Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

25 febrúar 2004

Vladimir Putin forsetiHeitast í umræðunni
Vladimir Putin forseti Rússlands, vék í gær forsætisráðherra landsins, Mikhail Kasyanov, úr embætti og leysti ríkisstjórn hans alla frá störfum. Nýrri bráðabirgðastjórn var jafnframt falið að móta umbótastefnu sem fylgt verður eftir forsetakosningarnar, þann 14. mars nk. Vladimir Putin er öruggur um að ná endurkjöri í þeim kosningum. Búist hafði verið við því að forsætisráðherrann og stjórn hans sætu fram yfir kosningar, en svo stokkuð upp spilin. Putin kom verulega á óvart með þessari ákvörðun sinni, Hann tilkynnti um hana í beinni sjónvarpsútsendingu. Forseti Rússlands hefur samkvæmt rússnesku stjórnarskránni rétt á leysa forsætisráðherrann og ríkisstjórnina frá störfum. Boris Yeltsin var frægur í sinni forsetatíð 1991-1999 fyrir að sparka forsætisráðherrum eftir hentugleikum og skipta út ráðherrum. Viktor Khristenko varaforsætisráðherra, tekur við stjórnartaumunum fram yfir forsetakosningar. Fram hefur komið í fréttum að rússnesk hlutabréf hafi lækkað snarlega í verði við aðgerðir forsetans. Ekki kom á óvart að forsætisráðherranum skyldi sparkað, en tímasetningin eins og fyrr segir vekur athygli. Var orðið á allra vitorði að forsetinn þyldi ekki Kasyanov forsætisráðherra. Fylgi forsetans hefur að undanförnu mælst í kringum 80% fyrir kosningar og því ljóst að hans staða er mjög vænleg í rússneskum stjórnmálum.

Evrópa31. desember 2003 áttu 10.180 erlendir ríkisborgarar lögheimili hér á landi eða 3,5% landsmanna. Þetta er svipað hlutfall og ári áður en þá voru einstaklingar með erlent ríkisfang 10.221. Árin þar á undan fjölgaði íbúum með erlent ríkisfang ár frá ári og nærri lætur að þeim fjölgaði um helming á síðari hluta 10. áratugarins úr 1,8% árið 1995, að því er fram kemur hjá Hagstofu Íslands. Flestir erlendir ríkisborgar sem búsettir eru á Íslandi eru með ríkisfang í Evrópulöndum; 16% í einhverju Norðurlandanna og 52% í öðrum löndum Evrópu. Langfjölmennasti hópur erlendra ríkisborgara hér á landi voru Pólverjar (1.856) og í kjölfar þeirra fylgdu Danir (870). Fremur fáir erlendir ríkisborgarar voru með ríkisfang í löndum utan Evrópu ef frá eru talin nokkur Asíulönd, einkum Filippseyjar (609) og Taíland (474). Einstaklingar með ríkisfang í löndum Ameríku voru langflestir með bandarískt ríkisfang (521). Hlutfallslega búa flestir erlendir ríkisborgarar á Vestfjörðum, 6,2%. Á Suðurnesjum var hlutfallið 4,5, 3,8 á Austurlandi og 3,5% á höfuðborgarsvæðinu. Lægst hlutfall erlendra ríkisborgara er á Norðurlandi eystra, 2,1%. Árið 2003 voru 5.644 íbúa fæddir á Norðurlöndum. Af þeim höfðu 4.323 íslenskt ríkisfang, þ.e. 77,0%. Hlutfall íslenskra ríkisborgara af íbúum sem fæddir eru utan Norðurlanda er mun lægra. Athyglisverðar tölur hjá Hagstofunni.

MjólkSkýrsla nefndar Guðna Ágústssonar landbúnaðarráðherra, um stöðu og stefnumótun í mjólkurframleiðslu, var kynnt í gær. Í henni kemur margt mjög athyglisvert fram. Kúabændum, eða þeim sem leggja inn mjólk, hefur samkvæmt henni fækkað um tæplega 300 frá árinu 1998, búin hafa stækkað og meðalinnlegg á ári aukist um 30.000 lítra á sama tíma. Sala á drykkjarmjólk hefur dregist saman um 5% og á viðbiti um 8%. 12% meira selst af rjóma, og sala á jógúrt hefur aukist álíka mikið. Skyrið er gríðarlega vinsælt og hefur alla tíð verið, en seinustu ár hefur sala á skyri náð nýjum hæðum. Sala á því hefur tvöfaldast á seinustu fimm árum. 1998 var gerður samningur um starfsskilyrði í mjólkurframleiðslu, sá samningur rennur út síðsumars 2005. Ellefu manna nefnd var skipuð fyrir rúmu ári til að kanna framkvæmd þessa samnings og gera tillögur fyrir gerð næsta samnings. Áfram er gert ráð fyrir beingreiðslum til framleiðenda og að verðlagsnefnd búvara ákvarði verð mjólkurvara í heildsölu. Tel ég rétt að stokka upp landbúnaðarkerfið. Þessi skýrsla sannar svo ekki verður um villst að taka verður allt landbúnaðarkerfið algjörlega til skoðunar og stokka það upp.

