Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

27 febrúar 2004

Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherraHeitast í umræðunni
Greinilegt er að valdaátök eru hafin innan Framsóknarflokksins, um það hvaða ráðherra flokksins skuli víkja við ráðherrahrókeringar í september. Í umræðuþættinum Í brennidepli, um seinustu helgi lét Guðjón Ólafur Jónsson varaþingmaður flokksins, þau orð falla að Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra, eigi að víkja í haust, þegar flokkurinn missir sjötta stólinn, ráðuneyti Sivjar. Hann ítrekar þessa skoðun aftur í vikunni í grein á Hriflunni, vefriti innan flokksins. Siv svarar Guðjóni Ólafi harkalega á sínum vef og segir að hann hafi á síðustu dögum tvívegis vegið opinberlega að sér. Orðrétt segir Siv á heimasíðu sinni: "Það er því greinilegt að húskarlar eru komnir á kreik." Um fyrri ummæli Guðjóns, sagði Siv þann 22. febrúar: "Kl. 20 var fréttaskýringaþáttur Páls Benediktssonar, "Í brennidepli" í Ríkissjónvarpinu þar sem rætt var við framsóknar- og sjálfstæðismenn um komandi breytingar á ríkisstjórninni þann 15. sept. n.k. Eftir þáttinn hringdu nokkrir stuðningsmenn mínir í flokknum æfir vegna ummæla sem Guðjón Ólafur Jónsson lögmaður lét falla í þættinum. Sagði ég þeim að róa sig í bili, ekki tækju allir mark á öllu sem sagt væri í sjónvarpi." Valdaátökin innan flokksins, verða sífellt sýnilegri og greinilegt að stefnir í harðvítugan slag um hver fari í haust, allir ráðherrar ætla að halda áfram og Siv ætlar að berjast fyrir því að fá annað ráðuneyti þá, á kostnað annars ráðherra.

Úr myndinni The Passion of the ChristUmdeild kvikmynd Mel Gibson um síðustu klukkustundirnar í lífi Jesú Krists, var frumsýnd í vikunni. Myndin fær fremur slæma dóma gagnrýnenda og hefur þegar vakið mikil og sterk viðbrögð kirkjunnar manna og trúarsamtaka af ýmsum toga. Það hafa einkum verið þrýstihópar gyðinga sem gagnrýnt hafa myndina og lýst yfir því að þeir óttist að hún ýti undir gyðingahatur vegna þess að í henni sé gefið í skyn að gyðingar hafi borið ábyrgð á dauða Krists. Gagnrýnendur sem mislíkar myndin hafa hins vegar fundið að henni fyrir yfirgengilega grimmd og alltof sýnilegt ofbeldi. Í The Hollywood Reporter er myndin sögð nánast ofbeldisklám og svipuð ummæli eru viðhöfð í umsögn Washington Post. Miðaldra kona í Kansas missti meðvitund þegar hún horfði á krossfestingaratriði myndarinnar og lést skömmu síðar á sjúkrahúsi. Mótmælagöngur hafa verið haldnar vegna myndarinnar og voru farnar víða um Bandaríkin í gær, nálægt kvikmyndahúsum sem sýndu myndina. Fræðimenn hafa sagt myndina uppfulla af sögulegum rangfærslum, eins og t.d. að Jesús skuli vera með sítt hár og að persónur mæli á latínu og aramísku. Athyglisvert verður að sjá hver aðsókn verður að myndinni.

SUSNýr vefur Sambands ungra sjálfstæðismanna á sus.is, verður opnaður í dag, föstudaginn 27. febrúar í Valhöll, Háaleitisbraut 1, kl. 17.30. Hinn nýi vefur verður eftir breytingar öflugri og betri vettvangur ungs hægrifólks og mun ná til allra þeirra sem vilja kynna sér áherslur okkar og skoðanir. Vefur okkar verður vettvangur allra ungra sjálfstæðismanna, um allt land. Þar munu birtast fréttir úr flokksstarfinu og ítarleg umfjöllun um málefni Sambands ungra sjálfstæðismanna. Hann mun verða mikilvægur þáttur til að kynna hugsjónir sjálfstæðismanna bæði sem lúta að auknu frelsi einstaklingsins og minni ríkisafskipta, og síðast en ekki síst styrkja ungliðahreyfingina enn frekar. Ég á sæti í ritstjórn vefsins eftir breytingar ásamt Georg Brynjarssyni, Jóni Hákoni Halldórssyni, Stefáni Einari Stefánssyni, Bjarka Má Baxter og Friðjóni R. Friðjónssyni. Efnisflokkar breytast, meira verður af athyglisverðu efni og hver yfir sínu sérsviði á vefnum. Framundan eru nýjir og betri tímar á vefnum og hörkugóður vefur ungra sjálfstæðismanna, undir öryggri stjórn.

