Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

11 maí 2004

Bush og RumsfeldHeitast í umræðunni
George W. Bush forseti Bandaríkjanna, sýndi afgerandi stuðning sinn við Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra, í gær með því að heimsækja Pentagon, höfuðstöðvar bandaríska varnarmálaráðuneytisins, í gær ásamt Dick Cheney varaforseta, og Condoleezzu Rice þjóðaröryggisráðgjafa. Stuðningsyfirlýsing þeirra er allt að því nauðsynleg Rumsfeld á þessari stundu, enda hefur hann veikst mjög í sessi vegna pyntinga bandarískra hermanna í Írak á stríðsföngum. Stöðugt fleiri krefjast þess að hann víki, nú síðast málgagn Bandaríkjahers í leiðara. Sífellt birtast nýjar og alvarlegri myndir sem sýna pyntingarnar. Hefur forsetinn nú krafist að sjá það alvarlegasta sem til er, en enn hefur ekki verið birt opinberlega, til að hann geti áttað sig betur á stöðunni. Eftir að hafa séð þær tjáði hann ógeð sitt á vinnubrögðum hermanna í Abu Ghraib fangelsinu. Hann sagði að hinir seku myndu verða dregnir til ábyrgðar. Í skýrslu Rauða krossins, sem lekið hefur verið í fjölmiðla kemur fram að fangar hafi kerfisbundið verið beittir harðræði í nánast öllum fangabúðum Bandaríkjamanna og meðferðin flokkist í mörgum tilvikum undir pyntingar, það stangast á við orð Bandaríkjamanna sem segja um einangrað tilvik í Abu Ghraib að ræða.

AlþingiAllsherjarnefnd Alþingis samþykkti á ellefta tímanum í gærkvöld nefndarálit meirihluta nefndarinnar um fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Meirihluti nefndarinnar leggur nú til þrjár breytingar á frumvarpinu. Þær þess efnis að markaðsráðandi fyrirtæki megi eiga allt að 5% alls í ljósvakamiðlum, ákvæði um takmörkun á eignaraðild markaðsráðandi fyrirtækja mun nú aðeins eiga við um fyrirtæki eða samsteypur sem velti yfir tveimur miljörðum króna á ári og að lokum að gildistöku laganna er frestað um heil tvö ár, til 1. júní 2006, í stað þess að þau taki þegar gildi með tveggja ára aðlögunartíma. Þannig geti allir hlutaðeigandi haft góðan tíma til að búa sig undir gildistöku þeirra. Hart var tekist á um frumvarpið á útbýtingarfundi þingsins klukkan hálfellefu í gærkvöldi, þar sem nefndarálit meirihluta nefndarinnar var formlega kynnt. Voru þar snörp orðaskipti milli þingmanna stjórnarandstöðunnar og forseta þingsins. Á þingfundi í morgun tókust forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar á um málið og fram kom að önnur umræða um fjölmiðlafrumvarpið myndi fara fram kl. 14.00 í dag. Þessar breytingatillögur eru spor í rétta átt, enn vekur athygli að ríkið sér ekki fært að taka á fjölmiðlun af hálfu ríkisins. Engin samstaða er um að taka alla fjölmiðlun undir sama hatt og setja leikreglur um alla fjölmiðlun. Það er miður.

MjólkÍ gær undirrituðu landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, og Bændasamtök Íslands, samning um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu er mun gilda í átta ár eða til 31. ágúst 2012. Eftir því sem fram kemur í samningnum munu mjólkurbændur fá rúma 28 milljarða úr ríkissjóði á þessum átta árum. Verðlagning mjólkur mun haldast óbreytt á samningstímanum, skv. þessu. Með þessu er gert ráð fyrir óbreyttri framleiðslustýringu við mjólkurframleiðslu en ákvörðun heildargreiðslumarks mjólkur mun byggja á neyslu innlendra mjólkurvara undanfarið ár. Þá er í samningnum óbreytt ákvæði um skiptingu heildargreiðslumarks mjólkur niður á lögbýli. Þessi samningur er með ólíkindum og einungis til þess ætlaður að standa vörð um úrelt landbúnaðarkerfi og gamla siði þar. Það eru mikil vonbrigði að Sjálfstæðisflokkurinn verji enn gamla framsóknarhagsmuni með þessum hætti og verður að teljast verulega ámælisvert að eina framtíðarsýnin í þessum geira sé byggð á fjarlægri fortíð sem mótuð var á seinustu öld. Það er með þessu aðeins haldið áfram sama veginn og engu breytt.