HeimdallurSvona er frelsið í dag
Í pistli á frelsinu í dag fjallar Kári um lagasetningu á haustþingi um að framlengja einkaleyfi Háskóla Íslands til reksturs peningahappdrættis. Orðrétt segir: "Finnst mér það mjög undarlegt að nú á okkar tímum sé ríkið enn að skipta sér af markaðnum. Samkvæmt frumvarpi ráðherra átti lenging einkaleyfisins að gilda til næstu 15 ára. Það gerist þótt skýrt sé tekið fram samkvæmt áliti Samkeppnisráðs frá árinu 2000, að markmið laganna gætu farið gegn markmiðum samkeppnislaga um samkeppni á frjálsum markaði og að einkaleyfið gæfi happdrætti HÍ samkeppnislegt forskot. Þá var líka bent á það að einkaleyfið gæti brotið í bága við samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði. Samt sem áður sendi dómsmálaráðherra frá sér þetta frumvarp og kom málið með því til kasta þingsins, og fór meðal annars til umsagnar í allsherjarnefnd." Ennfremur segir: "Það er ekki að sjá að það séu margir í þingflokknum sem vilja að ríkið hætti afskiptum af happdrættismarkaðnum. Það að afnema einkaleyfi happdrættis HÍ, sem á síðasta ári gaf háskólanum rúman hálfan milljarð króna og þar af fóru 100 milljónir í svokallað einkaleyfisgjald sem rennur til ríkisins, stuðlar augljóslega að bættri samkeppni og bættum hag neytenda í landinu. Er það auk þess ekki betra fyrir HÍ að fá að halda eftir 100 milljónum sem annars hefðu farið í ríkissjóð?"

The InsiderKvikmyndir
Horfði í gærkvöldi á eðalmyndina The Insider. Er hvorttveggja í senn ádeila á tóbaksiðnaðinn bandaríska og þá ekki síst fréttaflutninginn í Bandaríkjunum. Hér segir af Dr. Jeffrey Wigand, sem rekinn var úr starfi sínu sem vísindamaður hjá Brown & Williamson, einu af stærstu tóbaksfyrirtækjum Bandaríkjanna, eftir að hafa reynt að benda yfirmönnum fyrirtækisins á hin heilsuspillandi áhrif tóbaksins. Hann sætir miklu harðræði frá fyrirtækinu eftir að þeim fer að gruna að hann muni jafnvel veita fjölmiðlum innanhússleyndarmál og upplýsingar sem gætu komið fyrirtækinu illa. Þeir skera á allar greiðslur til hans, hann fær líflátshótanir og það er njósnað um hann. Á svipuðum tíma fær fréttastjórnandi hjá hinum virta fréttaskýringaþætti CBS, 60 mínútur, Lowell Bergman, send vísindaleg gögn frá nafnlausum sendanda sem virðast veita innsýn í tóbaksheiminn. Sækist hann eftir aðstoð Jeffrey til að rýna í málið fyrir sig. Framundan er spennandi atburðarás. Óviðjafnanleg á öllum sviðum, meistaraleg leikstjórn Michael Mann er fagmannleg, kvikmyndataka Dante Spinetti er afar góð og er gott dæmi um fagmannlega og um leið nýstárlega kvikmyndatöku. Handrit Eric Roth og Michael Mann er hreint afbragð og sýnir persónur myndarinnar á heilsteyptan hátt og sýnir fram á mannlega hluta málsins. Leikurinn er ennfremur magnaður. Russell Crowe og Al Pacino fara á kostum í aðalhlutverkunum. Christopher Plummer er ógleymanlegur í hlutverki fréttamannsins fjölhæfa Mike Wallace. Mynd fyrir alla þá sem unna kvikmyndum með sannan og heilsteyptan boðskap sem er settur fram á glæsilegan hátt og sannar hiklaust að hún er í rauninni táknmynd hins góða sem sigrast loks á hinu illa og gerspillta.

Dagurinn í dag
* 1920 Önnur ríkisstjórn Jóns Magnússonar tók við völdum - sat í rúm tvö ár
* 1956 Nikita Khrushchev afneitar vinnubrögðum Stalíns við stjórn Sovétríkjanna í frægri ræðu
* 1964 Teikning eftir Sigmund Jóhannsson birtist í fyrsta skipti í Morgunblaðinu
* 1966 Bandaríska söngkonan Ella Fitzgerald kom til landsins og hélt tónleika
* 1990 Violeta Chamarro kjörin forseti Nicaragua - sandínistar missa völdin eftir 11 ára einræði

Snjallyrði dagsins
There's only one proper way for a professional soldier to die: the last bullet of the last battle of the last war.
George S. Patton í Patton