslandi. Í dag eru 100 ár liðin frá því Hannes Hafstein varð fyrsti ráðherra Íslendinga, í tilefni þess er vert að fjalla um þennan forystumann í stjórnmálum og skáld sem setti mikinn svip á íslensk stjórnmál fyrri tíma. Hann þótti skáld ásta, lífsgleði og síðast en ekki síst karlmannlegrar bjartsýni. Hannes varð lögfræðingur og gerðist embættismaður, fyrst í Reykjavík en varð síðar bæjarfógeti og sýslumaður á Ísafirði. Hann varð frægur undir lok 19. aldar vegna mannskæðrar svaðilfarar á hendur erlendum landhelgisbrjót á Dýrafirði og munaði litlu að hann léti lífið í þeirri för. Hann var kjörinn á þing árið 1901, var ráðherra 1904-1909 og aftur 1912-1914. Hann lést í Reykjavík 13. desember 1922. Fjalla ennfremur um nýjan fjölmiðlarisa sem birtist almenningi í vikunni og um bresk stjórnmál en athyglisvert verður að fylgjast með stöðu breska forsætisráðherrans eftir að Hutton lávarður færði honum sigur í baráttunni við BBC.

The Caine MutinyKvikmyndir - spjall
Var virkilega gaman í gærkvöldi. Í dag horfði ég á hina mögnuðu The Caine Mutiny. Klassískt og sígilt réttardrama byggt á handriti margfrægrar Pulitzer-verðlaunaskáldsögu Hermans Wouk. Segir frá því þegar tveir sjóliðsforingjar gera uppreisn gegn skipherra sínum, kapteini Quegg, og segja hann andlega vanheilan til að stjórna skipinu. Sérlega vönduð og áhugaverð sviðsetning og stórkostlegur leikur aðalleikaranna er aðall þessarar klassamyndar sem er ein af bestu kvikmyndum sjötta áratugarins. Humphrey Bogart fer á kostum í hlutverki skipherrans og er þetta eitt af hans bestu og eftirminnilegustu hlutverkum. Túlkun hans nær hámarki er Quegg er leiddur til vitnis í réttarsalnum, þar sýnir Bogart á ógleymanlegan hátt hið snúna og margbrotna sálarástand skipherrans. Þetta hlutverk er í raun síðasta stórhlutverk Bogarts, en hann lést tæpum þrem árum eftir gerð myndarinnar. Ekki má heldur gleyma öðrum leikurum, en þeir Van Johnson, Robert Francis, Fred MacMurray, José Ferrer og Lee Marvin fara einnig á kostum í hlutverkum sínum. Fór eftir myndina á Bláu könnuna, klukkan þrjú en þar hittumst við félagi minn Geiri, til að rabba um pistil sem við erum að vinna að um menningarmál samhliða afmæli Varðar. Fórum í góðu spjalli vel yfir málaflokkinn.

Dagurinn í dag
* 1904 Heimastjórn - ný stjórnskipan kom til framkvæmda og fól í sér skipan íslensks ráðherra
* 1935 Áfengisbann var formlega afnumið, en það hafði staðið frá 1915
* 1973 Alþingi samþykkti stofnun Viðlagasjóðs vegna náttúruhamfara
* 1979 Ayatollah Khomeini snýr aftur til Írans, eftir langa útlegð
* 2003 Geimskutlan Columbia ferst.

Snjallyrði dagsins
Hasta la vista, baby!
Tortímandinn í Terminator 2: Judgment Day