Hjörleifur PálssonSvona er frelsið í dag
Í pistli dagsins fjallar Hjölli um landbúnaðarráðherrann. Orðrétt segir: "Guðni Ágústsson er mikið ólíkindatól. Hann er líklega einn fyndnasti stjórnmálamaður okkar tíma, og þreytist seint á að reyta af sér brandarana. Það sem gerir Guðna svona fyndinn er að honum tekst ávallt að segja eitthvað skondið, jafnvel þótt hann sé bara alls ekkert að djóka. Eins og til dæmis nú um daginn þegar hann fór hreinlega á kostum með ummælum sínum um kúabú landsins. Samkvæmt Guðna á mjólkurframleiðsla landsins að vera byggð upp á litlum fjölskyldubúum Aðkeypt vinnuafl, stærri bú og of mikil vélvæðing er hins vegar af hinu illa. Guðni tók þó skýrt fram að mjaltavélar væru af hinu góða. Hann var samt ekki alveg nógu skýr í máli sínu, og minntist t.d. ekkert á traktora. Vonandi sker hann þó fljótlega úr um það hvort traktorar séu góð eða vond tæki, og bindur þar með enda á þá miklu óvissu sem hefur vafalaust nagað marga landsmenn síðustu daga. Það væri einnig einkar fróðlegt að heyra frá Guðna, hvernig hann hefur komist að nákvæmlega þeirri niðurstöðu sem hann lýsti svo fjálglega. Allt frá byrjun síðustu aldar hafa orðið miklar framfarir í landbúnaði á Íslandi, líkt og annars staðar. Hvatinn að öllum þeim framförum hefur verið sá sami, nefnilega hagkvæmni." Góður pistill, sem hittir beint í mark.

From Here to EternityKvikmyndir
Horfði í gærkvöldi á kvikmyndina From Here to Eternity. Áhrifarík óskarsverðlaunamynd sem lýsir herbúðalífi bandarískra hermanna á Hawaii, skömmu fyrir hina afdrifaríku árás Japana á Pearl Harbour 7. desember 1941, í seinni heimsstyrjöldinni. Hér er sögð saga boxara er kemur nýr á staðinn örfáum vikum fyrir árásina. Hann neitar að boxa fyrir herdeildina, sökum óhapps sem hann lenti í á fyrri herstöð og orsakaði það að hann var fluttur þaðan til Hawaii. Stórkostleg eðalmynd með ógleymanlegum leikurum og mörgum frægum og einstaklega vel gerðum atriðum, sem mikið hafa verið stæld, t.d. atriðið þegar Burt Lancaster og Deborah Kerr liggja í faðmlögum í fjörunni með blossandi brimið í kringum þau og ótal önnur. Leikurinn er eins og fyrr sagði hreinlega einstakur, þá má nefna einkum þau Montgomery Clift sem fer á kostum í hlutverki hermannsins Roberts L. Prewitt, Frank Sinatra í hlutverki hins síkáta Maggio og Donna Kerr í hlutverki unnustu Prewitts, en þau fengu óskarinn fyrir stórkostlega leikframmistöðu sína. Ekki má gleyma Burt Lancaster og Deborah Kerr í hlutverkum skötuhjúanna Wardens liðþjálfa og Karen Holmes, en þau léku sennilega ekki betur á ferli sínum en í þessari einstöku mynd, nema þá einna helst Lancaster í hinu eftirminnilega óskarsverðlaunahlutverki sínu í Elmer Gantry. Ekki má heldur gleyma þeim Ernest Borgnine, Jack Warden og Philip Ober. Allir þessir fjölbreyttu og stórkostlegu leikarar fara sannarlega á kostum undir einstaklega vandaðri óskarsverðlaunaleikstjórn Fred Zinnemann, en hann var þekktur fyrir það að ná fram einstaklega vönduðum leiktilburðum hjá þeim leikurum sem störfuðu undir hans stjórn. Sannarlega forvitnileg og virkilega vönduð klassík eftir skáldsögu James Jones. Ein af hinum einstöku klassamyndum

Dagurinn í dag
* 1638 Eldgos hófst í Vatnajökli
* 1928 Togarinn Jón forseti, fórst við Stafnes - 15 drukknuðu en 10 var bjargað
* 1941 Togarinn Gullfoss frá Reykjavík, fórst út af Snæfellsnesi - 19 fórust
* 1953 Barnaskólahúsið í Hnífsdal fauk af grunni og eyðilagðist í ofsaveðri
* 1975 Hornstrandir friðlýstar formlega

Snjallyrði dagsins
My name is Lester Burnham. This is my neighborhood; this is my street; this is my life. I am 42 years old; in less than a year I will be dead. Of course I don't know that yet, and in a way, I am dead already.
Lester Burnham í American Beauty