Ragnar JónassonSvona er frelsið í dag
Í dag birtist á frelsinu góður pistill eftir Ragnar og fjallar um frumvarp sem liggur nú fyrir Alþingi um meðferð opinberra mála. Í pistlinum víkur Ragnar aðallega að ákvæðum um símhleranir og fjallar um grundvallarreglur um friðhelgi einkalífs. Orðrétt kemur fram í pistlinum: "Það er að sjálfsögðu hlutverk ríkisvaldsins að tryggja öryggi borgaranna og geta símhleranir verið liður í því að sinna því hlutverki. Það er hins vegar einnig mikilvægt að hafa það í huga að ríkisvaldinu ber að haga málum með þeim hætti að friðhelgi borgaranna sé ekki skert frekar en nauðsynlegt er. En hvar á að draga mörkin? Sem fyrr segir getur það verið nauðsynlegt fyrir lögregluna að fá að taka upp símtöl og fylgjast með einstaklingum án þeirrar vitundar. Hér á landi hefur hins vegar verið fylgt þeirri eðlilegu reglu að slíkar ákvarðanir séu teknar af dómara, enda fela hleranir og tengdar aðgerðir að jafnaði í sér verulega skerðingu á þeim réttindum borgaranna sem snúa að friðhelgi einkalífsins. Þrátt fyrir að þær heimildir sem hið nýja frumvarp kveða á um séu bundnar skilyrðum verður samt sem áður að telja að þær feli í sér grundvallarbreytingar á núgildandi fyrirkomulagi, þ.e. gert er ráð fyrir þeim möguleika að hleranir og aðrar íþyngjandi aðgerðir gegn borgurunum geti hafist án þess að dómari hafi komið nálægt ákvörðuninni. Með slíkum breytingum er í raun verið að viðurkenna að meginreglan gildi ekki í öllum tilvikum og að við vissar kringumstæður sé hægt að sveigja hana til. Afar brýnt er að reynt sé að ná fram markmiðum lagafrumvarpsins með öðrum og vægari úrræðum heldur en að víkja með svo skýrum hætti frá meginreglunni."

Margaret ThatcherGreinaskrif
Í gær birtist á vef Sambands ungra sjálfstæðismanna, pistill sem ég skrifaði í tilefni þess að 25 ár voru liðin þann 4. maí sl. frá því að Margaret Thatcher varð forsætisráðherra Bretlands. Áður hafði pistillinn um Thatcher birst á heimasíðu minni. Þótti mér rétt í tilefni þessara tímamóta: aldarfjórðungsafmælis Thatcher-ismans og þeirra þáttaskila sem urðu við valdatöku hennar, að skrifa um ævi hennar og stjórnmálaferil. Margaret Thatcher er einstakur stjórnmálamaður og fyrirmynd okkar allra sem teljum okkur eiga hugsjónalegt heimili á frjálshyggjuvæng hægrihliðar stjórnmálanna. Hún var forsætisráðherra Bretlands í rúman áratug og vann sigur í þrennum þingkosningum, hún var eini forystumaður breskra stjórnmála sem náði slíkum áfanga á 20. öld og sat lengst á þeim tíma. Hún er án nokkurs vafa einn af fremstu leiðtogum hægrimanna á 20. öld, markaði mikinn sess í sögu aldarinnar. Kraftmikil verk hennar og hugsjónaleg forysta verða ávallt í minnum höfð. Bendi ég öllu stjórnmálaáhugafólki á að lesa ævisögur hennar sem gefnar voru út á tíunda áratugnum: The Downing Street Years og The Path to Power. Ennfremur er skyldulesning fyrir þá sem vilja kynna sér feril Thatcher að lesa bókina Statecraft: Strategies for a Changing World.

Dagurinn í dag
1921 Vökulögin samþykkt á þingi - höfðu gríðarleg áhrif til hins betra fyrir sjómenn
1955 Kópavogur fær kaupstaðarréttindi - þá bjuggu þar 3.000 manns en nú tæp 30.000
1971 The Daily Sketch, elsta dagblað Bretlands, stofnað 1909, kemur út hinsta sinni
1981 Reggae söngvarinn Bob Marley, deyr úr krabbameini, 36 ára að aldri
1985 50 knattspyrnuáhugamenn láta lífið er eldur kviknar á leik í Bradford á Englandi

Snjallyrði dagsins
Age is not a particularly interesting subject. Anyone can get old. All you have to do is live long enough.
Groucho Marx skemmtikraftur